Fara beint í efnið

Telji málshefjandi eða umboðsmaður hans að álit landlæknis byggi á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum eða að á álitinu sé annmarki sem hefur áhrif á efnislega niðurstöðu þess, kann að vera efni til þess að óska eftir endurupptöku málsins. Áður en slíkt er gert er mikilvægt að hafa eftirfarandi í huga:

  • Álit landlæknis er ekki stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem niðurstaða landlæknis kveður ekki með bindandi hætti á um rétt og skyldur manna heldur faglegt álit landlæknis m.a. á því hvort gætt hafi verið réttra aðferða við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7323/2012, kemur fram að þrátt fyrir að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt, sbr. áðurnefnt ákvæði, þá gildir ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga ekki í málum þessum heldur óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar.

  • Við mat á því hvort landlækni beri að gefa nýtt álit er skilyrði að vafi sé á því að útgefið álit hafi byggst á réttum og fullnægjandi upplýsingum. Um þá ákvörðun gilda jafnframt lög nr. 41/2007 og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Við mat á því verður landlæknir að horfa til þess hvers eðlis umræddur annmarki er, sé hann til staðar, og hver séu efnisleg áhrif hans.

  • Beiðni um endurupptöku þarf að fylgja rökstuðningur um framangreint.

  • Embætti landlæknis leggur áherslu á að málsmeðferð í kvartanamálum er tímafrek og leggja sérfræðingar embættisins mat á fyrirliggjandi gögn, sjúkraskrárupplýsingar og greinargerðir málsaðila. Einnig er að jafnaði óskað eftir áliti óháðra sérfræðinga við meðferð kvartanamála. Veigamiklar ástæður þurfa því að liggja fyrir að kvartanamál sé endurupptekið.

  • Telji landlæknir að ekki sé sýnt fram á skilyrði fyrir endurupptöku máls er slíkri beiðni synjað.

  • Ákvörðun um synjun endurupptöku er kæranleg til ráðherra innan þriggja mánaða frá móttöku synjunar.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis