Um skyldu til að sæta sóttkví eða einangrun eða fara í sýnatöku vegna COVID-19

[English]

Almennt um sjúkdóminn COVID-19

COVID-19 er smitsjúkdómur af völdum kórónuveirunnar SARS-CoV-2. Þann 30. janúar 2020 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna COVID-19 og 11. mars 2020 lýsti stofnunin yfir heimsfaraldri vegna farsóttarinnar og stendur faraldurinn enn yfir. Á covid.is má finna nýjustu upplýsingar um fjölda sem hefur greinst hérlendis með sjúkdóminn ásamt ýmsum öðrum upplýsingum.

COVID-19 er bráðsmitandi, en smitleiðir milli einstaklinga eru úða- og dropasmit auk snertismits. Veiran dreifist þegar sýktur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér nálægt öðrum og þeir einstaklingar anda að sér dropum/úða frá hinum sýkta. Veiran getur einnig lifað í einhvern tíma á snertiflötum þar sem droparnir lenda.

Sýktir einstaklingar verða smitandi 2–12 dögum eftir að þeir smitast og geta verið smitandi í a.m.k. 3–4 daga hvort sem þeir fá sjálfir einkenni eða ekki. Þeir sem fá einkenni eru álitnir hafa verið smitandi í a.m.k. sólarhring áður en einkenni komu fram. Sumir eru smitandi mun lengur en ákaflega sjaldan lengur en tvær vikur. Helstu einkenni COVID-19 eru frá öndunarfærum s.s. hósti, hiti, hálssærindi, andþyngsli, en einnig bein- og vöðvaverkir og þreyta ásamt skyndilegu tapi á bragð- og lyktarskyni. COVID-19 getur valdið lífshættulegum veikindum með lungnabólgu, öndunar- og líffærabilun sem getur leitt til dauða. Margir einstaklingar glíma auk þess við langvarandi eftirköst sjúkdómsins eins og þreytu, öndunarerfiðleika, eymsli í liðum og vöðvum, höfuðverki og einbeitingarörðugleika.

Reynslan af baráttunni gegn COVID-19 hérlendis hefur sýnt að persónulegar sóttvarnir eru mikilvægar en smitrakning, einangrun smitaðra og sóttkví útsettra einstaklinga eru lykilatriði, ásamt greiningu smita á landamærum, til að halda faraldrinum í skefjum innanlands.

Útsettir fyrir smiti eru þeir sem hafa umgengist (verið í nánd við) sýktan einstakling eða snert sameiginlega snertifleti. Þá eru þeir sem ferðast milli landa taldir útsettir fyrir smiti enda greinast smit daglega hjá ferðamönnum sem koma til landsins.

 

Skyldur einstaklinga

Þeir sem eru útsettir eftir nánd við smitaðan einstakling skulu fara í sóttkví í fimm daga frá því að þeir umgengust síðast smitandi einstakling. Þeir losna þá úr sóttkví með neikvæðri niður­stöðu úr PCR-prófi. Einstaklingi í sóttkví á heimili þar sem einstaklingur í einangrun dvelur og þar sem ekki er fullur aðskilnaður milli einstaklinganna er heimilt að ljúka sóttkví með PCR-sýnatöku einum sólarhring eftir að einangrun hins sýkta lýkur. Þá skal ein­stak­lingur sem ekki gengst undir PCR-próf til afléttingar á sóttkví sæta henni í 14 daga frá útsetn­ingu. Þeir sem hafa greinst með COVID-19 hérlendis eru undanþegnir sóttkví í sex mánuði eftir smit. Um jákvæða niðurstöðu PCR-prófs gildir að viðkomandi þarf að vera í einangrun.

Leiði smitrakning í ljós að útsetning einstaklings hafi verið minni háttar er einstaklingi heimilt að viðhafa smitgát í stað sótt­kvíar. Í því felst skylda til að fara í hraðpróf á fyrsta degi smitgátar og aftur á fjórða degi. Sé niðurstaða prófanna neikvæð er einstaklingi ekki lengur skylt að viðhafa smitgát. Ef niðurstaða í hraðprófi er jákvæð er einstaklingi skylt að fara að reglum um einangrun og gangast undir PCR-próf tafarlaust til staðfestingar á greiningu.

Ferðamaður sem hefur dvalið í meira en sólar­hring á síðastliðnum 14 dögum á áhættusvæði vegna COVID-19 er skylt að forskrá sig fyrir komuna, framvísa vottorði til undanþágu á sóttkví (vottorði um bólusetningu, fyrri sýkingu eða mótefnamælingu) en ella undirgangast PCR-próf á landamærum við komuna, sæta fimm daga sóttkví sem lýkur með öðru PCR-prófi. Barn fætt 2005 og síðar er undanþegið þessum skyldum. Um skyldu til að fara í sýnatöku við komuna, sjá hér.

Jafnframt skal ferðamaður með tengsl við Ísland gangast undir mótefnavakapróf (antigen-hrað­próf) eða PCR-próf á næstu tveimur dögum frá komu til landsins. Undanþeginn þessari skyldu er sá sem framvísar vottorði sem sýnir að 14 - 180 dagar eru liðnir frá COVID-19 sýk­ingu (jákvæðu PCR-prófi).
Sjá nánari ráðleggingar til ferðamanna hér.

Sá sem sætir sóttkví verður að vera einn út af fyrir sig á dvalarstað, svo sem húsi, íbúð eða hótelherbergi. Ekki er æskilegt að dvelja í sóttkví í sameiginlegu húsnæði með einhverjum í einangrun en það getur verið óhjákvæmilegt, s.s. þegar ósjálfráða einstaklingur er í einangrun. Við þær aðstæður skyldi ekki ljúka sóttkví með sýnatöku fyrr en eftir að einangrun er lokið. Dvalarstaður í heimasóttkví skal að öðru leyti uppfylla skil­yrði sem fram koma í leiðbeiningum sóttvarnalæknis um húsnæði í sóttkví.

Sérstakar reglur í sóttkví gilda um þríbólusetta, eða tvíbólusetta sem hafa smitast af COVID-19. Sjá hér.

Sá sem sætir einangrun verður að vera einn út af fyrir sig á dvalarstað, svo sem húsi, íbúð eða hótelherbergi. Einstaklingur sem er með staðfesta sýkingu af COVID-19 skal vera í einangrun í 7 daga frá greiningu. Læknum COVID-19 göngudeildar Land¬spítala er heimilt að lengja einangrun á grundvelli læknisfræðilegs mats. Að öðru leyti fer um afléttingu einangrunar eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis.

Húseigandi eða rekstraraðili hótels þarf að vera samþykkur því að dvalarstaður sé notaður fyrir einangrun. Sóttvarnahótel eru úrræði sem nýtast þeim sem ekki hafa sjálfir yfir að ráða viðeigandi húsnæði fyrir einangrun.

Einstaklingar geta farið fram á formlega ákvörðun sóttvarnalæknis um sóttkví, einangrun eða sýnatöku. Beiðni um slíka ákvörðun skal senda á sottkvi@landlaeknir.is. Heimilt er að bera ákvarðanir sóttvarnalæknis undir héraðsdóm og fer um slík dómsmál skv. 15. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 m.s.br. Tilkynna skal sóttvarnalækni um ósk um að bera ákvörðun undir héraðsdóm með því að senda tölvupóst á sottkvi@landlaeknir.is. Nafn og kennitala þess sem málið varðar þarf að fylgja. Málsmeðferð fyrir dómi er einstaklingum að kostnaðarlausu og er þeim skipaður talsmaður (lögmaður). Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki framkvæmd ákvörðunarinnar.

Brot á sóttvarnareglum geta varðað sektum.

Upplýsingar um COVID-19 og netspjall fyrir almennar spurningar má finna á covid.is


Fyrst birt 29.11.2021
Síðast uppfært 10.01.2022

<< Til baka