Smitgát vegna COVID-19

(Enska - Pólska - Spænska - Litháíska)

 

Smitgát er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega verið útsetur fyrir COVID-19 en ekki er talin þörf á sóttkví. Einstaklingur hefur umgengist eða verið á sama stað og einhver sem síðar greinist með COVID-19. Dagurinn sem einstaklingurinn var í nálægð við þann smitaða er kallaður útsetningadagur. Tilkynning um mögulega útsetningu getur komið frá:

  • Smitrakningarteymi: Útsetning fyrir smituðum einstakling var minniháttar.
  • Rakning C-19 smáforritinu.

Smitgát er ekki formlega skipuð sóttkví en mjög mikilvægt er að sýna aðgát og gæta sérstaklega vel að persónubundnum sóttvörnum:

  • Takmarkaðu samneyti við viðkvæma einstaklinga og aðra eins og hægt er.
  • Fylgstu vel með einkennum. Ef einkenni koma fram, farðu þá beint í PCR sýnatöku.

Helstu einkenni COVID-19: Hiti, hósti, kvefeinkenni, hálsbólga, slappleiki, þreyta, höfuðverkur, bein-/vöðvaverkir, skyndileg breyting á lyktar- eða bragðskyni, kviðverkir og niðurgangur.

Fólk með einkenni COVID-19 á að fara sem fyrst í PCR sýnatöku. Einkennasýnatöku er hægt að panta á Heilsuveru. 

  • Ef með rafræn skilríki er hægt að panta einkennasýnatöku á Mínum síðum á heilsuvera.is.
  • Ef ekki með rafræn skilríki þá er hægt að panta sýnatöku á netspjalli heilsuvera.is, símleiðis hjá heilsugæslunni á dagvinnutíma, eða utan dagvinnutíma á Læknavaktinni í 1700. Í neyðartilvikum hringið í 112.

Athugið: Neikvæð niðurstaða úr einkennasýnatöku kemur ekki í staðinn fyrir niðurstöðu úr hraðprófi í smitgát á fyrsta og fjórða degi eftir útsetningu. Vinsamlegast farðu í hraðpróf sbr. hér að neðan.

 

Hraðpróf fyrir einstaklinga í smitgát:
Þú þarft að mæta í boðað hraðpróf á fyrsta degi smitgátar og aftur á fjórða degi.

Þú færð boð og strikamerki í sms skilaboðum strax eftir að smitgát er skráð. Á degi 3 færðu sent strikamerki fyrir seinna hraðpróf.

Þú getur valið hvar á landinu þú ferð í hraðpróf. Upplýsingar um sýnatökustaði og opnunartíma.

Þú þarft að mæta með strikamerkið sem þú færð sent í sms daginn áður. Ef þú getur ekki mætt á boðuðum degi er hægt að mæta síðar.

Til athugunar:
Niðurstöður úr hraðprófi berast með sms skilaboðum. Þú getur fylgst með stöðunni á prófinu þínu á heimkoma.covid.is. Ef niðurstaða úr hraðprófi hefur ekki borist eftir 1 klst. má spyrjast fyrir á netspjalli Heilsuveru. Ef niðurstaða prófs á fjórða degi er neikvæð ertu laus úr smitgát en áfram nauðsynlegt að vera vakandi fyrir einkennum í 14 daga eftir útsetningu.

Ef niðurstaða hraðprófs er jákvæð er þér skylt að fara í PCR próf og í einangrun meðan beðið er niðustöðu úr PCR prófi. Strikamerki í PCR próf verður sent til þín.

Upplýsingar um COVID-19 og netspjall erí boði á covid.is.


Fyrst birt 02.07.2021
Síðast uppfært 06.09.2021

<< Til baka