Sóttkví B í heilbrigðis- og velferðarþjónustu - leiðbeiningar

Við sérstakar aðstæður, þar sem aðrar leiðir eru ekki færar, kann að koma til þess að þjálfaður starfsmaður, sem hefur orðið útsettur fyrir Covid smiti á starfsstöð og þarf að vera í sóttkví, fái heimild til að snúa til vinnu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Slík sóttkví kallast sóttkví B til aðgreiningar frá hinni almennu sóttkví. Hér er um sérstaka aðgerð að ræða þegar skortur er á starfsfólki til nauðsynlegra umönnunarstarfa. Eftirfarandi eru leiðbeiningar sóttvarnalæknis um sóttkví B og til hliðsjónar eru leiðbeiningar um einangrun og sóttkví.

Skilyrði fyrir sóttkví B:

1.  Önnur úrræði s.s. mönnun með tilfærslu starfsmanna stofnunar eða bakvarðasveit hafi verið könnuð til hlítar og dugi ekki til.

2.  Nauðsynleg þörf er fyrir vinnuframlag viðkomandi starfsmanns að mati yfirmanna til að tryggja öryggi skjólstæðinga. Starfsmaður er áfram skráður í sóttkví þótt leyfi sé veitt. Merking í sérstaka sóttkví á vinnustað/sóttkví B fer fram hjá sóttvarnalækni við afgreiðslu á umsókn um sóttkví B.

3.  Starfsmaður er fullbólusettur og einkennalaus.

Starfsmenn þurfa að fylgjast með einkennum daglega skv. eftirtöldu:

  • Magaóþægindi, niðurgangur eða uppköst.
  • Kvef eða hálssærindi, skyndileg breyting á lyktar- eða bragðskyni
  • Þreyta, vöðva- eða beinverkir, höfuðverkur. Sótthiti >38°C
  • Hósti eða mæði
  • Annað
 • Ef einkenni koma fram skal láta yfirmann vita af einkennum og óska eftir sýnatöku m.t.t. COVID-19 í Heilsuveru eða gegnum heilsugæslu ef ekki er hægt að sinna slíku á stofnun þar sem viðkomandi starfar.
 • Ef einkenni koma fram meðan viðkomandi er í vinnu þarf hann að hafa samband við yfirmann, draga sig í hlé og hafa sem minnst samskipti við samstarfsmenn og skjólstæðinga.
 • Ef samskipti eru óhjákvæmileg eftir að starfsmaður er kominn með einkenni, vegna öryggis sjúklinga, á starfsmaðurinn að nota veiruhelda grímu ÁN VENTILS auk hlífðarslopps og hanska.
 • Starfsmaðurinn fari heim sem allra fyrst svo lengi sem öryggi sjúklings er ekki ógnað.

4.  Upplýsingaskylda

 • Upplýsa skal starfsmann sem ætlað er að starfa í sóttkví B um skilyrði og sóttvarnarkröfur sóttkvíar B
 • Afla skal samþykkis hans fyrir því fyrirkomulagi sem stofnunin hyggst viðhafa. Upplýsa skal samstarfsmenn á starfsstöð, skjólstæðinga, aðstandendur og aðra sem málið varðar um starfsmann í sóttkví B og þær auknu sóttvarnir sem slíku fyrirkomulagi fylgir.

5.  Framkvæmd

Starfsmaður í sóttkví B reynir eftir fremsta megni að halda sig í 2ja metra fjarlægð frá samstarfsfólki nema hann sé í hlífðarbúnaði. Starfsmaður notar hlífðarbúnað í allri umgengni við skjólstæðinga, stofnun má setja strangari kröfur við störf.

 • Starfsmanni ber að vinna samkvæmt Grundvallarvarúð gegn sýkingum
 • Mikilvægt er að starfsmaðurinn þvoi hendur og spritti fyrir og eftir snertingu við skjólstæðing og yfirborðsfleti.Skurðstofugríma ef einkennalaus og innan 2ja metra frá sjúklingi – skipt um ef mengast/orðin rök
 • Komi einkenni fram á vakt þarf starfsmaðurinn að nota veiruhelda grímu
 • Hanskar eru notaðir þegar snerta þarf líkamsvessa og farið úr þeim að loknu verki, hendur sprittaðar eftir hanskanotkun.
 • Langerma hlífðarsloppur notaður samkvæmt vinnureglum, sjá nánar í leiðbeiningum um einangrun og sóttkví.

Starfsmaður þarf að hafa sér aðstöðu til að hvílast, matast og sér salerni á meðan á sóttkví stendur og forðast umgengi við samstarfsfólk. Sótthreinsa skal alla snertifleti eftir hverja vakt.

Ef starfsstaðurinn hefur orðið fyrir útsetningu bæði hvað varðar starfsmenn og skjólstæðinga og þörf er á að sækja um sóttkví B fyrir marga starfsmenn í einu, skal leitast við eins og kostur er að starfsmenn haldi fjarlægð sín á milli, t.d. með því að skipta starfsmönnum í hópa á milli skjólstæðinga og svæða eins og aðstæður leyfa.


Fyrst birt 27.07.2021
Síðast uppfært 24.12.2021

<< Til baka