Leiðbeiningar um bólusetningu gegn COVID-19. Haust 2022

English - Polski - Español - Lietuvių

Bóluefni

Fyrir grunnbólusetningar eru notuð fjögur bóluefni gegn COVID-19 á Íslandi:

 1. Comirnaty WT (bóluefni Pfizer/BioNTech gegn upprunalegri SARS-CoV-2 veiru)
 2. Spikevax WT (bóluefni Moderna gegn upprunalegri SARS-CoV-2 veiru)
 3. Jcovden WT (bóluefni Janssen gegn upprunalegri SARS-CoV-2 veiru)
 4. Nuvaxovid WT (bóluefni Novavax gegn upprunalegri SARS-CoV-2 veiru)

Öll þessi bóluefni vekja og örva svar við samskonar mótefnavaka, S prótíni upprunalegu SARS-CoV-2 veirunnar sem tengdist COVID-bylgjum ársins 2020. Merkingin WT hér að ofan vísar til þess (e. Wild Type).

Bólusetning dregur verulega úr hættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19, jafnvel með tilkomu omikron og undirafbrigða omikron, en hefur ekki reynst mjög gagnleg til að hindra smit til eða frá bólusettum einstaklingi. Vörn dvínar með tímanum og hefur því reynst nauðsynlegt að mæla með örvunarbólusetningum a.m.k. 4 mán. eftir grunnbólusetningu.

Fyrir örvunarbólusetningar verða notuð tvö* bóluefni gegn COVID-19 haustið 2022:

 1. Comirnaty Original/Omicron (WT/O; bóluefni Pfizer/BioNTech)
 2. Spikevax bivalent Original/Omicron (WT/O; bóluefni Moderna)

* Þriðja bóluefnið, Nuvaxovid (bóluefni Novovax), má nota í örvunarbólusetningar fyrir einstaklinga með tilteknar frábendingar við notkun mRNA bóluefna, en það inniheldur eingöngu S prótín upprunalegu veirunnar.

Bæði þessi bóluefni innihalda mRNA sem frumur okkar lesa og mynda í kjölfarið S prótín upprunalegu SARS-CoV-2 veirunnar sem tengdist COVID-bylgjum ársins 2020 og S prótín BA.1 eða BA.5 undirgerð omikron afbrigðis SARS-CoV-2 (merkingin WT/O vísar til þess). Ónæmiskerfið bregst við prótínum þessum og myndar mótefni gegn tveimur útgáfum af S prótíni. Mótefni gegn báðum útgáfum S-prótíns örvast betur hjá áður bólusettum sem fá WT/O bóluefni, en ef örvað er með bóluefni gegn upprunalega S-prótíni eingöngu (sjá frétt Lyfjastofnunar Evrópu). Örvun mótefna gegn undirgerðum omikron er sambærileg hvort sem notað er bóluefni sem inniheldur S-prótín BA.1 eða BA.5. Upplýsingar um samsetningu bóluefnis sem hver hefur fengið koma fram á vottorði sem er aðgengilegt í Heilsuveru (sjá lokakafla hér að neðan).

Aukaverkanir bóluefna gegn COVID-19 eru oftast vægar og tengjast viðbragði ónæmiskerfisins gegn mótefnavaka bóluefnis:

 1. Staðbundnar aukaverkanir s.s. verkur, bólga, roði eða kláði á stungustað og geta varað í nokkra daga, uppundir viku.
 2. Aukaverkanir s.s. hiti, höfuðverkur, vöðvaverkir og slappleiki eru fremur algengar aukaverkanir sem vara yfirleitt 2-4 sólarhringa (flensulík einkenni).

Misjafnt er eftir bóluefnum hvort aukaverkanir eru líklegri við fyrsta eða annan skammt. Almennt eru aukaverkanir aðrar en eitlastækkanir svipaðar eða minni við örvunarskammta en við grunnbólusetningu.

Alvarlegar aukaverkanir eru sjaldgæfar hver um sig en hafa komið fram í stórum bólusetningaherferðum síðastliðinna tveggja ára. Sjá grein um sjaldgæfar og/eða alvarlegar aukaverkanir COVID-19 bóluefna. Sumar þeirra geta verið lífshættulegar og hefur notkun ákveðinna bóluefna verið takmörkuð hér á landi vegna þeirra.

Einstaklingar með ofnæmi gegn innihaldsefnum bóluefnanna eða sögu um bráðaofnæmi vegna stungulyfja eða af óþekktum orsökum ættu ekki að þiggja bólusetningu gegn COVID-19 nema að undangengnu mati ofnæmislæknis, á stað þar sem meðferð ofnæmislosts er aðgengileg.

Sóttvarnalæknir mælir með notkun COVID-19 bóluefna skv. eftirfarandi frá og með

1. desember 2022: sjá einnig töflu

 

Grunnbólusetning

1.  Börn 6 mán. til 4 ára: ekki mælt með bólusetningu (bóluefni með markaðsleyfi enn ekki til á Íslandi)

2.  Börn 5-11 ára:

Bóluefni:  Comirnaty WT 10 mcg/skammt

 • tveir skammtar með a.m.k. 19 daga millibili
  • börn með alvarlega ónæmisbælingu ættu að fá viðbótarskammt 1-3 mán. eftir skammt #2 – nota þarf Comirnaty WT fyrir þann skammt líka sem stendur.

