Bólusetningar barna á skólaaldri við COVID-19 – til íhugunar fyrir heilsugæslu og almenning

Við bólusetningu barna við COVID-19 þarf að hafa eftirfarandi í huga:

Framboð: Eingöngu má nota bóluefnið Comirnaty fyrir einstaklinga undir 18 ára aldri eins og leyfismál bóluefnanna standa núna (1. júlí 2021). Þetta bóluefni er gefið í 2 skömmtum með að minnsta kosti 3ja vikna millibili. Mælt er með að ekki líði meira en 6 vikur milli skammta skv. framleiðanda en töluverð og ágæt reynsla er komin af 12 vikna millibili. Framboð þessa bóluefnis hérlendis verður ekki takmarkandi þáttur í bólusetningu skv. markaðsleyfi. Ef ungmenni sem ekki hefur náð 18 ára aldri er bólusett með bóluefni sem hefur markaðsleyfi frá 18 ára aldri eingöngu þarf að tilkynna ranga notkun lyfs til Lyfjastofnunar.

Kostnaður: Bólusetningin er bólusettum að kostnaðarlausu þar sem hún er til komin og heldur áfram vegna opinberra sóttvarnaráðstafana til að draga úr smithættu hérlendis. Þetta á einnig við um ósjúkratryggða einstaklinga.

Aukaverkanir/öryggi bóluefnisins:

  • Tíðni bráðaofnæmis eftir bólusetningu með þessu bóluefni virðist um tífalt algengara en við aðrar bólusetningar, rúmlega 1/100.000 skammta en oft er áætluð tíðni bráðaofnæmis um 1/milljón skammta fyrir önnur bóluefni (aðeins mismunandi eftir bóluefnum og löndum, sjá grein um aukaverkanir bólusetninga hér).
  • Við rannsóknir á notkun bóluefnisins fyrir aldurshópinn 12-15 ára sem gerðar voru fyrir útgáfu markaðsleyfis voru rúmlega 2.000 börn bólusett. Þetta er nógu stór hópur til að finna út að börn svara bóluefninu og nóg til að finna út að tíðni algengra aukaverkana (s.s. hita og flensulíkra einkenna eða staðbundinna óþæginda) er svipuð og fyrir fullorðna en ekki nóg til að meta hvort einhverjar sjaldgæfar aukaverkanir eru algengari hjá þessum aldurshópi heldur en hópi 18 ára og eldri sem er komin mikil reynsla af að bólusetja. Þetta er mikilvægt því við vitum að oft valda bóluefni minni aukaverkunum hjá einstaklingum með minna virkt ónæmiskerfi en hjá börnum á þessum aldri er ónæmiskerfið mjög virkt og virkara heldur en almennt hjá 60 ára og eldri sem hafa verið í forgangi vegna COVID-19 bólusetningar víðast hvar og mest reynsla komin af bólusetningu aldraðra á heimsvísu. Til dæmis er nokkuð algengt að sjúkdómar í ónæmiskerfinu, sjálfsónæmissjúkdómar, láti fyrst á sér bera á unglingsaldri þótt þeir greinist ekki endilega fyrr en á fullorðinsárum. Bóluefni sem espa ónæmiskerfið mjög mikið geta valdið óvæntum einkennum hjá mjög litlum hluta bólusettra, en þessi einkenni geta verið margvísleg, sum minniháttar en önnur alvarleg. Því fleiri sem eru bólusettir á stuttum tíma því líklegra er að að upp komi atvik af þessu tagi í kjölfar bólusetningar. Hver árgangur á aldrinum 12-15 ára sem yrði bólusettur hér telur fleiri einstaklinga en voru bólusettir í rannsóknunum sem lágu að baki útvíkkun markaðsleyfisins til þessa aldurshóps. Það er því viðeigandi að bólusetja fyrst þau börn sem eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni vegna COVID-19 s.s. börn með lungnasjúkdóma, en bíða örlítið með bólusetningu barna sem eru ólíkleg til að verða alvarlega veik af COVID-19 og tryggja að slík bólusetning fari fram við aðstæður sem henta barninu og eftir íhugun forráðamanna á kostum og ókostum bóluefnisins.

Framkvæmd bólusetninga fyrir börn:

Framkvæmd bólusetninganna er á vegum heilsugæslunnar og þarf hver heilsugæsla að halda utan um þau börn sem óskað er eftir bólusetningu fyrir á sínu svæði og ákveða hvernig best er að haga framkvæmd. Við framkvæmdina þarf að hafa eftirfarandi í huga:

  • Samþykki foreldra ætti að liggja fyrir áður en bólusett er. Ekki ætti að gera ráð fyrir að foreldri sem samþykkir bólusetningu með MMR, Tdap-IPV eða HPV bóluefni sem hefð er fyrir að gefa í skólum vilji þiggja bólusetningu gegn COVID-19 heldur fá sérstakt samþykki fyrir þeirri bólusetningu ef forráðamaður er ekki viðstaddur bólusetningu.
  • Skólaumhverfi getur hentað ágætlega fyrir hópbólusetningar í litlum hópum en vegna fjölskammtaglasa og hættu á bráðaofnæmi o.fl. atvikum strax í kjölfar bólusetningar við COVID-19 getur þurft að hafa meiri aðbúnað við COVID-19 bólusetningu heldur en almennar skólabólusetningar hérlendis. T.d. gæti skólahjúkrunarfræðingur þurft að hafa meira en einn skammt af adrenalíni við höndina og e.t.v. er æskilegt að fleiri en einn heilbrigðisstarfsmaður sé viðstaddur bólusetningarnar. Gera þarf áætlun um hvernig ferli á að vera ef upp kemur bráðaofnæmi. Ekki er ráðlegt að bólusetja þar sem lengra en 30 mín. ferð er á sjúkrastofnun sem getur meðhöndlað bráðaofnæmi.
  • Börn þurfa meiri stuðning en fullorðnir við bólusetninguna, oft er það ekki þeirra eigin ósk að fá bólusetninguna og getur þurft að beita fortölum, því þarf að gera ráð fyrir rýmri tíma í bólusetningu fyrir 12-15 barn en eldri einstaklinga. Þótt börn á þessum aldri fái gjarnan bólusetningar í skólanum þá er alltaf eitthvað um að börn þurfi að hafa foreldri með sér við bólusetningu og þeim þá vísað á heilsugæslustöð.
  • Börn 12-15 ára eru almennt líklegri en aðrir aldurshópar til að falla í yfirlið eftir bólusetningu. Afar mikilvægt er að aðstæður við bólusetninguna séu þannig að börnin geti látið fara vel um sig í a.m.k. 15 mín. eftir bólusetninguna og að fylgst sé náið með líðan þeirra þar sem þau hafa e.t.v. ekki tækifæri til að láta vita af vanlíðan áður en þau detta út af. Vegna þessa getur verið æskilegt að foreldri fylgi barni í bólusetninguna til að hvert barn hafi einhvern sem fylgist stöðugt með því fyrst eftir bólusetningu. Æskilegt er að börn sem liðið hefur yfir áður, t.d. í blóðprufu eða við aðra bólusetningu, hafi tækifæri til að liggja út af við bólusetningu gegn COVID-19.

Skráning bólusetningar og vottorð:

Skráning bólusetningar og útgáfa vottorða um bólusetningu er á sama hátt og fyrir 16 ára og eldri. Hægt er að fá bólusetningu sem gerð var erlendis skráða hérlendis í gegnum heilsugæslu eða embætti landlæknis (sóttvarnalækni). Einstaklingar sem ekki hafa aðgang að Heilsuveru geta fengið vottorð sent í tölvupósti ef bólusetning var gerð hérlendis, beiðni um slíkt vottorð ætti að fara til heilsugæslu ef einstaklingur er sjúkratryggður hér eða að einhverju leyti í tengslum við heilsugæsluna en í undantekningatilvikum getur sóttvarnalæknir sent vottorð.

Sóttvarnalæknir


Fyrst birt 03.09.2021

<< Til baka