Fara beint í efnið

Alþjóðlegur berkladagur 2024

24. mars 2024

24. mars er alþjóðlegi berkladagurinn, en þann dag árið 1882 lýsti Dr. Robert Koch því yfir að hann hefði uppgötvað orsök berklasjúkdómsins, berklabakteríuna Mycobacterium tuberculosis.

Mynd. Alþjóðlegi berkladagurinn

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO velur þema, 2024 er þemað áfram „Jú! Við getum bundið enda á berkla!“

Berklar eru fremur sjaldgæfir hér en u.þ.b. eitt tilfelli greinist í hverjum mánuði (6-20 tilfelli á ári). Á tímabilinu 2015-2022 var tilkynnt um 85 tilfelli berklaveiki hér á landi. Þar af greindist um 21 við skimun vegna dvalarleyfis (25%), 18 einstaklingar (21%) með íslenskt ríkisfang og 46 einstaklingar (54%) af erlendum uppruna greindust vegna eigin einkenna eða berklaveiki hjá heimilisfólki. Flestir með íslenskt ríkisfang eru taldir hafa smitast hér, ýmist á yngri árum (fólk fætt fyrir 1960) eða nýlega, fremur sjaldgæft er að íslenskir ríkisborgarar geti með vissu rakið sýkinguna til dvalar erlendis.

Skimun vegna dvalarleyfis er mikilvægt tól til að grípa þá sem eru þegar veikir af berklum og geta verið smitandi, en við sama tækifæri er einnig reynt að finna sem flesta sem eru smitaðir af berklum en ekki veikir, til að bjóða fyrirbyggjandi meðferð. Skimunin og e.t.v. meðferð við virkum berklum eða berklasmiti er oft fyrstu kynni fólks af heilbrigðiskerfinu í nýju landi. Fólk sem er undanskilið skimun vegna dvalarleyfis (18% af berklatilfellum 2015-2022) hefur oft ekki mikið minni bakgrunnsáhættu en fólk frá löndum sem fær skimun við komuna til landsins, tíðni berkla er nánast sú sama í Rúmeníu (ekki skimað) og Úkraínu (skimað).

Hvernig getum við dregið enn frekar úr berklasjúkdómi hér á landi?

Sumir sem greinast með berkla hér á landi hafa verið með einkenni og jafnvel smitandi í nokkra mánuði áður en þeir greinast. Greiningartöf er eitt helsta vandamálið í aðgerðum til að hindra útbreiðslu berkla á heimsvísu og er mikilvægur mælikvarði á skilvirkni berklaforvarna. Ef einkenni hafa varað í fjórar vikur áður en berklagreining er gerð hjá einstaklingi með smitandi berkla er fremur ólíklegt að aðrir en heimilismenn þess veika taki smit, hér á landi býðst þeim sem hafa smitast nýlega yfirleitt fyrirbyggjandi meðferð. Því lengur sem berklaveikur einstaklingur er með einkenni, því meiri hætta er á að einstaklingar sem ekki næst til við rakningu hafi smitast, fái þá ekki forvarnarmeðferð og veikist síðar sjálfir.

Af hverju tefst greiningin? – ástæður eru margvíslegar en m.a. má nefna:

Fyrstu vikurnar eftir að fólk veikist af berklum er yfirleitt fátt sem gefur sterklega til kynna að um berkla sé að ræða frekar en annan sjúkdóm. Þar sem berklar eru ekki mjög algengir hér hafa margir heilbrigðisstarfsmenn sjaldan séð berklaveika sjúklinga og berklar koma seint upp í hugann, oft vaknar grunur um berkla fyrst hjá þeim sem túlka rannsóknir, s.s. lungnamyndir ef öndunarfæraeinkenni eru til staðar eða við vefjagreiningu ef berklar valda fyrirferð í eitlum, húð eða hrygg og grunur vaknar um illkynja sjúkdóm.

Fólk sem hefur áhyggjur af berklum veit ekki endilega hvert það á að leita né að meðferð við berklum er sjúklingi að kostnaðarlausu hér á landi.

Hræðsla við sjúkdóminn eða við fordóma vegna berklasýkingarinnar og/eða eigin fordómar geta tafið það að fólk leiti sér hjálpar.

Hvaða kerfisþröskulda er e.t.v. hægt að lækka til að draga úr greiningartöf hér á landi?

Nýlega gaf sóttvarnalæknir út leiðbeiningar um notkun berklaprófa, skimun skv. gildandi verklagi og rakningu, til að heilbrigðisstarfsmenn um land allt hafi aðgang að sömu grundvallarskjölum og geti komið ferli til greiningar og meðferðar í gang hvar sem er.

Engar leiðbeiningar eða stefna eru til hér á landi um aðgengi að skimun fyrir berklasmiti eða berklasjúkdómi meðal fólks sem dvelur reglulega á áhættusvæðum, né fyrir fólk sem er undanþegið skimun vegna dvalarleyfis en telur sig hafa verið útsett fyrir berklum. Mögulega má finna tækifæri til úrbóta hvað þetta varðar.

Víða er berklatengd heilbrigðisþjónusta aðgreind frá öðrum þjónustuþáttum, sérþjálfað starfsfólk í sérhönnuðu húsnæði o.s.frv. Hér á landi eru ekki sérstakar berklamóttökur heldur fer skimun almennt fram hjá heilsugæslunni en ef berklaveikindi eru til staðar sinna smitsjúkdómalæknar meðferðinni. Mikilvægur þáttur í því að efla aðgengi fólks sem hefur áhyggjur af berklum að viðeigandi þjónustu er að upplýsingar um hvert megi leita þar sem viðkomandi er staddur séu aðgengilegar á máli sem gagnast þeim sem leitar. Tillögur um úrbætur hvað þetta varðar sem byggja á verkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismála­stofnunarinnar í Evrópu (WHO Europe) verða lagðar fram við sjúkrastofnanir landsins á næstunni.

Sjá einnig:

Sóttvarnalæknir