Um embættið

Embætti landlæknis starfar í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Samkvæmt lögunum er embættinu ætlað að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og efla lýðheilsustarf í landinu. Um hlutverk embættisins gilda auk þess ákvæði annarra laga og reglugerða. Lesa meira

Hlutverk
Hlutverk embættisins í hnotskurn er að:

  • Stuðla að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu, heilsueflingu og öflugum forvörnum.

Gildi
Embætti landlæknis hefur sett sér þrjú gildi sem starfsmönnum ber að hafa að leiðarljósi. Gildin eru:

  • Ábyrgð – Virðing – Traust

Framtíðarsýn
Í samræmi við markmið laga um landlækni og lýðheilsu er framtíðarsýn embættisins svohljóðandi:

  • Góð heilsa og vellíðan landsmanna byggð á heilsueflingu, forvörnum og aðgengilegri og öruggri heilbrigðisþjónustu sem styðst við bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.

Stjórn embættisins og skipulag
Landlæknir er Alma Dagbjört Möller og var hún skipuð í embætti 1. apríl 2018. Í framkvæmdastjórn Embættis landlæknis sitja fimm sviðsstjórar auk landlæknis.

Aðstoðarmaður landlæknis er Kjartan Hreinn Njálsson. Aðstoðarmaður landlæknis liðsinnir landlækni í daglegum störfum. Aðstoðarmaður sinnir jafnframt fjölmörgum verkefnum í umboði landlæknis, m.a. heldur hann utan um fyrirspurnir og erindi frá fjölmiðlum og Alþingi og tekur við fyrirspurnum frá almenningi. Aðstoðarmaður kemur einnig að gerð dreifibréfa landlæknis auk fjölda annarra verkefna.

Embætti landlæknis starfar undir yfirstjórn velferðarráðuneytisins. Aðsetur embættisins er að Katrínartúni 2, Reykjavík. Sjá: Afgreiðsla.

Landlæknir er skipaður af heilbrigðisráðherra til fimm ára í senn og starfar í umboði ráðherra og ber ábyrgð gagnvart ráðherra í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007, önnur lög sem við eiga, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Landlæknir er framkvæmdastjóri embættisins og ber ábyrgð á heildarstarfsemi þess, fjárhag og mannauði. Landlæknir ber ábyrgð á að stjórnun og skipulag embættisins sé þannig að embættið geti sinnt hlutverki sínu sem best. Landlæknir ber ennfremur ábyrgð á stefnu og starfsáætlun embættisins og að hún sé í takti við stefnu ráðherra og áherslur stjórnarsáttmála hverju sinni. 

Lesa meira:

------------------

Meginhlutverk embættisins samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu eru þessi:

 • Að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu um málefni á verksviði embættisins
 • Að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni.
 • Að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa og styðja við menntun á sviði lýðheilsu.
 • Að vinna að gæðaþróun.
 • Að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki.
 • Að hafa eftirlit með lyfjaávísunum, fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna.
 • Að hafa eftirlit með starfsemi lífsýnasafna og safna heilbrigðisupplýsinga í samræmi við lög um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga.
 • Að veita starfsleyfi til löggiltra heilbrigðisstétta.
 • Að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur á hverjum tíma og styðja við menntun á sviði lýðheilsu.
 • Að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu.
 • Að bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, sbr. sóttvarnalög.
 • Að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu.
 • Að stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins.
 • Að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu
 • Að meta reglulega árangur af lýðheilsustarfi og bera hann saman við sett markmið
 • Að sinna öðrum verkefnum, samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

Önnur verkefni eru meðal annars að gefa út fagleg fyrirmæli og leiðbeiningar, halda skrá yfir rekstraraðila heilbrigðisþjónustu, skipuleggja og halda skrár á landsvísu um heilsufar, dánarmein, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustu, gefa út heilbrigðisskýrslur, senda ráðherra árlega samantekt um óvænt atvik, niðurstöður rannsókna og afdrif mála, meta gæði og árangur heilbrigðisþjónustu og birta niðurstöður í heilbrigðisskýrslum. Þá er víðtækt alþjóðlegt samstarf á meðal verkefna embættisins.

Fleiri lagaákvæði um hlutverk embættisins er að finna í sóttvarnalögum nr. 19/1997 og í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Einnig er fjallað um ýmis hlutverk og skyldur embættisins í reglugerðum, sjá nánar undir Lög og reglugerðir á þessum vef.

Til baka

Síðast uppfært 01.12.2019