Sagan

Sjá stærri mynd

Fyrsti landlæknir á Íslandi var Bjarni Pálsson. Var hann skipaður í embættið með konungsúrskurði hinn 18. mars 1760 og veitingarbréfi dagsettu sama dag. Aðsetur hins fyrsta landlæknis var í Nesstofu við Seltjörn á Seltjarnarnesi frá árinu 1763 og hélst svo til ársins 1834, þegar aðsetur landlæknis var flutt til Reykjavíkur.

Hinum fyrsta landlækni var sett allítarlegt erindisbréf, dags. 19. maí 1760, þar sem honum var m.a. falin umsjón með heilbrigðismálum landsins, að veita sjúkum landsmönnum læknishjálp og kenna mönnum lækningar í því skyni að útskrifa þá sem fjórðungslækna á Íslandi. Landlæknir átti einnig að uppfræða ljósmæður, vera lyfsali og sjá um sóttvarnir.

Erindisbréf landlæknis var endurskoðað röskum aldarfjórðungi síðar og þá útgefið að nýju, hinn 21. september 1787, og loks aftur árið 1824. Í erindisbréfinu frá 1824 var fyrst og fremst kveðið á um réttindi og skyldur landlæknis í læknisfræðilegum efnum, en þar var þess einnig getið að honum bæri að snúa sér til viðkomandi yfirvalds til að rækja skyldur sínar.

Á fyrstu áratugum embættisins, á tímabilinu 1760–1799, voru stofnuð fimm læknisembætti á landinu auk embættis landlæknis. Árið 1828 bættust Vestmannaeyjar við sem sérstakt læknishérað og læknir var ráðinn í Húnavatnssýslu árið 1837. Læknisembættum fjölgaði ekki á landinu fyrr en með tilkomu Læknaskólans, sem stofnaður var í Reykjavík 1876. Í kjölfar þess urðu læknishéruðin alls tuttugu. Aukin umsvif heilbrigðisþjónustunnar og þar með vaxandi ábyrgðarsvið landlæknis hafa haldist í hendur æ síðan.

Núverandi landlæknir er Alma D. Möller en hún tók við starfi þann 1. apríl 2018, hún er jafnframt fyrsta konan til að gegna starfi landlæknis í langri sögu þess.  Eins og sést á listanum hér til hægri hafa sautján menn gegnt embætti landlæknis á undan Ölmu. 

Verksvið landlæknis samkvæmt lögum fyrr og nú
Þann 1. september 2007 tóku gildi lög um landlækni nr. 41/2007. Í lögunum er skýrt kveðið á um stöðu og hlutverk landlæknis sem eftirlits- og stjórnsýslustofnunar. Einnig eru skilgreind meginmarkmið landlæknis, sem eru að stuðla að gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og efla heilbrigði landsmanna.

Lög þessi eru hin fyrstu sem fjalla um embætti landlæknis í sérstökum lagabálki. Áður var lagaákvæði um landlækni að finna í eldri lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 og fyrirrennurum þeirra, en þau lög voru endurskoðuð verulega með lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Frá 1. janúar 1998 hafa auk þess gilt sérstök lög um sóttvarnir, nr. 19/1997, en með þeim var stofnað embætti sóttvarnalæknis innan Landlæknisembættisins.

Árið 2011 voru gerðar gagngerar breytingar á lögum nr. 41/2007 og heita þau nú Lög um landlækni og lýðheilsu. Sjá nánar um þessa lagaumgjörð á síðunni Um embættið

Það var ekki fyrr en með lögum nr. 44/1932 um skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna að verksvið landlæknis var í fyrsta sinn skilgreint á þann hátt sem síðan hefur orðið fast í sessi. Þar sagði:

„Landlæknir er ráðunautur ráðherra í öllu, sem viðkemur heilbrigðismálum. Hann hefir eftirlit með öllum læknum og heilbrigðisstarfsmönnum í landinu, en einkum héraðslæknum og öðrum opinberum heilbrigðisstarfsmönnum."

Lög nr. 44/1932 voru síðan afnumin með læknaskipunarlögum nr. 16/1955. Í 4. grein þeirra laga segir að forseti skipi landlækni og í 7. gr. er verksvið landlæknis skilgreint. Lögin frá 1955 voru felld úr gildi með læknaskipunarlögum nr. 43/1965, en ákvæðin um skipun og verksvið landlæknis héldust óbreytt.

Lög nr. 43/1965 voru svo afnumin með lögum nr. 56/1973 um heilbrigðisþjónustu. Þau lög tóku gildi 1. janúar 1974 og leystu af hólmi dreifð lagaákvæði um skipan heilbrigðisþjónustu, sjúkrahús og heilsuvernd og var ætlað að efla og einfalda yfirstjórn heilbrigðismála í landinu.

Lög nr. 56/1973 giltu þar til við tóku lög um heilbrigðisþjónustu nr. 57/1978 og höfðu nýju lögin að geyma ákvæði um starfssvið landlæknis sem voru samhljóða 3. gr. eldri laganna.

Nýmæli í lögunum frá 1978 var þó að gert var ráð fyrir að aðstoðarlandlæknir væri staðgengill landlæknis og aðstoðarmaður, en ákvæði þar að lútandi höfðu reyndar þá þegar verið sett í reglugerð um embætti landlæknis. Ákvæðið um aðstoðarlandlækni hélst í lögum um embættið þar til það var fellt niður með lagabreytingum sem tóku tóku gildi 1. maí 2011.


Órofinn þráður í löggjöf og starfi
Með lögum um landlækni nr. 41/2007 voru sem áður segir í fyrsta skipti sett sérstök lög um hlutverk landlæknis og starfsemi embættis hans. Þau lög leystu af hólmi lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990, en ákvæði þeirra laga er sérstaklega snúa að landlækni og embætti hans eru nær samhljóða tilsvarandi ákvæðum eldri laga, sbr.hér að ofan. Í 3. grein laga nr. 97/1990 sagði svo:

„Landlæknir er ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt er varðar heilbrigðismál og annast framkvæmd tiltekinna málaflokka f.h. ráðherra samkvæmt lögum, reglum og venjum, er þar um gilda. Hann hefur eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta."

Sé litið um öxl og núgildandi lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 (með síðari tíma breytingum) borin saman við lög nr. 44/1932, þar sem verksvið landlæknis var í fyrsta sinn skilgreint í íslenskri löggjöf, má segja að sá þráður sem þar var upp tekinn sé enn órofinn. Segir það sína sögu um mikilvægi Embættis landlæknis og notagildi þess fyrir landsmenn.

Landlæknir hefur frá öndverðu haft með höndum umfangsmikið hlutverk á sviði heilbrigðisþjónustu, jafnt sem læknir og embættismaður í þjónustu heilbrigðisyfirvalda. Meginverkefni landlæknis hefur lengst af verið að hafa eftirlit og yfirumsjón með læknum landsins og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.

Annað meginverkefni landlæknis í upphafi var að veita sjúkum læknishjálp. Sá þáttur í störfum landlæknis hefur með tímanum þróast yfir í áherslu á almenna heilsuvernd, að fylgjast með heilbrigði landsmanna og efla lýðheilsu, og er þetta stór þáttur í starfi embættisins, ekki síst eftir að starfsemi Lýðheilsustöðvar var sameinuð Embætti landlæknis með lögum 1. maí 2011.

Enn ber að nefna samfellu í fræðslustarfi, sem var ein helsta skylda landlæknis í öndverðu og er enn á 21. öld einn þáttur í störfum hans og margra sérfræðinga sem starfa við embættið. Er þá ónefnd óslitin söfnun og úrvinnsla upplýsinga ásamt skýrslugerð um heilbrigðismál í landinu allt frá fyrstu tíð til vorra daga.

Embætti landlæknis er eitt elsta samfellda embætti Íslandssögunnar með 261 árs sögu að baki.

Síðast uppfært 27.01.2022