Fara beint í efnið

Sjálfsvíg - tölur

Skráning sjálfsvíga og túlkun talna

Á heimsvísu eru sjálfsvíg meðal 20 algengustu dánarorsaka, en um 800.000 einstaklingar deyja árlega í sjálfsvígi. Á síðastliðnum áratug hefur árlegur fjöldi sjálfsvíga á Íslandi verið á bilinu 27-49, eða að meðaltali 39 á ári.

Túlkun talna

Tölur um sjálfsvíg eru lágar hér á landi miðað við stærstu flokka dánarorsaka og þjóðin fámenn. Litlar breytingar á fjölda valda því óhjákvæmilega nokkrum sveiflum í dánartíðni. Vegna þessa er mikilvægt að túlka tölur einstakra ára af varúð enda getur verið um tilviljanankennda sveiflu að ræða. Til þess að jafna sveiflur milli ára og draga fram langtímaþróun sjálfsvíga getur verið heppilegra að notast við meðaltöl nokkurra ára heldur en tíðni hvers árs. 

Hvernig eru sjálfsvíg skráð?

Tölur um dánarorsakir byggja á dánarvottorðum einstaklinga sem áttu lögheimili á Íslandi við andlát. Dánarmein eru skráð af dánarvottorðum í dánarmeinaskrá embættis landlæknis og kóðuð samkvæmt nýjustu útgáfu og uppfærslum alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (International Classification of Diseases, ICD). Frá árinu 1996 hafa dánarmein verið kóðuð eftir 10. útgáfu flokkunarkerfisins, ICD-10, og nýjustu uppfærslum hverju sinni. Tölfræði um dánarorsakir er birt árlega eftir að skráningu og kóðun vottorða undangengins árs og gæðaprófunum er lokið.

Embætti landlæknis birtir árlega tölur um sjálfsvíg eins og þau eru skráð í dánarmeinaskrá. Þessi samantekt tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði er vísvitandi sjálfsskaði (skráð með ICD-10 kóða: X60-X84). Ekki eru talin með andlát vegna atburða þar sem ásetningur er óviss (ICD-10: Y10-Y34). Með undirliggjandi orsök andláts  er vísað í þann sjúkdóm eða áverka sem hóf þá keðju atburða sem leiddu beint til andláts eða þær aðstæður slyss eða ofbeldis sem leiddu til banvænna áverka. Þessi skilgreining er m.a. notuð af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni við tölfræðilegan samanburð á milli landa. 

Erlendur samanburður

Ýmsar alþjóðlegar stofnanir annast söfnun og framsetningu á tölum um dánarmein. Ísland á aðild að slíku samstarfi og sendir meðal annars árlega gögn í alþjóðlegan gagnagrunn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO Global Mortality Database. Tölfræði úr þessum gagnagrunni má nálgast á aðgengilegan hátt í European Mortality Database sem birtir árlega dánartíðni ýmissa fyrirfram skilgreindra flokka dánarorsaka í aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, eftir kyni og aldri. 

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis