Snemmörvunarbólusetningar við COVID-19

ENSKA/ENGLISH
PÓLSKA/POLISH

Mælt er með örvunarbólusetningu 5-6 mánuðum eftir grunnbólusetningu gegn COVID-19 fyrir alla 16 ára og eldri hér á landi. Fyrir mjög ónæmisbælda einstaklinga þarf að gefa þriðja skammt fyrr þar sem þessir einstaklingar eru ólíklegri til að svara grunnbólusetningu á fullnægjandi hátt. Hingað til hefur sá hópur ónæmisbældra sjúklinga sem mælt er með að fái þriðja skammt þremur mánuðum eftir grunnbólusetningu verið fremur þröngur:

1.  Líffæraþegar.

2.  Þeir sem eru með mikla beinmergsbælingu vegna sjúkdóms eða meðferðar.

Listar yfir þessa einstaklinga voru skráðir í bólusetningakerfið í ágúst 2021, boðun er lokið.

Í samráði við sérfræðinga í ónæmisfræði og gigtlækningum, taugalækningum, meltingarlækningum, krabbameinslækningum og nýrnalækningum ættu eftirfarandi hópar líka að fá örvun þremur mánuðum eftir grunnbólusetningu:

3.  Sjúklingar á rituximab meðferð nú eða sl. 18 mánuði. Ef meðferð er enn yfirstandandi er æskilegt að tímasetja bólusetningu 2-3 vikum fyrir næsta skammt, forðast ætti að gefa bólusetningu innan fjögurra mánaða eftir rituximab gjöf. Þó getur læknir sjúklings mælt með bólusetningu þótt styttra sé liðið frá síðustu lyfjagjöf.

Listi yfir þessa einstaklinga verður skráður í bólusetningakerfið í nóvember 2021; ef óskað er eftir örvun áður en rituximab meðferð hefst þarf meðferðaraðili að senda einstaklingi bréf til að framvísa á bólusetningarstað.

4.  Sjúklingar á ocrelizumab meðferð nú eða sl. 18 mánuði. Ef meðferð er enn yfirstandandi er æskilegt að tímasetja bólusetningu 2-3 vikum fyrir næsta skammt, forðast ætti að gefa bólusetningu innan fjögurra mánaða eftir ocrelizumab gjöf. Þó getur læknir sjúklings mælt með bólusetningu þótt styttra sé liðið frá síðustu lyfjagjöf.

Listi yfir þessa einstaklinga skráður í bólusetningakerfið í nóvember 2021; ef óskað er eftir örvun áður en ocrelizumab meðferð hefst þarf meðferðaraðili að senda einstaklingi bréf til að framvísa á bólusetningarstað.

5.  Sjúklingar sem hafa fengið Gilenya (fingolimod) ávísað undanfarna 12 mánuði.

Listi yfir þessa einstaklinga skráður í bólusetningakerfið í nóvember 2021.

6.  Sjúklingar sem hafa fengið krabbameinslyfjameðferð á árinu 2021 (lyf í ATC flokki L01). Þetta á einnig við um sjúklinga sem hafa fengið slík lyf vegna gigtsjúkdóma, s.s. Sendoxan.

    • Ef örvunarbólusetning er gefin meðan krabbameinslyfjameðferð er yfirstandandi eða innan þriggja mánaða eftir lok meðferðar ætti að hafa samráð við sérfræðing varðandi tilefni og tímasetningu mótefnamælingar til mats á svari.

Listi yfir einstaklinga sem hafa fengið meðferð á Landspítala verður skráður í bólusetningakerfið í nóvember 2021.

7.  Sjúklingar á langtímasterameðferð í skömmtum sem jafnast á við 20 mg prednisolone eða meira.

Þessir einstaklingar þurfa að sýna fram á að snemm-örvunarbólusetning sé viðeigandi þegar þeir mæta á bólusetningastað, t.d. með læknabréfi.

8.  Sjúklingar með alvarlegar vefjaskemmdir vegna gigtsjúkdóma á verulegri ónæmisbælandi meðferð sem ekki fellur undir liði 1-3 hér að ofan né lyf í flokki L04AA.

Þessir einstaklingar þurfa að sýna fram á að snemm-örvunarbólusetning sé viðeigandi þegar þeir mæta á bólusetningastað, t.d. með læknabréfi.

9.  Sjúklingar með alvarlega meðfædda ónæmisgalla, þ.m.t. þeir sem þurfa reglulega mótefnagjöf. Þeir sem fá reglulega mótefni í æð eða undir húð ættu að mæta í bólusetningu mitt á milli lyfjagjafa.

Listi yfir þessa einstaklinga verður skráður í bólusetningakerfið fyrirfram.

10.  Sjúklingar með alvarlega nýrnabilun, sér í lagi þeir sem eru á blóðskilun eða kviðskilun.

Bólusett verður á skilunardeild en einstaklingar sem eru ekki í skilun eða í kviðskilun verða skráðir í bólusetningakerfið fyrirfram.

Einstaklingar sem ekki ættu að þiggja örvunarskammt nema að höfðu samráði við sinn meðhöndlandi sérfræðing:

  1. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem eru með virkan sjúkdóm þegar örvunarbólusetning er ráðlögð.
  2. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem fengu versnun einkenna eða ný einkenni innan 2ja vikna frá COVID-19 grunnbólusetningu.
  3. Einstaklingar sem fengu lífshættulegar aukaverkanir eftir grunnbólusetningu.

Fyrir þessa einstaklinga kemur til greina að gera mótefnamælingu hjá ónæmisfræðideild LSH til að meta hvort þörf fyrir örvunarskammt vegur þyngra en hættan á versnun undirliggjandi sjúkdóms.

 

Eldri greinar um örvunarbólusetningar:


Fyrst birt 22.11.2021

<< Til baka