Fara beint í efnið

Hreyfing er hvers konar vinna vöðva sem eykur orkunotkun umfram það sem er í hvíld. Það nær yfir nánast allar athafnir sem fela í sér hreyfingu með einum eða öðrum hætti. Hér er meðal annars átt við að ferðast á milli staða gangandi eða á hjóli, vinna heimilisstörf, garðvinnu eða aðra vinnu sem krefst hreyfingar, ýmis konar leiki, íþróttir og aðra skipulagða þjálfun.

Hreyfingu má einnig greina út frá eftirfarandi þáttum:

  • Tími - hversu lengi hreyfing er stunduð í hvert skipti, samanlagður tími yfir daginn og samanlagður tími í hreyfingu á viku.

  • Tíðni - hversu oft hreyfing er stunduð.

  • Tegund - hvers konar hreyfing er stunduð.

  • Ákefð - hversu erfið hreyfingin er – til dæmis röskleg (miðlungserfið) eða kröftug (erfið).

Röskleg hreyfing

Röskleg hreyfing er miðlungserfið hreyfing sem krefst þrisvar til sex sinnum meiri orkunotkunar en hvíld. Við rösklega hreyfingu verða hjartsláttur og öndun heldur hraðari en venjulega en hægt er að halda uppi samræðum.

Dæmi: röskleg ganga, hjóla, synda, dansa, garðvinna og heimilisþrif.

Kröftug hreyfing

Kröftug hreyfing er erfið hreyfing sem krefst meira en sex sinnum meiri orkunotkunar en hvíld. Kröftug hreyfing kallar fram svita og mæði þannig að erfitt er að halda uppi samræðum.

Dæmi: fjallganga, kröftug lotuþjálfun, hlaup, fótbolti og önnur hreyfing stunduð af krafti.

Almennt má miða við að 2 mínútur af rösklegri hreyfingu jafngildi 1 mínútu af kröftugri hreyfingu. Ráðlagt er að fullorðnir hreyfi sig rösklega í minnst 150 mínútur á viku eða kröftuglega 75 mínútur á viku eða stunda blöndu af sambærilegu magni af rösklegri og kröftugri hreyfingu.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis