Fara beint í efnið

Umbótahópur til að bæta öryggi umhverfis

Haustið 2017 var stofnaður umbótahópur á Landspítala til að bæta öryggi umhverfis á legudeildum geðsviðs í kjölfar alvarlegra atvika á geðdeild Landspítala. Markmið umbótaverkefnis var að staðla umhverfi legudeilda í geðþjónustu Landspítala samkvæmt gagnreyndri þekkingu.

Umfangsmikil leit var gerð að hjálplegu efni í upphafi verkefnavinnunnar, bæði rannsóknum, verklagi og stöðlum. Niðurstöður heimildarleitar leiddu í ljós að engir staðlar voru til um hönnun, frágang eða útfærslu umhverfis á geðdeildum á Íslandi og lítið var til í öðrum löndum. Gátlisti sem var hannaður fyrir hersjúkrahús í Bandaríkjunum (The Mental Health Enviroment of Care Checklist) reyndist gagnlegur ásamt rannsóknum á tíðni og umfangi sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga. Ekkert matstæki eða fullnægjandi staðlar um öryggi umhverfis á geðdeildum fannst og því var ráðist í þá vinnu að skilgreina og útbúa lágmarks öryggiskröfur fyrir geðdeildir á Landspítala sem studdist við gagnreynda þekkingu á efninu. Legudeildir voru auk þess flokkaðar í áhættustig 1 – 3 eftir eðli og umfangi þjónustunnar, en áhætta getur verið ólík eftir sérhæfingu hverrar legudeildar, fjölda atvika og bráðleika á hverjum stað fyrir sig. Deildir á áhættustigi 1 eru lokaðar deildir fyrir einstaklinga sem eru metnir hættulegir sjálfum sér og/eða öðrum.

Í umbótahópi voru starfsmenn frá geðþjónustu og fasteignaþjónustu Landspítala. Eyrún Thorstensen var verkefnastjóri umbótaverkefnis. 

Rannsóknir  

Árlega deyja um milljón manns í heiminum vegna sjálfsvíga (Kozel, Grieser, Abderhalden og Cutcliffe, 2016). Á Íslandi deyja um það bil 30-50 manns vegna sjálfsvíga ár hvert. Rannsóknir á sjálfsvígstilraunum og sjálfsvígum hafa sýnt, að unnt er að draga úr tíðni sjálfsvígstilrauna og sjálfsvíga á geðdeildum og meðferðar- og búsetustofnunum fyrir einstaklinga sem metnir eru hættulegir sjálfum sér og öðrum, með aukinni þekkingu á sjálfsvígsatferli og áhættu í umhverfi deilda og stofnana.

Rannsókn James, Stewart, Wright og Bowers, (2012) skoðaði 500 skráð tilvik sjálfskaðandi hegðunar og sjálfsvígstilrauna hjá inniliggjandi sjúklingum á geðdeildum í Englandi og Wales. Niðurstöður þeirra sýndu að konur (65%) gerðu oftar sjálfsvígstilraunir eða sýndu sjálfskaðandi atferli en karlar (35%) en sjálfsvígstilraunir karla voru þó oft alvarlegri. Flestar sjálfskaða- og sjálfsvígstilraunir voru gerðar með því að skera sig (38,8%), þrengja að öndunarvegi (20,1%), berja eða slá höfði í vegg (14,5%) og með eitrun (8,9%). Einnig kom í ljós að flest atvikin áttu sér stað á sjúkrastofu sjúklinga (21%), í sturtuherbergi (9,2%) og á salerni (4,2%). Einnig kom í ljós að slysagildrur í umhverfi deildanna voru margvíslegar. Algengast var að nota hurðir og glugga til sjálfsskaða- eða sjálfsvígstilrauna (21,7%) en ýmislegt annað var einnig notað eins og fatnaður (8,7%), rakvélar (8,7%), eldhúsáhöld (8,5%), lyf (7,8%), innréttingar (2%), rafmagnssnúrur (2%), plastpoka (1,6%), rúmföt (1,3%) og eitur (0,7%). Flestar tilraunirnar voru gerðar milli klukkan 20-23 á kvöldin en ekki kom fram marktækur munur þegar skoðaður var munur milli vikudaga eða mánaða. Afleiðingar sjálfsskaða- eða sjálfsvígstilrauna voru oftast litlar eða engar en í 0,2% tilvika var skráður alvarlegur skaði.

Önnur rannsókn sem gerð var á geðdeildum hersjúkrahúsa í Bandaríkjunum árin 1999-2011 skoðaði 243 rótargreiningar vegna sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að flest atvikin áttu sér stað á sjúkrastofu sjúklinga (42,1%) og á salerni eða baðherbergi (28,1%). Þær aðferðir sem voru notaðar voru hengingar (43,6%), að skera sig (22,6%), að þrengja að öndunarvegi (15,6%) og lyf eða eitrun (7,8%). Af þeim sem náðu að fyrirfara sér var henging algengasta aðferðin (75,9%) og í 31,8% tilfella voru notuð belti. Einnig kom í ljós að þegar belti eða snara var fest í fastan punkt var sjálfsvígstilraun líklegri til að valda dauða. Af þeim sem náðu að hengja sig var snara fest við hurðar eða hurðarhúna (40,6%), sjúkrarúm (höfða- eða fótagafl, rúmgrindur o.fl) (13,2%), sturtuhausa eða blöndunartæki (12,3%) og skápa og innréttingar (6,6%) (Mills, King, Watts og Hemphill, 2013).

 Árið 2007 var MHEOCC gátlistinn (The Mental Health Enviroment of Care Checklist) innleiddur af VHA á öllum hersjúkrahúsum til að auka öryggi umhverfis í þeim tilgangi að fækka sjálfsvígum inniliggjandi sjúklinga á geðdeildum. Fyrstu tvö árin eftir innleiðingu gátlistans voru greindar 8.298 áhættur í umhverfi geðdeildanna og sjálfsvígum inniliggjandi sjúklinga fækkaði umtalsvert. Tíðni sjálfsvíga var áður 2,64 fyrir hverjar 100.000 innlagnir en eftir innleiðingu MHEOCC gátlistans fækkaði sjálfsvígum í 0,87 fyrir hverjar 100.000 innlagnir. Rannsóknin sýndi að með notkun gátlistans voru 87% minni líkur á sjálfsvígum sjúklinga á geðdeildum (Watts o.fl., 2012).

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis