Vottorð um fyrra COVID-19 smit erlendis viðurkennd til útgáfu batavottorðs á Íslandi

[English]

Vottorð um fyrra COVID-19 smit sem eru viðurkennd á Íslandi þurfa að uppfylla eftirfarandi:

A.  Tungumál: íslenska, danska, norska, sænska eða enska

a.  Vottorð á öðru tungumáli er viðurkennt ef þýðing stimpluð af löggildum skjalaþýðanda fylgir upprunalegu skjali á einu af tungumálunum sem krafist er.

 

B.  Upplýsingar sem vottorð þarf að innihalda að lágmarki:

a.  Fornafn og eftirnafn (sambærilegt og í persónuskilríki)

b.  Fæðingardagur (kennitala)

c.  Sjúkdómur eða sjúkdómsvaldur sem handhafi vottorðs hafi náð bata af: COVID-19 (SARS-CoV-2 eða afbrigði)

d.  Dagsetning jákvæðs NAAT-prófs (PCR) eða mótefnavakaprófs (e. rapid antigen test). Ekki mega vera liðnir meira en 180 dagar frá prófi sem leiddi til jákvæðrar niðurstöðu.

e.  Land þar sem próf var framkvæmt

f.  Útgefandi vottorðs

Þeir sem framvísa vottorði um fyrra COVID-19 / SARS-CoV-2 smit (jákvætt PCR eða mótefnavakahraðpróf) sem uppfyllir ofangreind skilyrði geta fengið samevrópskt batavottorð útgefið á Íslandi skv. reglum Evrópusambandsins (ESB).

  • Athugið. Sjálfspróf eða mótefnamælingar eru ekki tekin gild.
  • Athugið. Útgáfa sóttvarnalæknis á batavottorði leiðir ekki til skráningar á erlendri sýkingu í sjúkraskrá eða að vottorð komi í Heilsuveru.

Með samevrópsku batavottorði er átt við EU Digital COVID Certificate (EU DCC). Athugið að batavottorð er í fyrsta lagi hægt að gefa út 11 dögum eftir dagsetningu prófs sem gaf jákvæða niðurstöðu. Ekki mega vera liðnir meira en 180 dagar frá prófi sem leiddi til jákvæðrar niðurstöðu.

Viðkomandi þarf að sækja um batavottorð með því að senda gögn gegnum rafræn gagnaskil á vefsíðu embættis landlæknis. Rafræn skilríki þarf til innskráningar.

Með umsókn þarf að senda:

  • erlent vottorð og
  • blaðsíðu með mynd úr vegabréfi, eða öðru persónuskilríki, og
  • tölvupóstfang.

Athugið að gögn séu skýr og læsileg. Umsókn („Skilaboð með sendingu“) þarf að fylgja tölvupóstfang. Útgefið batavottorð verður sent rafrænt til baka með tölvupósti.

Þeir sem hafa ekki rafræn skilríki geta skilað ofangreindum gögnum til embættis landlæknis, sóttvarnasvið, Katrínartúni 2, 6. hæð, 105 Reykjavík; opið virka daga kl. 10 – 16. Umslag skal merkja með: Vottorð um fyrra COVID-19 smit. Útgefið batavottorð þarf þá að sækja þegar tilbúið. Munið að láta tölvupóstfang fylgja.

Sóttvarnalæknir metur hvort vottorð um smit erlendis fullnægi skilyrðum (sjá hér að ofan um tungumál og innihald (liðir a til f). Útgáfa batavottorðs hérlendis er á ábyrgð sóttvarnalæknis.

Umsóknir eru afgreiddar svo fljótt sem unnt er. Búast má við að afgreiðsla taki fimm virka daga eftir að öll gögn hafa verið móttekin.

Ef vafi leikur á trúverðugleika vottorðs sem er framvísað eða það uppfyllir ekki skilyrði hér að neðan verður umsókn hafnað.

Útgáfa batavottorðs styðst við reglugerð ráðherra nr. 777/2021 um reglugerð ESB nr. 2021/953 frá 14. júní 2021 og breytingu ESB nr. 2022/256 frá 22. febrúar 2022.


Fyrst birt 28.03.2022
Síðast uppfært 07.04.2022

<< Til baka