Af hverju þarf ég sprautu við COVID-19? 5 -11 ára

ENSKA/ENGLISH
PÓLSKA/POLSKI

Sjá einnig myndrænt efni: COVID-19 og bólusetningar. Fyrir foreldra og börn. 

Bólusetning við COVID-19 fyrir börn

Börn á Íslandi fá alls konar bólusetningar til að vernda þau fyrir sjúkdómum. Sóttvarnalæknir ákveður fyrir Ísland hvernig er best að nota bólusetningar og aðrar leiðir til að vernda fólk gegn sjúkdómum sem smitast milli manna. Núna er Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann hefur boðið fullorðnum og unglingum bólusetningu gegn COVID-19 á árinu 2021. Sóttvarnalæknir vill núna bjóða börnum á aldrinum 5-11 ára að koma í bólusetningu til að minnka líkurnar á að þau fái COVID-19.

Hér fyrir neðan eru spurningar og svör um bólusetningar við COVID-19. Það getur verið gott að skoða þau og velta þeim fyrir sér áður en þú ákveður með fólkinu þínu hvort þú ferð í bólusetninguna.

Hvað er COVID-19?
COVID-19 er veiki vegna kórónuveiru. Langflest börn verða ekki alvarlega veik þó þau fái COVID-19 en þurfa samt að fara í einangrun ef þau fá veiruna til að smita engan annan.

Hvað er einangrun?
Öll sem fá COVID-19 eiga að fara í einangrun svo þau smiti engan annan. Oftast stendur einangrun yfir í um það bil 10 daga. Einangrun þýðir að það má ekki fara út og ekki hitta neinn. Þau sem eru í einangrun mega ekki einu sinni hitta aðra í fjölskyldunni, nema þegar um börn er að ræða. Börn mega ekki vera alein í einangrun. Einhver fullorðinn þarf að vera með barni í einangrun og hjálpa því með allt sem það þarf. Stundum þurfa börn að fara í einangrun á hóteli með einhverjum fullorðnum til að smita ekki aðra á heimilinu.

Hvað er sóttkví?
Þau sem hafa verið mikið með einhverjum með COVID-19 gætu fengið COVID-19. Þá þarf að vera í sóttkví til öryggis þangað til það er hægt að vera viss um að hafa ekki smitast. Sóttkví þýðir að það má ekki hitta neinn, helst ekki einu sinni aðra í fjölskyldunni, en börn mega ekki vera alein í sóttkví. Það má fara í stutta göngutúra. Sóttkví endar oftast eftir 5 daga með því að fara í COVID-próf en sumir fara ekki í próf og eru þá í 14 daga í sóttkví.

Hvað er smitgát?
Þau sem hafa verið nálægt einhverjum með COVID-19 í stuttan tíma geta stundum farið í smitgát í staðinn fyrir sóttkví. Þá þarf að fara strax í COVID-19 próf og svo aftur fjórum dögum eftir að hafa hitt þann sem er með COVID-19. Það má mæta í skólann eftir fyrsta COVID-19 prófið í smitgát, en þarf að fara varlega og helst ekki vera innan um mikið af fólki, og alls ekki fólk sem er gamalt eða veikt.

Hvað er varnarsóttkví eða verndareinangrun?
Sumar fjölskyldur hafa varað sig sérstaklega mikið á COVID-19 með því að hitta engan eða mjög fáa, næstum eins og þær hafi verið í marga mánuði í einangrun eða sóttkví þótt enginn í fjölskyldunni hafi fengið COVID-19. Þetta er oftast af því að einhver í fjölskyldunni er með erfiðan sjúkdóm og það gæti verið mjög hættulegt fyrir þann fjölskyldumeðlim að fá COVID-19. Ef fjölskyldan hegðar sér eins og hún sé í sóttkví (eða næstum því) til að verja sig gegn COVID-19, þá er það kallað varnarsóttkví eða verndareinangrun.

Hvað er bólusetning?
Bólusetning við COVID-19 er gerð þannig að bóluefni er sprautað í handlegginn á fólki. Bóluefnið er vökvi í lítilli sprautu. Það sýnir líkamanum hvernig veiran er í laginu. Ónæmiskerfið í líkamanum, það sem lætur okkur batna þegar við veikjumst, getur þá lært að þekkja veiruna án þess að við verðum veik. Þá er ónæmiskerfið mjög fljótt að byrja að hreinsa veiruna úr líkamanum ef við fáum hana í okkur og minni hætta á að fá COVID-19 þótt við hittum einhvern með COVID-19.