3.  Börn 12-17 ára:

Bóluefni:

Comirnaty WT 30 mcg/skammt
Nuvaxovid WT 5 mcg/skammt [ef ástæða til að nota ekki Comirnaty]

 • tveir skammtar með a.m.k. 19 daga millibili
  • börn með alvarlega ónæmisbælingu ættu að fá viðbótarskammt 1-3 mánuðum eftir skammt #2 – mælt er með WT/O bóluefni fyrir viðbótarskammt

4.  18-59 ára:

Bóluefni:

Comirnaty WT 30 mcg/skammt
Nuvaxovid WT 5 mcg/skammt [ef ástæða til að nota ekki Comirnaty]
Jcovden WT eða Spikevax WT 100 mcg/skammt má nota skv. töflu

 • tveir skammtar, millibil mismunandi eftir bóluefnum, minnst 3v
  • einstaklingar með alvarlega ónæmisbælingu ættu að fá viðbótarskammt 1-3 mánuðum eftir skammt #2 – mælt er með WT/O bóluefni fyrir viðbótarskammt

5.  60 ára og eldri:

Bóluefni:

Comirnaty WT 30 mcg/skammt
Spikevax WT 100 mcg/skammt fyrir ákveðna einstaklinga skv. töflu
Nuvaxovid WT má nota ef tilefni er til, Jcovden WT ef þess er óskað

 • tveir skammtar, millibil mismunandi eftir bóluefnum, minnst 3v
  • einstaklingar með alvarlega ónæmisbælingu ættu að fá viðbótarskammt 1-3 mánuðum eftir skammt #2 – mælt er með WT/O bóluefni fyrir viðbótarskammt.

 

Örvunarbólusetning

1.  Börn ≤ 5 ára: ekki má gefa örvunarbólusetningu

2.  Börn 5-11 ára:

Bóluefni:

Comirnaty WT 10 mcg/skammt

Nuvaxovid WT 5 mcg/skammt [ef ástæða til að nota ekki Comirnaty]

 • börn mega fá örvunarskammt a.m.k. 4 mánuðum eftir grunnbólusetningu

3.  Börn 12-17 ára:

Bóluefni:

Comirnaty WT/O 30 mcg/skammt
Nuvaxovid WT 5 mcg/skammt [ef ástæða til að nota ekki Comirnaty]

 • börn mega fá örvunarskammt a.m.k. 4 mánuðum eftir grunnbólusetningu.

4.  18-59 ára:

Bóluefni:

Comirnaty WT/O 30 mcg/skammt
Nota má Spikevax 0/O 50 mcg/skammt skv. töflu
Nuvaxovid WT 5 mcg/skammt [ef ástæða til að nota ekki Comirnaty]

 • fyrsti örvunarskammtur almennt a.m.k. 4 mánuðum eftir grunnbólusetningu
 • annar örvunarskammtur
  • fyrir einstaklinga með alvarlega ónæmisbælingu a.m.k. 4 mán. frá fyrri skammti.
  • fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila a.m.k. 6 mán. frá fyrri örvunarskammti. Með því að draga eins og kostur er úr líkum á smiti meðal starfsfólks dregur úr smithættu til sjúklinga og fjarvistum starfsfólks.
  • aðrir á þessum aldri mega fá annan örvunarskammt 4 mán. eftir þann fyrsta ef þess er óskað eða læknir mælir með því
 • frekari örvunarskammtar a.m.k. 4 mán. frá síðasta skammti, sérstaklega ef breyting hefur orðið á samsetningu bóluefnis: eingöngu fyrir áhættuhópa

5.  60 ára og eldri:

Bóluefni:

Comirnaty WT/O 30 mcg/skammt
Spikevax 0/O 50 mcg/skammt
Nuvaxovid WT 5 mcg/skammt [ef ástæða til að nota ekki Comirnaty/Spikevax]

 • fyrsti örvunarskammtur almennt 4 mánuðum eftir grunnbólusetningu
 • frekari örvunarskammtar almennt á 4 mánaða fresti, sérstaklega ef breyting hefur orðið á samsetningu bóluefnis.

 

Framboð COVID-bóluefna
Heilbrigðisráðuneyti gerir samninga um innkaup á COVID-bóluefnum fyrir hönd Íslands, í tengslum við sameiginleg innkaup Evrópulanda (EFTA- og Evrópusambandslanda). Samningsbóluefni er bólusettum að kostnaðarlausu. Bóluefni gegn COVID-19 eru ekki á almennum markaði.

Skráning COVID-bólusetninga
Skv. reglugerð um bólusetningar nr. 221/2001 skal skrá allar bólusetningar sem gerðar eru á Íslandi í bólusetningagrunn sóttvarnalæknis. Sérstakt boðunar- og skráningarkerfi var þróað fyrir COVID-bólusetningar á Íslandi og skila allar skráningar þar sér í grunn sóttvarnalæknis. Bólusetningar erlendis með bóluefnum sem ekki eru notuð á Íslandi þarf að skrá í sjúkraskrárkerfið Sögu til að þær skili sér í bólusetningagrunninn.

Vottorð um COVID-bólusetningar
Ísland er aðili að samstarfsverkefni Evrópulanda um vottorð í tengslum við COVID-19 bólusetningar og sýkingar. Vottorð með QR kóða eru aðgengileg í Heilsuveru. Einstaklingar án rafrænna skilríkja geta fengið vottorð sent í tölvupósti frá heilsugæslunni sem gerði bólusetninguna hér á landi. Bólusetning gildir í 9 mánuði frá grunnbólusetningu en ekki er skilgreindur gildistími eftir fyrsta örvunarskammt. QR kóði gildir í 9 mánuði frá því að hann er sóttur/vottorð sótt. Evrópureglugerð um vottorðin gildir til 30. júní 2023.


Fyrst birt 07.09.2022
Síðast uppfært 25.11.2022

<< Til baka