COVID-19 bólusetningar og tíðaóregla

Sumarið 2021 bárust fregnir af því að tíðatruflanir væru áberandi eftir bólusetningar gegn COVID-19, sérstaklega bóluefni Pfizer/BioNTech sem er mest notað hér á landi og víðar í Evrópu. Vísindaleg gögn um þetta eru af skornum skammti, hvort sem eru faraldsfræðilegar lýsingar m.t.t. algengis eða tíma sem truflanir vara eða skýringar á orsökum þessa fyrirbæris. Hér verður farið yfir það sem er vitað nú þegar og verða upplýsingar í þessari grein uppfærðar þegar ný gögn liggja fyrir.

Tíðaóregla er fremur algeng sem og breytingar á reglulegum tíðahring sem festa sig svo í sessi en geta virst vera óregla í upphafi. Fyrsta árið eftir að blæðingar hefjast eru þær oft lítið fyrirsjáanlegar, m.t.t. magns, dagafjölda í tíðahring, dagafjölda sem blæðir og verkja eða annarra óþæginda sem geta fylgt tíðablæðingum. Breytingar á hormónagetnaðarvörn eru með algengustu orsökum blæðingatruflana, auk þungana og tíðahvarfa, separ í legi eða leghálsi. Einnig geta breytingar á heilsufari og líkamsástandi orðið til breytinga á tíðahring, s.s. miklar breytingar í líkamsþyngd eða langvarandi streita, en einnig tímabundin veikindi, t.a.m. COVID-19 sýking. Einnig geta verið alvarlegri ástæður fyrir breytingum á tíðahringa eins og frumubreytingar eða krabbamein í legi eða leghálsi.

Ágætur leiðari um þetta fyrirbæri var birtur í tímariti breska læknafélagsins í september 2021. Þar kemur m.a. fram að það sé ekki ósennilegt að bólusetning geti truflað tíðablæðingar og lögð áhersla á að rannsaka þurfi þetta fyrirbæri til að fá réttar upplýsingar um hversu langan tíma þetta gæti varað, hvort það eru leiðir til að draga úr áhrifunum o.s.frv. Ef það er ekki gert er hætt við að orðrómur og rangar upplýsingar verði það eina sem fólk finnur þegar það reynir að fræðast um tíðatruflanir í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19.

Tvö lykilatriði koma fram í þessum leiðara:

  • Flestar konur sem taka eftir tíðatruflun eftir bólusetningu finna eingöngu fyrir henni í einum tíðahring [heimild vantar, trúlega reynsla höfundar og þarf að staðfesta með rannsóknum].
  • Óvæntar þunganir voru jafnalgengar meðal bólusettra kvenna og þeirra sem fengu lyfleysu í rannsóknum Pfizer/BioNTech, Moderna og Astra Zeneca (samantekt; tafla 1) og veitendur frjósemismeðferðar hafa ekki séð mun á árangri hjá bólusettum og óbólusettum.

Það eru því þegar komin fram gögn sem benda til að möguleg áhrif á tíðahring séu sennilega tímabundin og að bólusetning hafi sennilega ekki veruleg áhrif á frjósemi. Frekari rannsókna er þó þörf áður en hægt er að lýsa fyrirbærinu til hlítar og spá fyrir um áhrif þess.

Hér á eftir fer yfirlit yfir þær leiðir sem hafa verið notaðar til að reyna að staðfesta tengsl tíðatruflana við bólusetningar gegn COVID-19 hér á landi og víðar.

Ísland:

Á Íslandi eru fimm af tuttugu algengustu umkvörtunum við tilkynningar til Lyfjastofnunar um aukaverkanir eftir COVID-19 bólusetningu tengdar tíðatruflunum. Sérfræðingahópur sem skoðaði nánar tilkynningar um blæðingar í kjölfar COVID-19 bólusetningar á vegum landlæknis og Lyfjastofnunar. 43 tilfelli voru skoðuð þar sem 38 voru tengd blæðingum. Hjá þeim 27 þar sem tilkynningar voru um langvarandi blæðingar komst nefndin  að þeirri niðurstöðu að aðrar skýringar væru líklegri í 22 tilvikum, oftast breytingar á notkun hormónagetnaðarvarna, en í fimm tilvikum fannst ekki með vissu líklegri skýring en bólusetningin. Af breytingum á blæðingum kringum tíðahvörf voru 2 af 11 mögulega talin tengd bólusetningu en af 5 tilkynningum um alvarlegar aukaverkanir tengdar tíðablæðingum var engin talin tengd bólusetningu við nánari athugun.

Auk formlegra aukaverkanatilkynninga hafa sóttvarnalæknir og embætti landlæknis fylgst með tíðni ákveðinna sjúkdómsgreininga meðfram bólusetningum gegn COVID-19. Tíðni 2021 er borin saman annars vegar við tíðni sömu greininga á árinu 2020 þegar COVID-19 gekk en engar bólusetningar gegn COVID-19 gerðar fyrr en í lok árs og hins vegar við meðaltíðni 5-10 ára þar á undan. Þótt þetta verklag ætti að skila betri yfirsýn en formlegar tilkynningar, þá er samt sú takmörkun á aðferðinni að eingöngu finnast tilvik sem urðu til þess að einstaklingur leitaði til heilbrigðisþjónustu, og þá aðallega heilsugæslu eða sjúkrahúsa, en síður sérfræðiþjónustu sem ekki er með almenna gagnaskilatengingu við embætti landlæknis. Við þennan samanburð kemur ekki fram greinileg aukning í tíðni tíðaóreglu á árinu 2021 samanborið við 2011-2018 en hins vegar var tíðnin hærri árin 2019 og 2020 en meðaltíðni 2011-2018. Þar sem bólusetningar aldurshópa voru í miklum mæli framkvæmdar á mjög stuttu tímabili mætti búast við að sjá kúf í kjölfar bólusetninganna þegar aldurshópar eru skoðaðir hver fyrir sig, en svo er ekki. Eini aldurshópurinn sem virðist hafa aukna tíðni tíðatruflana árið 2021 miðað við fyrri ár eru 11 ára og yngri, en bólusetningar gegn COVID-19 voru ekki í boði fyrir þann aldurshóp fyrr en undir lok ársins.

 

Í Noregi hefur verið fylgst vel með tilkynningum um tíðatruflanir í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19. Af tæplega 2000 tilkynningum hafa 145 verið álitnar alvarlegar en stundum vegna annarra einkenna sem fylgja tilkynningu um tíðatruflun. 124 tilkynningar um blæðingar eftir tíðahvörf hafa borist og 119 þeirra álitnar alvarlegar. Lýðheilsustofnun Noregs (Folkehelseinstituttet) hefur nú birt fyrstu niðurstöður úr rannsókn á þessu fyrirbæri. Langflestar konur þar í landi fengu mRNA bóluefni tvisvar við grunnbólusetningu en tæplega 5% Astra Zeneca bóluefni og svo mRNA bóluefni. Þar kemur fram að líkur á miklum blæðingum eru nærri tvöfaldar eftir fyrsta skammt heldur en fyrir bólusetninguna. Þar sem 3 mánuðir liðu milli skammta höfðu u.þ.b. 3 tíðahringir liðið áður en kom að skammti tvö, og var tíðni þá komin aftur niður í það sem hún var fyrir fyrstu bólusetninguna. Meðal kvenna sem fundu fyrir auknum blæðingum eftir fyrsta skammt voru um 2/3 sem fundu aftur fyrir auknum blæðingum eftir seinni skammtinn. Aðrar truflanir á tíðahring voru ekki áberandi eftir fyrsta skammt en höfðu aukna tíðni eftir seinni skammt. Of snemmt er að fullyrða um hversu oft og hversu fljótt breytingar á tíðahring eftir seinni skammt ganga yfir en þessi rannsókn heldur áfram.

Ráðgjafahópur Lyfjastofnunar Evrópu (PRAC hjá EMA) hefur fjallað um tilkynningar um tíðatruflanir eftir bólusetningu með bóluefni Pfizer/BioNTech en hefur ekki skilað endanlegu áliti.

Bretar eru með sitt eigið eftirlitskerfi með aukaverkunum og greina gögnin vikulega. Tíðni þar hefur einnig reynst sambærileg eða lægri en búist hefði verið við. Ef verulegar breytingar verða á upplýsingum þar á tengill að lifa og reynt verður að uppfæra texta hér.

Heilbrigðisstofnanir Bandaríkjanna (National Institutes of Health) hafa kallað eftir rannsóknum á áhrifum COVID-19 bólusetningar á tíðablæðingar og veitt fimm stofnunum styrki til rannsókna á þessu fyrirbæri. Styrkirnir verða til eins árs en árangur rannsókna ófyrirséður og óljóst er hversu langan tíma mun taka stofnanir að skila niðurstöðum.

Niðurstaða:

Truflun á tíðahring í kjölfar bólusetningar, hvort sem er COVID-19 eða önnur bóluefni, er möguleg en óstaðfest. Engu verður haldið fram um tilurð tíðatruflana í kjölfar bólusetninga en líklegt er að slíkar truflanir tengist áhrifum bólusetningar á ónæmiskerfi í slímhúð legsins eða á blóðstorkukerfi. Þau gögn sem komin eru fram sem styðja tengsl bólusetningar gegn COVID-19 við truflanir á tíðahring benda til að truflanir séu tímabundnar en betri gögn vantar um áhrif seinni skammts grunnbólusetningar á tíðahring. Mjög lítil gögn eru enn komin fram um áhrif þriðja skammts mRNA bóluefna á tíðahring.

Frekari lesning:


Fyrst birt 20.04.2022

<< Til baka