Persónuvernd

Sjá stærri mynd

Persónuvernd hjá Embætti landlæknis (privacy notice)

Hvaða persónugreinanlegu upplýsingum er safnað hjá Embætti landlæknis?

Heilbrigðisupplýsingar einstaklinga

Safnað er upplýsingum um starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. um þá þjónustu sem einstaklingar fá í heilsugæslu, á stofum sjálfstætt starfandi sérfræðinga og á sjúkrahúsum/heilbrigðisstofnunum. Þá er safnað upplýsingum um lyfjaávísanir einstaklinga.

Lista yfir þær heilbrigðisskrár sem haldnar eru hjá Embætti landlæknis er að finna hér.

Upplýsingar um heilbrigðisstarfsfólk

Upplýsingum um menntun heilbrigðisstarfsmanna er safnað í tengslum við útgáfu starfsleyfa og staðfestingu á rekstri. Jafnframt eru vistuð hjá embættinu gögn um heilbrigðisstarfsmenn í tengslum við kvartanir sem einstaklingar beina til landlæknis vegna veitingu heilbrigðisþjónustu.

Málaskrá

Í málaskrá er haldið utan um starfsemi embættisins, til að mynda innsend erindi, útgefin starfsleyfi, kvartanir notenda heilbrigðisþjónustu og umsóknir um gögn til vísindarannsókna.

Vefkökur

Vefkökur (e. cookies) eru litlar textaskrár sem vistaðar eru í tölvunni þinni, eða öðru snjalltæki, þegar þú heimsækir vefsvæði í fyrsta skipti.

Til eru mismunandi tegundir af vefkökum sumar eru nauðsynlegar til að tryggja virkni vefsíðna, aðrar eru notaðar til greiningar á notkun vefsíðna og enn aðrar eru notaðar til greiningar í markaðsskyni.

Vefsvæði Embættis landlæknis notar einungis vefkökur til að gera notendaupplifun sem besta og greina notkun á vefsvæðinu til þess að geta aðlagað vefinn að þörfum notenda hans.

Embættið notar Google Analytics til vefmælinga. Við hverja komu inn á vefinn eru nokkur atriði skráð, svo sem tími og dagsetning, leitarorð, frá hvaða vef er komið og gerð vafra og stýrikerfis. Engum frekari upplýsingum er safnað og ekki er gerð tilraun til að tengja slíkar upplýsingar við persónugreinanlegar upplýsingar.

Eftirfarandi vefkökur (e. cookies) eru notaðar á vefsvæði Embættis landlæknis.

Flokkur Uppruni Nafn Tilgangur Geymslutími
Nauð-
synlegar
Landlaeknir.is JSESSIONID Geymir upplýsingar um tengingu notanda Lota (e. session)
Vefsíðu-greining Landlaeknir.is _dc_gtm_UA-# Notað af Google Tag manager til að stýra notkun á skrám vegna Google Analytics. Lota (e. session)
 Vefsíðu-greining  Landlaeknir.is  _ga  Skráir einkvæmt auðkenni sem er notað til að búa til tölfræðileg gögn um heimsóknir gests á vefinn.  2 ár
 Vefsíðu-greining  Landlaeknir.is  _gid  Skráir einkvæmt auðkenni sem er notað til að búa til tölfræðileg gögn um heimsóknir gests á vefinn  Lota (e. session)

 

Hægt er að slökkva á þeim vefkökum sem ekki eru nauðsynlegar til að tryggja virkni vefsvæðisins. Það er gert með því að breyta stillingum í vafranum. Upplýsingar um hvernig breyta má vefkökustillingum í helstu vöfrum má nálgast hér.

 

 

 

Hver er heimild embættisins til upplýsingasöfnunar?

Embætti landlæknis er starfrækt í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 og sóttvarnalög nr 19/1997.

Söfnun og vinnsla á persónuupplýsingum er fyrst og fremst til þess fallin að gera embættinu kleift að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim lögum sem um starfsemi embættisins gilda og þegar vinnsla er nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem stofnuninni er falið.

Embættið safnar einnig upplýsingum vegna samningssambands við starfsfólk eða verktaka eða til að koma slíku samningssambandi á. Þá getur vinnsla persónuupplýsinga einnig farið fram til þess að verja lögmæta hagsmuni embættisins til dæmis í öryggis- eða eignavörsluskyni.

Lög og reglugerðir sem koma inn á starfsemi embættisins eru tilgreind hér

Hvernig eru persónugreinanleg gögn nýtt?

Gögn sem vistuð eru hjá Embætti landlæknis eru nýtt til þess að uppfylla þær lagalegu skyldur sem landlækni og sóttvarnalækni eru lagðar á herðar.

Samkvæmt 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 er meginhlutverk landlæknis:

 • að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu um málefni á verksviði embættisins
 • að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni
 • að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa og styðja við menntun á sviði lýðheilsu
 • að vinna að gæðaþróun,
 • að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum
 • að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna
 • að hafa eftirlit með starfsemi lífsýnasafna og safna heilbrigðisupplýsinga í samræmi við lög um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga
 • að veita starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta
 • að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma
 • að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu
 • að bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, sbr. sóttvarnalög
 • að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu
 • að meta reglulega árangur af lýðheilsustarfi og bera hann saman við sett markmið
 • að stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins,
 • að sinna öðrum verkefnum sem honum er falið að sinna samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

Samkvæmt sóttvarnalögum nr 19/1997 er verksvið sóttvarnalæknis aðallega:

 • Að skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt, m.a. með útgáfu leiðbeininga um viðbrögð við farsóttum
 • Að bera ábyrgð á framkvæmd opinberra sóttvarnaráðstafana
 • Að halda smitsjúkdómaskrá til að fylgjast með útbreiðslu smitsjúkdóma með öflun nákvæmra upplýsinga um greiningu þeirra frá rannsóknastofum, sjúkrahúsum og læknum. Smitsjúkdómaskrá inniheldur upplýsingar um sjúkdóma og sjúkdómsvalda af völdum smitsjúkdóma, eiturefna og geislavirkra efna, óvænta atburði, ónæmisaðgerðir og sýklalyfjanotkun.
 • Að koma upplýsingum um útbreiðslu smitsjúkdóma, innan lands sem utan, með reglubundnum hætti og eftir þörfum til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.
 • Að vera læknum og öðrum, sem við sóttvarnir fást, til ráðgjafar.
 • Að hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. upplýsingum og fræðslu til almennings um þessi efni.

Hvernig er gætt að persónuvernd í varðveislu og vinnslu gagna?

Persónugreinanleg gögn á ábyrgð landlæknis og sóttvarnalæknis eru varðveitt og unnin í samræmi við upplýsingaöryggisstefnu embættisins.

Embætti landlæknis er afhendingarskyldur aðili á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og er því óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali sem fellur undir gildissvið laganna, nema að fenginni heimild þjóðskjalavarðar. Almennt eru því persónuupplýsingar sem unnar eru hjá embættinu afhentar Þjóðskjalasafni að þrjátíu árum liðnum.

Upplýsingar eru ekki afhentar þriðja aðila nema heimild sé til þess í lögum, t.d. vegna vísindarannsókna sbr. lög um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði nr. 44/2014 eða þess krafist með dómsúrskurði. Þjónustuaðilar sem starfa fyrir Embætti landslæknis , t.d. varðandi tæknilegan rekstur, hafa ekki aðgang að gögnum.

Réttindi hins skráða?

Einstaklingur hefur rétt á að fá upplýsingar um þau gögn, um hann sjálfan, sem vistuð eru hjá Embætti landlæknis undir persónuauðkennum, hvort sem persónuauðkennin eru dulkóðuð eða ekki, ásamt því að fá afhent eintak af slíkum gögnum. Hér fást nánari upplýsingar um hvernig hægt er að óska eftir slíkum upplýsingum.

Einstaklingur getur fengið rangar persónuupplýsingar um sig leiðréttar og í einstökum tilvikum getur einstaklingur átt rétt á því að upplýsingum sé eytt. Rétt er að taka fram að réttur til eyðingar gagna er mjög takmarkaður þar sem upplýsingar eru í lang flestum tilvikum unnar á grundvelli laga sem kveða á um skyldu til að geyma upplýsingarnar. Einstaklingur getur einnig í ákveðnum tilvikum átt rétt á því að mótmæla vinnslu persónuupplýsinga og óska eftir því að vinnsla þeirra sé takmörkuð. Sé vinnsla uppplýsinga byggð á samþykki eða samningi getur einstaklingur átt rétt á því að fá afhent gögn á tölvutæki formi eða að þær verði fluttar beint til þriðja aðila að ósk einstaklingsins.

Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Embættis landlæknis með tölvupósti á personuvernd@landlaeknir.is eða í síma 510-1900, óski einstaklingur eftir frekari upplýsingum um vinnslu persónuupplýsinga eða til að koma á framfæri ábendingum sem varða hana. Þá er einnig hægt að senda póst merktan persónuverndarfulltrúi til Embætti landlæknis, Katrínartúni 2, 6. hæð, 105 Reykjavík.

Telji einstaklingur að vinnsla persónuupplýsinga hjá Embætti landlæknis sé ekki í samræmi við þau lög sem um hana gilda getur hann sent erindi til Persónuverndar (www.personuvernd.is).

Endurskoðun

Embætti landlæknis getur gert breytingar er varða meðferð persónuupplýsinga í samræmi við breytingar á lögum eða reglugerðum, eða túlkun á ákvæðum þeirra, eða ef breytingar verða á því hvernig embættið vinnur með persónuupplýsingar. Slíkar breytingar verða kynntar á heimasíðu embættisins.