Örvunarbólusetningar vegna COVID-19

[English - Polski]

 

Meðal verkfæra sem við eigum í baráttunni gegn COVID-19 er bólusetning. Við höfum náð mjög góðum árangri í bólusetningu en bóluefnin sem við eigum núna eru ekki sérhönnuð gegn delta afbrigðinu sem nú er ráðandi og því ekki eins öflug vörn gegn því afbrigði og þau voru gegn upphaflegu heimsfaraldursveirunni. Bóluefni eru forvarnartæki, ekki meðferð þegar í óefni er komið. Það tekur um 2 vikur fyrir bólusetningu að ná fullri verkun og óvíst er hver raunávinningur til að draga úr útbreiðslu verður. Við munum ekki ná hjarðónæmi með þeim bóluefnum sem við eigum nú, en þau geta mögulega gagnast meðfram öðrum aðgerðum til að hefta útbreiðslu og örva eins og kostur er varnir þeirra sem eru í mestri hættu á að fá alvarlega COVID-19 sýkingu. Vegna þess hve langan tíma tekur að uppskera þann ávinning sem við bindum vonir við að eftirfarandi áætlun um örvunarbólusetningar muni skila, ætti ekki að líta svo á að þær komi í stað annarra aðgerða til að hefta útbreiðslu.

Athugið að hér er til einföldunar notað hugtakið örvunarbólusetning þótt bólusetningarnar séu gerðar í mismunandi samhengi:

 • Grunnbólusetning eftir COVID-19 sjúkdóm (örvun á ónæmissvari við veirunni sjálfri).
 • Viðbótarskammtur ef talin er hætta á að grunnbólusetning veki ekki fullnægjandi svar.
 • Örvun þegar bólusetningu hjá hraustum einstaklingi er lokið en talin hætta á að vörn dvíni ef ekki gefinn aukaskammtur (eiginleg örvunarbólusetning).

Tilgangurinn er í öllum tilvikum að efla eins og hægt er varnir einstaklinga gegn COVID-19 smiti og alvarlegum veikindum. Í sumum tilvikum er erfitt að skilgreina í hvaða flokk hér að ofan örvunarbólusetning skv. neðangreindu fellur. Þess vegna er einfaldast að nota eitt hugtak yfir þessar bólusetningar og birta áætlun um framkvæmdina á einum stað.

Þeir hópar sem brýnast er að fái örvunarbólusetningu eru:

1. Einstaklingar 12 ára og eldri með sögu um COVID-19. Bólusetningar þessa hóps (16 ára og eldri) hófust í júní og halda nú áfram (12 ára og eldri).

  • 1 skammtur af Janssen bóluefni (18 ára og eldri) eða 2 skammtar af Pfizer/BioNTech bóluefni (12-17 ára; barnshafandi konur, ónæmisbældir einstaklingar o.fl.) eftir a.m.k. 3 mánuði frá smiti.

Rök:

  • Hættan á endursmiti er mun minni fyrir bólusetta en óbólusetta með sögu um COVID-19.
  • Einn skammtur af COVID-19 bóluefni gefur góða örvun á mótefnum eftir COVID-19 smit (yfirlitsgrein hér) en til einföldunar og samræmis, m.a. við rafræna útgáfu bólusetningavottorða, er hér notað sama skema fyrir þá sem hafa sögu um COVID-19 og alla aðra. Því er mælt með Janssen nema fyrir þá sem ekki er mælt með að fái það bóluefni hér á landi eða skv. fylgiseðli.

Fyrirkomulag: Skv. auglýsingum heilsugæslu.

Tímasetning: Þegar hafið, heldur áfram meðan þörf er til staðar.

Fjöldi: Um 6.000 manns á landsvísu við upphaf yfirstandandi bylgju.

 

2. Einstaklingar án sögu um COVID-19/mótefni sem bólusettir voru með Janssen bóluefni.

  • 1 skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða Moderna a.m.k. 4 vikum eftir Janssen bólusetningu.

Rök:

  • Einn skammtur af Janssen bóluefni veitir sambærilega vörn og einn skammtur af öðrum bóluefnum sem eru almennt gefin sem tveggja skammta bólusetning. Sjá einnig hér.
  • Einn skammtur af COVID-19 bóluefnum sem þróuð voru gegn upphaflegu SARS-CoV-2 veirunni er síðri vörn gegn delta afbrigði en alpha afbrigði. Ef gefnir eru tveir skammtar er vörnin sambærileg gegn delta eða alpha.

Fyrirkomulag: Skv. auglýsingum heilsugæslu.

Tímasetning: Þegar hafið, heldur áfram meðan þörf er til staðar.

Fjöldi: Um 53.000 manns á landsvísu.

 

3. Skjólstæðingar hjúkrunarheimila og aðrir mjög viðkvæmir þjónustuþegar velferðarþjónustu (áður hópur 3) – 60 ára og eldri eingöngu

  • 1 skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða Moderna eftir a.m.k. 13 vikur frá síðasta skammti grunnbólusetningar með COVID-19 bóluefni.
    • Mælt er með 26 vikna millibili ef einstaklingur fékk áberandi aukaverkanir eftir síðasta skammt.
  • Búast má við frekari upplýsingum um örvunarbólusetningar fyrir þennan hóp erlendis frá sem munu hafa áhrif á leiðbeiningar hérlendis.

Rök:

  • Hætta á alvarlegri COVID-19 sýkingu og andláti vegna COVID-19 hækkar með hækkandi aldri og er hæst hjá veikburða öldruðum, þ.e. þeim sem búa á hjúkrunarheimilum.
  • Ónæmissvar er ótryggara með hækkandi aldri eftir 60 ára aldur. Sem dæmi má nefna aukna hættu á lungnabólgu, alvarlegri inflúensu og aukna tíðni ristils hjá þessum aldurshópi.
  • Tveir skammtar af mRNA bóluefni verja aldraða á hjúkrunarheimilum síður en hrausta heilbrigðisstarfsmenn á miðjum aldri og yngri skv. danskri rannsókn.
  • COVID-19 smit hafa nú þegar komið upp á hjúkrunarheimilum í þessari bylgju og valdið raski á starfsemi þeirra.

Fyrirkomulag: Farið á hjúkrunarheimilin og þeim boðin örvunarbólusetning sem vilja þiggja. Hafa ætti í huga samráð við ættingja og taka tillit til hrumleika þar sem aukaverkanir s.s. hiti og flensulík einkenni geta verið mjög erfið fyrir þá sem eru mest veikburða. Utan hjúkrunarheimila verði fyrirkomulag í meginatriðum með sama hætti og haft var við grunnbólusetningu út frá listum og dagsetningum grunnbólusetninga.

Tímasetning: Hafið og heldur áfram í september.

Fjöldi: Um 14.000 manns á landsvísu.

 

4. Mjög ónæmisbældir einstaklingar með áframhaldandi ónæmisbælingu

 • Líffæraþegar á ónæmisbælandi lyfjum
 • Sjúklingar með beinmergsbilun vegna sjúkdóms eða lyfjameðferðar
 • Eftir því sem fleiri hópar bætast við verður þessi texti uppfærður.
  • 1 skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða Moderna eftir a.m.k. 12 vikur frá síðasta skammti grunnbólusetningar með COVID-19 bóluefni.
  • Búast má við frekari upplýsingum um örvunarbólusetningar fyrir þennan hóp erlendis frá sem munu hafa áhrif á leiðbeiningar hérlendis.

Rök:

  • Mótefnamyndun t.d. líffæraþega eftir 3 skammta af mRNA bóluefni er sambærileg við 1 skammt bóluefnis hjá hraustum einstaklingum skv. endurteknum mjög smáum rannsóknum.
  • Þessir hópar þurfa mikla þjónustu frá heilbrigðiskerfinu og er hætt við alvarlegum veikindum ef verða fyrir smiti.
  • Sjá:

Fyrirkomulag: Boðað miðlægt út frá tímasetningu grunnbólusetningar og greiningarskráningu í gögnum landlæknis sem lá til grundvallar skilgreininga áhættuhópa í grunnbólusetningu. Sérfræðilæknar geta óskað eftir því að sjúklingahópi/greiningum sé bætt við með samskiptum við sóttvarnalækni eða einstaklingum sé bætt við með læknabréfi til heilsugæslu viðkomandi.

Tímasetning: Kerfisbundið sem fyrst.

Fjöldi: Um 2.000 manns á landsvísu.

 

5. 70 ára og eldri utan hjúkrunarheimila

  • 1 skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða Moderna eftir a.m.k. 13 vikur frá síðasta skammti grunnbólusetningar með COVID-19 bóluefni.
    • Mælt er með 26 vikna millibili ef einstaklingur fékk áberandi aukaverkanir eftir síðasta skammt.
  • Búast má við frekari upplýsingum um örvunarbólusetningar fyrir þennan hóp erlendis frá sem munu hafa áhrif á leiðbeiningar hérlendis.

Rök:

  • Hætta á alvarlegri COVID-19 sýkingu og andláti hækkar með hækkandi aldri.
  • Ónæmissvar er ótryggara með hækkandi aldri eftir 60 ára aldur. Sem dæmi má nefna aukna hættu á lungnabólgu, alvarlegri inflúensu og aukna tíðni ristils hjá þessum aldurshópi.

Fyrirkomulag: Boðað miðlægt út frá tímasetningu grunnbólusetningar.

Tímasetning: Sem fyrst.

Fjöldi: Um 35.000 manns á landsvísu

 

6. 60 ára og eldri utan hjúkrunarheimila

  • 1 skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða Moderna eftir a.m.k. 26 vikur frá síðasta skammti grunnbólusetningar með COVID-19 bóluefni.
  • Búast má við frekari upplýsingum um örvunarbólusetningar fyrir þennan hóp erlendis frá sem munu hafa áhrif á leiðbeiningar hérlendis.

Rök:

  • Hætta á alvarlegri COVID-19 sýkingu og andláti hækkar með hækkandi aldri, þrátt fyrir bólusetningu. Þessi aldurshópur er með hærri tíðni undirliggjandi áhættuþátta en þeir sem yngri eru þótt heilsufar sé mjög misjafnt í þessum aldurshópum.
  • Ónæmissvar er ótryggara með hækkandi aldri eftir 60 ára aldur. Sem dæmi má nefna aukna hættu á lungnabólgu, alvarlegri inflúensu og aukna tíðni ristils hjá þessum aldurshópi.

Fyrirkomulag: Boðað miðlægt út frá tímasetningu grunnbólusetningar.

Tímasetning: September-október 2021.

Fjöldi: Um 40.000 manns á landsvísu

 

7. Heilbrigðisstarfsmenn í framlínu (áður hópar 1 og 2 skv. reglugerð 1198/2021)

  • 1 skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða Moderna eftir a.m.k. 26 vikur frá síðasta skammti grunnbólusetningar með COVID-19 bóluefni.
  • Búast má við frekari upplýsingum um örvunarbólusetningar fyrir þennan hóp erlendis frá sem munu hafa áhrif á leiðbeiningar hérlendis.

Rök:

  • Mest hætta er á útsetningu við störf fyrir þennan hóp
  • Hætta er á dreifingu til viðkvæmra einstaklinga ef aðilar í þessum hópi smitast af COVID-19
  • Viðkvæm starfsemi raskast verulega við hvert smit sem kemur upp innan stofnana sem þessir starfsmenn vinna á.
  • Tíðni smita hjá fullbólusettum hefur aukist á undanförnum mánuðum, enn er ekki vitað með vissu hversu stóran þátt hnignun ónæmissvars eftir því sem lengra líður frá bólusetningu á í þeirri aukningu en talið er líklegt að útbreiðsla delta afbrigðis og hnignun ónæmissvars eigi bæði þátt í þessari þróun.

Fyrirkomulag: Boðað miðlægt út frá tímasetningu grunnbólusetningar.

Tímasetning: September-október 2021.

Fjöldi: Um 11.000 manns á landsvísu.

 

Um aðra hópa, s.s. yngri einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu aðra en alvarlega ónæmisbælingu, þarf að fjalla með aðkomu sérfræðinga sem er í undirbúningi.


Fyrst birt 03.09.2021
Síðast uppfært 06.09.2021

<< Til baka