Um embættið

Embætti landlæknis starfar í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Samkvæmt lögunum er embættinu ætlað að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og efla lýðheilsustarf í landinu. Um hlutverk embættisins gilda auk þess ákvæði annarra laga og reglugerða. Lesa meira

Hlutverk
Hlutverk embættisins í hnotskurn er að:

  • Stuðla að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu, heilsueflingu og öflugum forvörnum.

Gildi
Embætti landlæknis hefur sett sér þrjú gildi sem starfsmönnum ber að hafa að leiðarljósi. Gildin eru:

  • Ábyrgð – Virðing – Traust

Framtíðarsýn
Í samræmi við markmið laga um landlækni og lýðheilsu er framtíðarsýn embættisins svohljóðandi:

  • Góð heilsa og vellíðan landsmanna byggð á heilsueflingu, forvörnum og aðgengilegri og öruggri heilbrigðisþjónustu sem styðst við bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.


Stjórn embættisins og skipulag
Landlæknir er Alma Dagbjört Möller og var hún skipuð í embætti 1. apríl 2018. Í framkvæmdastjórn Embættis landlæknis sitja fimm sviðsstjórar auk landlæknis.

Embætti landlæknis starfar undir yfirstjórn velferðarráðuneytisins. Aðsetur embættisins er að Rauðarárstíg 10, Reykjavík. Sjá: Afgreiðsla.

Lesa meira:

------------------

Meginhlutverk embættisins samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu eru þessi:

 • Að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu.
 • Að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni.
 • Að efla lýðheilsustarf og meta reglulega árangur af því starfi.
 • Að vinna að gæðaþróun.
 • Að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki.
 • Að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með lyfjanotkun landsmanna.
 • Að veita starfsleyfi til löggiltra heilbrigðisstétta.
 • Að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu.
 • Að bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, sbr. sóttvarnalög.
 • Að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu.
 • Að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur á hverjum tíma og styðja við menntun á sviði lýðheilsu.
 • Að stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins.

Fleiri lagaákvæði um hlutverk embættisins er að finna í sóttvarnalögum nr. 19/1997 og í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Einnig er fjallað um ýmis hlutverk og skyldur embættisins í reglugerðum, sjá nánar undir Lög og reglugerðir á þessum vef.

Til baka

Síðast uppfært 28.04.2019