Fara beint í efnið

Allar bólusetningar eru valfrjálsar á Íslandi.

Fyrir almennar bólusetningar fást mest áhrif fyrir samfélagið ef sem flestir þiggja bólusetninguna. Fyrir flestar slíkar bólusetningar eru til viðmiðunarmörk varðandi fullnægjandi þátttöku. Fyrir sum bóluefni eru mörkin vel skilgreind og sannreynt að hætta er á að faraldrar brjótist út ef þeim er ekki náð í samfélaginu (t.d. mislingar) en fyrir önnur byggja þau á hefð (barnaveiki) eða stærðfræðilíkönum (HPV). Ef þátttaka er undir viðmiðunarmörkum er mikilvægt að greina ástæður þess og reyna að bregðast við á markvissan hátt, t.d. með bólusetningarátaki og/eða efla upplýsingagjöf um bólusetningar almennt eða til tiltekinna hópa, s.s. ákveðinna málhópa. Sóttvarnalæknir hefur árlegt eftirlit með þátttöku í almennum bólusetningum en rauntímaeftirlit með smábarnabólusetningum og skólabólusetningum er í höndum heilsugæslunnar.

Allar bólusetningar sem eru gerðar á Íslandi á að skrá í bólusetningagrunn sem sóttvarnalæknir hefur umsjón með. Þar að auki er mælt með að skráðar séu mikilvægar bólusetningar sem gerðar eru erlendis, t.d. almennar bólusetningar þegar barn flytur milli landa eða ef mælt er með kerfisbundnum endurbólusetningum, s.s. með COVID-19 bólusetningar. Rétt skráning er forsenda þess að hægt sé að leggja mat á líkurnar á að faraldur brjótist út berist smitandi sjúkdómur til landsins sem almennt er bólusett gegn.

Höfnun almennrar bólusetningar er skráð í bólusetningagrunn. Það er forsenda þess að hægt sé að fylgjast með þróun hafnana og leita úrræða ef tíðni þeirra eykst. Réttur til bólusetningar helst þótt henni sé hafnað, ef ekki gilda efri aldurstakmörk á meðmælum með bólusetningunni. Barn getur þegið bólusetningu sem forráðamenn höfnuðu, þegar barnið nær aldri til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigin heilsu (16 ár skv. lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, kafli IV gr. 25-26).

Þátttaka í bólusetningum áhættuhópa er slök á Íslandi en eftirlit með henni er takmörkunum háð þar sem upplýsingar um flesta áhættuþætti koma ekki fram í gögnum sem sóttvarnalæknir hefur aðgang að. Framboð bóluefna fyrir áhættuhópa sem sóttvarnalæknir á ekki samninga um er ótryggt. Bæði framboð og verð hafa greinileg áhrif á þátttöku áhættuhópa í bólusetningum sem mælt er með til að draga úr skaða vegna sjúkdóma sem hafa hærri tíðni eða bera með sér aukna hættu á alvarlegum veikindum fyrir áhættuhópa. Mikilvægt er að efla eftirlit með þátttöku áhættuhópa í inflúensu-, lungnabólgu- og kíghóstabólusetningum en án nánari greiningar á því hverjir þiggja og hverjir þiggja ekki er útilokað að gera markvissar áætlanir um að efla þátttökuna sjálfa.

Hér að ofan eru tenglar á skýrslur um þátttöku í almennum bólusetningum barna frá árinu 2012.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis