Fara beint í efnið

Lyfjatengd andlát - tölur

Skráning lyfjatengdra andláta og túlkun talna

Túlkun talna

Miðað við stærstu flokka dánarorsaka eru lyfjatengd andlát fá hér á landi. Þjóðin er fámenn og litlar breytingar á fjölda lyfjatengdra andláta valda því óhjákvæmilega nokkrum sveiflum í dánartíðni. Vegna þessa er mikilvægt að túlka tölur einstakra ára af varúð enda getur verið um tilviljanakennda sveiflu að ræða. Til þess að jafna sveiflur milli ára og draga fram langtímaþróun lyfjatengdra andláta getur verið heppilegra að notast við meðaltöl nokkurra ára heldur en tíðni hvers árs. 

Hvað eru lyfjatengd andlát?

Tölur um dánarorsakir byggja á dánarvottorðum einstaklinga sem áttu lögheimili á Íslandi við andlát. Dánarmein eru skráð af dánarvottorðum í dánarmeinaskrá embættis landlæknis og kóðuð samkvæmt nýjustu útgáfu og uppfærslum alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (International Classification of Diseases, ICD). Frá árinu 1996 hafa dánarmein verið kóðuð eftir 10. útgáfu flokkunarkerfisins, ICD-10, og nýjustu uppfærslum hverju sinni. Tölfræði um dánarorsakir er birt árlega eftir að skráning og kóðun vottorða undangengins árs og gæðaprófunum er lokið.

Með lyfjatengdum andlátum er átt við andlát vegna eitrana ávana- og fíkniefna sem og lyfja. Þjóðir heims hafa ekki sammælst um eina alþjóðlega tölfræðilega skilgreiningu á lyfjatengdum andlátum. Embætti landlæknis notar skilgreiningu sem lögð var til af norrænum vinnuhópi árið 2017. Samkvæmt henni eru þau andlát skilgreind sem lyfjatengd ef undirliggjandi dánarorsök, án tillits til ásetnings, er eitrun af völdum ávana- og fíkniefna sem og lyfja. Undir þessa skilgreiningu falla því óhappaeitranir (ICD-10: X40-X44), vísvitandi sjálfseitrun (ICD-10: X60-X64) og eitranir þar sem ásetningur er óviss (ICD-10: Y10-Y14). Lyfjaeitranir í manndrápsskyni (ICD-10: X85) sem og eitranir sem eru aukaverkun læknisfræðilegrar meðferðar (ICD-10: Y40-Y59) falla ekki undir lyfjatengd andlát. 

Samkvæmt dánarmeinaskrá embættis landlæknis er fjórðungur lyfjatengdra andláta síðustu tíu árin sjálfsvíg (vísvitandi sjálfseitrun). Stærstur hluti lyfjatengdra andláta falla undir óhappaeitranir, um 66% síðastliðinn áratug.  

Erlendur samanburður

Ýmsar alþjóðlegar stofnanir annast söfnun og framsetningu á tölum um dánarmein. Ísland á aðild að slíku samstarfi og sendir meðal annars árlega gögn í alþjóðlegan gagnagrunn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO Global Mortality Database. Tölfræði úr þessum gagnagrunni má nálgast á aðgengilegan hátt í European Mortality Database sem birtir árlega dánartíðni ýmissa fyrirfram skilgreindra flokka dánarorsaka í aðildarríkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, eftir kyni og aldri. Þá birtir stofnunin enn fremur mælaborð þar sem skoða má dánarorsakir innan einstakra landa með aðgengilegum hætti. 

Ítarefni

Lyfjatengd andlát í Svíþjóð. Tölfræðileg samantekt. Dödsfall till följd av läkemedels- och narkotikaförgiftningar. En statistiksammanställning

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis