Fara beint í efnið

Viðbúnaður gegn vá - viðbragðsáætlanir

Joðtöflur (kalíumjoðíð) og notkun þeirra við geislamengun

Geislavirkt joð

  • Geislavirkt joð getur borist í líkamann með innöndun geislavirkra agna eða neyslu geislamengaðrar fæðu.

  • Geislavirkt joð safnast aðallega upp í skjaldkirtli og getur valdið frumuskemmdum í skjaldkirtilsvef, aðallega hjá yngra fólki.

  • Fyrirbyggjandi meðferð með joðtöflum (kalíumjoðíð – potassium iodide) getur varið skjaldkirtilsfrumur gegn skaða af völdum geislavirks joðs.

  • Lyfið ver hins vegar ekki líkamann fyrir áhrifum geislavirks joðs utan skjaldkirtils né gegn geislun af öðrum toga.

Skjól innandyra er aðal varúðarráðstöfunin fyrir geislamengun

  • Ef hætta stafar af geislun skal huga að brottflutningi af svæðinu skv. leiðbeiningum stjórnvalda.

  • Ef brottflutningur er ekki mögulegur er skjól innandyra helsta varúðarráðstöfunin til að draga úr geislaáhrifum.

  • Að taka joðtöflur er aðeins viðbótarráðstöfun við skjól innandyra.

  • Fylgið ávallt leiðbeiningum sem koma frá stjórnvöldum.

Skammtar af joðtöflum fyrir mismunandi aldurshópa

Aldur

Skammtur

<1 mán

16,25 mg (1/4 tafla)

1 mán - 3 ára

32,5 mg (1/2 tafla)

3 - 12 ára

65 mg (1 tafla)

12 - 40 ára

eða barnshafandi/mjólkandi óháð aldri *

130 mg (2 töflur)

>40 ára (ekki barnshafandi) **

Ekki er mælt með notkun joðtaflna

* Til að vernda barnið
** Lítil gagnsemi er af joðmeðferð fyrir 40 ára og eldri (sem ekki eru barnshafandi). Fólk á þeim aldri er í mun minni hættu á að fá krabbamein í skjaldkirtil en yngra fólk auk þess sem hætta á aukaverkunum joðmeðferðar er meiri.

Hvenær skal hefja inntöku á joðtöflum?

  • Ráðlagt er að taka lyfið um leið og vitað er að mengun er yfirvofandi (innan sólarhrings fyrir útsetningu) eða svo fljótt sem auðið er eftir að mengunar verður vart.

  • Ekki er mælt með að hefja notkun ef meira en 8 klukkutímar eru liðnir frá geislamengun á svæðinu, lyfið getur þá tafið hreinsun geislavirks joðs úr skjaldkirtli.

Hve lengi skal taka joðtöflur?

  • Oftast nægir einn skammtur. Ráðlagður dagskammtur er tekinn í einu lagi.

  • Ef ekki reynist mögulegt að flýja geislamengaða svæðið er mælt með daglegri inntöku lyfsins, en þó ekki fyrir börn <1 mánaða gömul né barnshafandi/mjólkandi einstaklinga.

    ATH. Eingöngu skal taka lyfið skv. leiðbeiningum stjórnvald þegar um yfirvofandi hættuástand að ræða.

Aukaverkanir

  • Aukaverkanir af kalíumjoðíði eru fátíðar en helstar eru ógleði, magaóþægindi og húðútbrot sem ganga yfir.

Frábendingar

  • Ekki er mælt með joðtöflum fyrir þá sem hafa undirgengist brottnám á skjaldkirtli.

  • Þeir sem eru með þekkt joðofnæmi eiga að forðast að taka lyfið.

  • Þeir sem eru með húðsjúkdóminn dermatitis herpetiformis eða æðasjúkdóminn hypocomplementemic vasculitis eiga að forðast að taka lyfið.

  • Þeir sem nota lyf sem innhalda joð, s.s. lyf við skjaldkirtilssjúkdómum, lithium og/eða blóðþrýstings-lækkandi lyf úr flokkum ACE hemla eða kalíumsparandi þvagræsilyfja ættu að ráðfæra sig við sinn lækni um notkun lyfsins.

Eftirlit eftir notkun kalíumjoðíðs

  • Einstaklingar sem verða fyrir mengun vegna geislavirks joðs þurfa eftirlit vegna geislunarinnar eftir aðstæðum.

  • Sama á við um börn sem eru álitin í hættu á geislamengun á fósturskeiði.

Meðferð joðtafla

  • Taka má kalíumjoðíð í töfluformi eða uppleystu formi. Töflurnar valda síður aukaverkunum frá maga en uppleystar.

  • Geyma á töflurnar í pakkningum á þurrum og svölum stað. Geymsluþol er mikið svo ekki er þörf á að henda útrunnum töflum sem geymdar hafa verið við réttar aðstæður.

Sóttvarnalæknir

Aðalheimild: WHO – Iodine thyroid blocking: Guidelines for use in planning and responding to radiological and nuclear emergencies

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis