Tilefni örvunarbólusetninga gegn COVID

[Enska - pólska - spænska - litháíska]

 

Til hvers þarf örvunarbólusetningu gegn COVID-19?

Bólusetningar gegn COVID-19 gengu ákaflega vel hér á landi sl. vor, hraðar en í mörgum nágrannalöndum okkar og var þátttaka hér einnig meiri en víða annarstaðar.i Á sama tíma og verið var að bólusetja af miklum móð bárust fregnir af COVID-19 veiruafbrigðum sem bera stökkbreytt S-prótín, í sumum tilvikum nógu mikið breytt til að það dragi úr áhrifum bólusetningarinnar þegar notuð eru bóluefni sem byggja á því prótíni eins og hér hefur verið gert.ii 

Delta-afbrigðið sem er nú alsráðandi hér á landi og víðar er eitt slíkt afbrigði.iii Þrátt fyrir það eru tvær bólusetningar ágætlega virkar gegn smiti, því um 50% minni líkur eru á því að einstaklingur sem býr með COVID smituðum einstaklingi smitist ef hann er bólusettur heldur en annars.iv 

Bólusettir sem smitast þrátt fyrir bólusetningu smita síður aðra á sama heimiliv og er það sennilega vegna þess að þeir eru smitandi skemur en óbólusettir.iv Önnur lönd sem höfðu náð góðum árangri í bólusetningum urðu fyrir miklum áhrifum af delta-afbrigði í sumar eins og Ísland. Ísraelar voru fyrstir til að mæla með örvunarskammti af bóluefni frá Pfizer/BioNTech þegar þeir höfðu gögn um að einstaklingar sem voru bólusettir fyrir meira en fimm mánuðum voru líklegri til að smitast af delta-afbrigði en þeir sem höfðu lokið bólusetningu innan fimm mánaða.vi 

Í kjölfarið fylgdu rannsóknir frá framleiðandavii sem staðfestu ávinning örvunarskammts til að draga úr hnignun mótefnasvars hjá fullbólusettum og breytingar á markaðsleyfum og kemur nú fram í íslenskum fylgiseðli að ástæða geti verið til örvunarbólusetningar þegar 6 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetninguviii.

Rannsóknir í Ísrael benda til að raunávinningur örvunarskammts til að draga úr alvarlegum veikindum vegna COVID-19 þegar 6 mánuðir hafa liðið frá grunnbólusetningu sé umtalsverður.ix Gögn frá framleiðandaog sjálfstæðum rannsakendumxi benda til að mótefnasvar, þar með talið svokölluð hlutleysandi mótefni sem eru betri mælikvarði á vörn gegn sýkingu heldur en einföld magnmæling mótefna, sé allt að tífalt öflugra eftir örvunarskammt þremur til sex mánuðum eftir grunnbólusetningu heldur en fljótlega eftir grunnbólusetningu. Það þýðir að jafnvel gegn delta-afbrigði verður samfélagslegt viðnám gegn útbreiddu smiti mun betra þegar örvunarskammtur er gefinn, eins og raun virðist reynast í Ísrael.ix,xii

Þörf fyrir örvunarskammta bóluefnis til að efla eða framlengja vörnina er vel þekkt fyrir marga sjúkdóma sem bólusett er gegn og er ekki alltaf ljóst við markaðssetningu hversu ört eða oft örvunar verður þörf. Sem dæmi má nefna bólusetningu gegn lifrarbólgu B þar sem tveir skammtar með mánaðarmillibil veita ekki góða langtímavörn heldur þarf að gefa þriðja skammt u.þ.b. hálfu til einu ári eftir þann fyrsta.xiii

Góð þátttaka í örvunarbólusetningum gegn COVID-19, sambærileg við það sem var í grunnbólusetningum í vor, er forsenda þess að við náum tökum á útbreiðslunni nú í vetur án verulegra samfélagshafta. Nú stendur hún öllum til boða þegar ákveðinn tími er liðinn frá skammti tvö. Þátttaka hefur verið mjög misjöfn og á höfuðborgarsvæðinu eru einungis um 20–50% sem mæta þegar þeim er boðið. Sú þátttaka er ólíkleg til að skila verulegum samfélagslegum ávinningi af örvunarbólusetningu þótt ávinningur einstaklingsins sé klár.

Af hverju eru bara notuð bóluefni frá Pfizer/BioNTech og Moderna fyrir þriðja skammt hér á landi?

Mest reynsla er nú af örvunarskammti bóluefnis Pfizer/BioNTech eftir grunnbólusetningu með sama bóluefni þar sem önnur bóluefni voru ekki notuð í Ísrael. Rannsóknir á notkun mismunandi bóluefna við tveggja skammta grunnbólusetningu sýna að bóluefni frá Pfizer/BioNTech örvar mjög vel svar við einum skammti af bóluefni Astra Zeneca.xiv Rannsóknir á krossörvun þriðja skammts bóluefnis Pfizer/BioNTech og bóluefnis frá Moderna eru að koma fram,xi en þessi bóluefni hafa verið notuð sitt á hvað og álitin jafngild víða, þ.á m. hér á landi, í Kanadaxv og í Noregi.xvi Bóluefni Moderna hefur nú einnig fengið markaðsleyfi fyrir örvunarskammt en þá með helmingi minna magn bóluefnis í örvunarskammtinum en notað er við grunnbólusetningu.xvii Bóluefni frá Astra Zeneca hefur einnig verið rannsakað m.t.t. þriðja skammts og sýnt fram á örvunaráhrif,xviii en verður ólíklega notað í þeim tilgangi hér þar sem ávinningur virðist meiri af því að nota mRNA bóluefnin frá Pfizer/BioNTech og Moderna.

Hvað er vitað um aukaverkanir af þriðja skammti?

Aukaverkanir af þriðja skammti bóluefnis frá Pfizer/BioNTech virðast sambærilegar við aukaverkanir eftir seinni skammt grunnbólusetningar. Þetta byggir á reynslu heilsugæslunnar hér á Íslandi af þriðja skammtinum, gögnum frá framleiðandaxix og reynslu í Ísrael.xi Erlend gögn um aukaverkanir af Pfizer/BioNTech örvunarbólusetningu þegar grunnbólusetning var með öðru bóluefni eru af skornum skammti en fyrstu vísbendingar eru komnar fram um að þær séu sennilega ekki verri en þegar grunnbólusetning var með sama bóluefni.xi Í samvinnu við Lyfjastofnun mun sóttvarnalæknir fylgjast með aukaverkunum eftir örvunarbólusetningar hér á landi.xii https://www.fda.gov/media/152205/download (aukaverkanir á glærum 36-41)


Fyrst birt 03.11.2021
Síðast uppfært 03.02.2022

<< Til baka