Ráðleggingar um bólusetningar við barnaveiki og mænusótt október 2022

Vegna aukinnar tíðni innflutnings barnaveiki til Evrópu það sem af er þessu ári og mænusóttartilfella sem smitast hafa innanlands m.a. í Bretlandi og Bandaríkjunum, vill sóttvarnalæknir minna á að mælt er með örvunarbólusetningu á 10 ára fresti ef ferðast er til svæða þar sem sjúkdómarnir hafa komið upp.

  • Barnaveikibakterían veldur húð- og hálssýkingum. Dánartíðni er um 10%, dánarorsök tengist yfirleitt líffæraskemmdum vegna eiturefnis sem bakterían myndar, eða stíflun öndunarvegar hjá ungum börnum. Móteitur er ekki til hér á landi og er erfitt að útvega. Sýklalyf gagnast ekki gegn eituráhrifunum.
  • Mænusótt er bráðsmitandi sjúkdómur vegna veiru sem er skyld m.a. veirum sem valda hand-, fót- og munnsjúkdómi sem foreldrar leikskólabarna kannast vel við. Algengustu einkenni eru væg kvef- og/eða iðraeinkenni. Innan við 1% smitaðra, helst ung börn, fá varanlega lömun í kjölfar veikindanna. Lömun öndunarvöðva og heilabólga eru helstu dánarmein þeirra sem látast vegna mænusóttar. Engin meðferð er til sem dregur úr hættu á lömun.

Einstaklingar sem náð hafa 24 ára aldri og hyggja á ferðalög ættu að hafa samband við heilsugæsluna og óska eftir bólusetningu ef engin bólusetning gegn barnaveiki eða mænusótt innan 10 ára er sýnileg í Heilsuveru. Síðasti skammtur þessara bóluefna í almennum bólusetningum er gefinn í 9. bekk í grunnskóla, við 14–15 ára aldur. Foreldrar geta séð bólusetningar barna undir 16 ára aldri í þeirra forsjá í Heilsuveru, nauðsynlegt er að hafa fengið a.m.k. 3 skammta af hvoru bóluefni til að einstaklingur teljist fullbólusettur, óháð aldri.

Til er samsett bóluefni sem ver gegn báðum sjúkdómunum og auk þess gegn stífkrampa og kíghósta, Boostrix-polio. Stífkrampi og kíghósti eru bakteríusjúkdómar sem fyrirfinnast á Íslandi og geta valdið lífshættulegum veikindum, stífkrampi á öllum aldri en kíghósti helst hjá börnum á fyrsta ári. Bólusetningar fullorðinna draga úr hættu á smiti bæði mænusóttar og kíghósta til ungra barna sem eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum. Bólusetning gegn barnaveiki og stífkrampa ver eingöngu þann bólusetta þar sem bólusetning beinist gegn eiturefnum sem myndast við vöxt bakteríu en ekki gegn bakteríusmiti.

Bólusetningar fullorðinna eru almennt gerðar á kostnað þess sem er bólusettur hér á landi. Sóttvarnalæknir vill þó minna á að einstaklingar sem eru búsettir hér og telja sig ekki hafa fengið almennar bólusetningar gegn þessum sjúkdómum á barnsaldri, eiga rétt á grunnbólusetningu sér að kostnaðarlausu. Sjá nánar leiðbeiningar sóttvarnalæknis hér.


Fyrst birt 13.10.2022

<< Til baka