Um bólusetningar 5 - 11 ára - fyrir almenning

ENSKA/ENGLISH
PÓLSKA/POLSKI


Sjá einnig:

 

Almenn bólusetning 5-11 ára barna gegn COVID-19 hefst í janúar

Í lok nóvember fékk bóluefni Pfizer/BioNTech gegn COVID-19 markaðsleyfi í Evrópu fyrir 5-11 ára börn. Þessi aldurshópur fær annan skammt en eldri aldurshópar, einn þriðja af fullorðinsskammti. Bóluefnið er í fjölskammtaglasi eins og fullorðinsbóluefnið, 10 skammtar í hverju glasi, og þarf því að skipuleggja vel notkunina á bóluefninu. Æskilegt er að nota barnabóluefnið eingöngu fyrir þennan aldur, nema upp komi alvarlegur skortur. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert samning um þetta bóluefni fyrir tímabilið 2022-2023.

Forsjáraðilum barna á Íslandi verður boðin bólusetning fyrir 5-11 ára börn eftir áramót, fyrirkomulag verður kynnt betur síðar.

Rannsóknir og öryggi bólusetningar barna gegn COVID-19

Framleiðandi bólusetti 1528 börn í meginrannsóknum fyrir þennan aldur og var eftirfylgnitími rúmir 2 mánuðir eftir seinni skammt fyrir niðurstöður sem hafa verið birtar. Þar að auki var gerð sérstök öryggisrannsókn þar sem 1122 börnum til viðbótar var fylgt eftir í 2-4 vikur eftir seinni skammt. Niðurstöður úr þeirri rannsókn hafa ekki verið birtar opinberlega en voru notaðar til grundvallar markaðsleyfi hjá Lyfjastofnunum Bandaríkjanna og Evrópu. Aukaverkanir reyndust af svipaðri gerð og hjá 12-17 ára unglingum og fullorðnum. Þær algengustu (sérstaklega verkir á stungustað, þreyta og höfuðverkur) eru mögulega örlítið minna algengar í þessum aldurshópi en hjá unglingunum. Of fá börn voru bólusett í þessum rannsóknum til að hægt sé að fullyrða um tíðni sjaldgæfra aukaverkana.

Engin tilvik hjartavöðva- eða gollurshússbólgu komu fram í rannsóknunum fyrir markaðssetningu en CDC í Bandaríkjunum hefur nú birt fyrsta uppgjör aukaverkana meðal 5-11 ára þar í landi. Eins og vonast var til er tíðni hjartavöðvabólgu lægri en hjá 12-17 ára: allt að 2/1.000.000 bólusetningar en hjá 12-17 ára reyndist tíðnin 9/100.000 bólusetningar. Þetta er í samræmi við að tíðni hjartavöðva- og gollurshússbólgu hjá 5-11 ára af öðrum orsökum er mun lægri en hjá eldri börnum og ungum fullorðnum auk þess sem talið er að skammtastærð COVID-19 bóluefnis hafi mögulega áhrif á líkur þess að fá hjartavöðva- eða gollurshússbólgu eftir bólusetningu. Kynjahlutfall hjartavöðvabólgu eftir bólusetningu 5-11 ára er jafnt samkvæmt þessu uppgjöri, en það er líka í samræmi við faraldsfræði hjartavöðvabólgu af öðrum orsökum í þessum aldurshópi. Rétt er að hafa líka í huga að tíðni hjartavöðvabólgu vegna COVID-19 smits er mun hærri en eftir bólusetningu hjá ungum fullorðnum en tíðnin er enn óþekkt hjá börnum.

Ávinningur barna af bólusetningu gegn COVID-19

Börn á þessum aldri eru um 8,7% af íbúum landsins en hafa átt stærri hlut en það í smitum frá því í ágúst og allt upp þriðjungur allra smita verið í þessum aldurshópi sumar vikur, samtals um 2200 börn frá 1. júlí sl. fram til viku 50 af um 12500 smitum á sama tíma (17,6%). Engin börn í þessum aldurshópi hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús en um 80 orðið nógu veik til að vera í viðbótareftirliti hjá COVID-göngudeildinni (gul staða). Skv. rannsóknum framleiðanda reyndist bólusetning rúmlega 90% virk til að hindra smit 7 dögum til 2,3 mánuðum eftir seinni bólusetningu en delta afbrigði var ráðandi á rannsóknartímanum. Barn sem smitast ekki af COVID-19 þarf ekki að sæta einangrun og fær ekki alvarlega fylgikvilla COVID-19.

Áhrif á fjölskyldur vegna smita hjá börnum hafa einnig verið tilfinnanleg. Einangrun smitaðra barna frá öðrum í fjölskyldunni hefur oft leitt til þess að fjölskyldur hafa þurft að skipta sér upp. Um helmingur þeirra sem fylgt hafa börnum í einangrun hefur smitast í kjölfarið og þá hefur aðskilnaður fylgdarmanna frá öðrum fjölskyldumeðlimum varað enn lengur. Ef heimili skiptir sér ekki upp hafa komið upp smitkeðjur í fjölskyldum sem geta varað vikum saman.

Færri smit meðal barna á þessum aldri skila færri smitum í skóla, þá dregur úr þörf fyrir sóttkví og rask í skóla- og frístundastarfi vegna smita. Þar með dregur úr útbreiðslu smita í samfélaginu og þörf fyrir samfélagsaðgerðir til að hefta útbreiðslu minnkar. Sjá nánar í samantekt sóttvarnastofnunar Evrópu

Sjá einnig grein sóttvarnalæknis 13. desember 2021.

Efni fyrir börn um bólusetningar gegn COVID-19.

 


Fyrst birt 17.12.2021

<< Til baka