Til að klára bólusetningu við COVID-19 þarf tvær bólusetningar, það líða nokkrar vikur á milli þeirra. Kannski þarf svo aftur bólusetningu seinna til að hjálpa ónæmiskerfinu að muna betur hvernig veiran sem veldur COVID-19 er í laginu, það er kallað örvunarbólusetning.

Af hverju ætti ég að fá bólusetningu við COVID-19?
Eftir bólusetninguna er minni hætta á að þú fáir COVID-19 sjúkdóminn. Flest börn verða lítið veik af COVID-19 en það getur verið mjög erfitt að þurfa að fara í sóttkví og einangrun. Bólusetningin getur hjálpað þér að sleppa við COVID-19 og einangrun. Þau sem fá COVID-19 þótt þau hafi fengið bólusetningu verða minna veik en þau sem fengu ekki bólusetningu. Veirurnar eru líka fljótari að hreinsast úr nefinu á þeim sem eru bólusett og þess vegna er minni hætta á að þau smiti aðra af COVID-19.

Fólk sem hefur klárað bólusetningu við COVID-19 sleppur stundum við að fara í sóttkví þótt það hafi hitt einhvern með COVID-19 í smátíma. Fólk sem býr með einhverjum sem er með COVID-19 sleppur ekki við sóttkví þótt það hafi verið bólusett.

Ég fékk COVID-19, þarf ég samt bólusetningu?
Það er hægt að fá COVID-19 aftur. Þess vegna er mælt með að fá bólusetningu þó þú hafir fengið COVID-19, en ekki fyrr en það hafa liðið þrír mánuðir frá því að COVID-19 einangrun byrjaði.

Hvenær, hvar og hvernig verður bólusetningin gerð?
Heilsugæslan gefur bólusetninguna og auglýsir hvar og hvenær hún fer fram. Foreldri eða aðrir fullorðnir í kringum þig ákveða með þér hvort þú færð bólusetninguna. Það þarf einhver fullorðinn að koma með og sitja hjá þér meðan þú færð bólusetninguna og í smástund á eftir.

Flestir sitja þegar bólusetningin er gerð en það má líka biðja um að fá að liggja, sérstaklega ef þér hefur áður liðið illa í sprautu. Þú mátt ráða í hvorn handlegginn er sprautað.

Þegar bólusetningin er búin þarf að bíða í 15 mínútur áður en má fara heim.

Til að bólusetning við COVID-19 virki vel þarf að sprauta aftur eftir 3 vikur eða aðeins seinna.

Er vont að fá bólusetningu við COVID-19?
Að fá sprautu er svolítið eins og þegar einhver klípur mann. Stundum er handleggurinn aðeins aumur í einn eða tvo daga á eftir.

Hvað er aukaverkun?
Aukaverkun er þegar lyf gerir eitthvað meira en bara það sem það á að gera, oftast eitthvað óþægilegt. Til dæmis getur manni orðið illt í maganum ef maður tekur lyf við hita en hitinn lagast samt

Get ég fengið aukaverkanir af bólusetningunni?
Bólusetningar gegn COVID-19 valda oft aukaverkunum. Algengustu aukaverkanirnar eru óvenjulega mikil þreyta, verkur í handleggnum, hiti og höfuðverkur. Svona aukaverkanir eftir COVID-19 bólusetningu lagast hjálparlaust á nokkrum dögum en stundum hjálpar að hvíla sig eða fá meðal við hita eða verk. Það þarf mjög sjaldan hjálp frá lækni til að aukaverkanir eftir bólusetningu lagist.

Ef þér líður illa stuttu eftir bólusetninguna, talaðu um það við einhvern fullorðinn sem þú treystir, t.d. foreldra þína eða skólahjúkrunarfræðinginn.

Ef þú vilt vita meira geturðu skoðað líka:

Upplýsingar fyrir unglinga um COVID-19 bólusetningu

Upplýsingar á auðlesnu máli um bólusetningu gegn COVID-19 (Þroskahjálp)

Upplýsingar á auðlesnu máli um COVID-19 (Þroskahjálp)


Fyrst birt 17.12.2021

<< Til baka