Fara beint í efnið

Heilsueflandi grunnskóli

Grundvallaratriði heilsueflingar í Ottawa-sáttmálanum

Hugmyndin um Heilsueflandi grunnskóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu. Þar eru talin upp eftirfarandi sex grundvallaratriði:

Stefnuviðmið um Heilsueflandi grunnskóla

Þau koma skýrt og greinilega fram í skólanum, bæði í skjalfestum gögnum, s.s. námsskrá skóla, og í viðteknum venjum og starfsháttum sem efla heilsu, bæta líðan og örva þátttöku. Mörg slík viðmið lúta að því að efla heilsu og bæta líðan, t.d. þau sem snúast um að taka upp hollara mataræði í skólum og þau sem eiga að bæta skólabrag.

Skólaumhverfið

Skólaumhverfið lýtur hér að skólabyggingunum, lóðinni, tækjum og búnaði í skólum og umhverfi t.d. hvort nóg rými er fyrir líflega leiki og hvort gert er ráð fyrir að börnin geti sinnt heimanáminu og borðað hollan og góðan mat í skólanum. Skólaumhverfið lýtur líka að öryggi og grundvallarþægindum eins og salernum og þrifum á þeim til að hindra útbreiðslu sjúkdóma. Einnig er mikilvægt að aðgengi að drykkjarvatni og hreinu lofti sé gott og að hávaðastjórnun sé í lagi.

Félagslegt umhverfi skólanna

Félagslegt umhverfi skólanna lýtur að því hversu gott samband er milli starfsfólks og nemenda og milli nemenda innbyrðis. Samskiptin við foreldra og aðra í grenndinni hafa áhrif á félagslegt umhverfi skólanna.

Heilsuvitund nemenda og geta þeirra til breytinga

Þetta lýtur bæði að formlegri og óformlegri kennslu og verklegum viðfangsefnum í skólanum. Þar öðlast nemendur þekkingu og færni í samræmi við aldur og þroska og læra af reynslunni svo að þeir geti smám saman gripið til eigin ráða til að bæta heilsu og líðan sjálfra sín og annarra í námunda við sig og bætt um leið námsárangur sinn.

Samfélagstengsl

Samfélagstengsl snúast um sambandið milli skóla og fjölskyldna nemenda og sambandið milli skóla og helstu stofnana og félagssamtaka í nærsamfélaginu. Með því að ráðgast við og fá þessa aðila til samvinnu styrkist heilsueflingarstarf skólanna og nemendur og starfsfólk öðlast stuðning við aðgerðir sínar.

Heilbrigðisþjónusta

Heilsuvernd skólabarna er hluti af almennri heilsugæslu og markmið hennar er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk Heilsuverndar skólabarna vinnur með velferð nemenda að leiðarljósi og í náinni samvinnu við foreldra og aðra forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem hlut eiga að málum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Starfsemi Heilsuverndar skólabarna fer eftir lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda. Í henni felast skimanir, viðtöl um lífsstíl og líðan, bólusetningar og heilbrigðisfræðsla ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis