Fara beint í efnið

Einstaklingur greinist með mislinga á Norðausturlandi

20. apríl 2024

Sóttvarnalæknir fékk tilkynningu í gærkvöldi vegna mislinga sem höfðu greinst hjá fullorðnum einstaklingi á Norðurlandi. Grunur vaknaði um mislinga og var greining staðfest í kjölfarið. Viðkomandi einstaklingur er í einangrun í heimahúsi.

Mislingar drengur

(POLSKI - ENGLISH)

Mislingar eru bráðsmitandi skæður veirusjúkdómur sem smitar frá öndunarvegi. Einkenni geta komið fram hjá smituðum 1-3 vikum eftir smit. Einkenni eru helst hiti, kvefeinkenni, augnroði og/eða útbrot á húð. Frekari upplýsingar um mislinga má finna á vef embættis landlæknis.

Smithætta

Mislingar eru almennt smitandi í fjóra daga fyrir og fjóra daga eftir að útbrotin koma fram (lengur ef áfram með einkenni eins og hita). Óbólusettir eru í áhættu fyrir smiti og veikindum. Þau sem hafa verið bólusett fyrir mislingum í tvígang, eða fengið mislinga áður, smitast mjög ólíklega en ef það gerist eru einkenni oftast væg.

Smithætta fyrir óbólusetta er fyrir hendi:

  • Á Þórshöfn, sérstaklega meðal samstarfsmanna þess veika, sem munu fá upplýsingar um smitið frá vinnuveitanda.

  • Meðal þeirra sem sóttu Fjölmenningarhátíð á Vopnafirði sunnudaginn 14. apríl síðastliðinn.

  • Við afmarkaðar aðstæður á Akureyri, haft hefur verið samband við hlutaðeigandi þar.

Sýkingavarnir

Þau sem telja sig vera með mislinga, hvetjum við til að hafa samband við næstu heilsugæslu símleiðis (1700) eða gegnum netspjall Heilsuveru. Vinsamlegast mætið ekki á heilsugæslu eða sjúklingamóttöku án þess að hafa fyrst samband, nema í neyð.

Þau sem hafa engin einkenni en eru hugsanlega útsett fyrir smiti, sérstaklega óbólusett gegn mislingum sem ekki hafa fengið mislinga áður, ættu að halda sig til hlés og vera vakandi fyrir einkennum í 3 vikur frá útsetningu.

Sérstaklega ætti að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem barnshafandi, börn yngri en 5 ára, einstaklinga á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum. Heilbrigðisstarfsfólk í þessum aðstæðum þarf að fá sérstakar leiðbeiningar frá sínum vinnustað.

Nánar um sýkingavarnir vegna mislinga.

Bólusetning

Bólusetning gegn mislingum er með tveimur skömmtum af MMR bóluefninu (ver gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum). Á Íslandi er bólusett við 18 mánaða aldur og við 12 ára aldur. Þar sem smit hafa komið upp verður skömmtum flýtt eftir því sem við á en tveir skammtar eftir 12 mánaða aldur telst full bólusetning fyrir lífstíð þótt venjan sé að seinni skammtur sé gefinn 12 ára börnum hér á landi.

Ef þú telur þig þurfa bólusetningu við mislingum, hafðu samband við þína heilsugæslu símleiðis eða gegnum netspjall Heilsuveru.

Sóttvarnalæknir