Skimun sóttvarnalæknis á útbreiðslu COVID-19 með mótefnamælingu hjá Íslenskri erfðagreiningu

Skimun sóttvarnalæknis fyrir útbreiðslu COVID-19 með mótefnamælingum var framkvæmd dagana 10.–17. janúar  2022.

Skimunin er á ábyrgð sóttvarnalæknis en Íslensk erfðagreining sá um að mæla mótefnin. Sóttvarnalæknir nýtir niðurstöður við ákvarðanatöku um viðbrögð við COVID-19.  

Mótefnamælingar voru gerðar hjá alls 1993 einstaklingum, 1253 fullorðnum (18 til 78 ára) sem valdir voru af handahófi úr íbúum á höfuðborgarsvæðinu og 740 íbúum utan höfuðborgarsvæðisins (langflestir fullorðnir), sem komu í blóðtöku á heilbrigðisstofnunum af öðrum ástæðum.

Mótefni gegn kjarnapróteini veirunnar myndast eingöngu eftir SARS-CoV-2 sýkingu en ekki eftir bólusetningu, þar sem bóluefnin sem eru notuð hérlendis innihalda eingöngu gen sem skrá fyrir broddpróteini veirunnar.

Mótefni gegn broddpróteini veirunnar (Spike protein, S) skipta mestu máli fyrir vernd gegn SARS-CoV-2 smiti og COVID-19 sjúkdómi. Mótefni gegn broddpróteininu myndast bæði við sýkingu og við bólusetningu.

 

Myndirnar sýna magn mótefna gegn broddpróteininu hjá óbólusettum einstaklingum (efsta mynd), tvíbólusettum (miðju mynd) og þríbólusettum (neðsta mynd). Magn mótefna er á X-ás (lárétta ásnum, lógarithmískur skali) og fjöldi einstaklinga á Y-ás (lóðrétta ásnum).

Sumir óbólusettir mælast með mótefni gegn broddpróteininu, S (efsta mynd), þar sem þeir hafa sýkst af SARS-CoV-2 veirunni. Vel sést hve mótefnin eru miklu hærri eftir þrjá skammta af bóluefni (neðsta mynd) en eftir tvo skammta af bóluefni (miðju mynd).

Frekari upplýsingar um mótefnamælingar gegn SARS-CoV-2 veirunni sem veldur COVID-19 má finna hér.

 


Fyrst birt 11.02.2022
Síðast uppfært 14.02.2022

<< Til baka