Bólusetningar barna á skólaaldri við COVID-19

ENSKA / ENGLISH
PÓLSKA / POLSKI

COVID-19 bóluefni frá Pfizer/BioNTech (Comirnaty) og Moderna (Spikevax) hafa fengið markaðsleyfi fyrir 12─15 ára börn. Með vaxandi útbreiðslu delta afbrigðis er viðeigandi að bjóða öllum sem geta þegið bólusetningu skv. markaðsleyfi til að draga eins og kostur er úr útbreiðslu og áhrifum faraldursins á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið. Rannsóknir framleiðenda á bólusetningu yngri barna, m.a. á því hvaða skammt eigi að nota fyrir börn undir 12 ára aldri, eru að hefjast (ágúst 2021) en þar til þær rannsóknir skila niðurstöðum er ekki viðeigandi að bólusetja yngri börn.

Æskilegt er að nota bóluefni Pfizer/BioNTech fyrir þennan aldurshóp hér á landi. Framboð er mest af þessu bóluefni, reynslan af notkun þess fyrir aldurshópinn er meiri en með Moderna auk þess sem það er einfaldara að flytja það og nota á minni stöðum um allt land þar sem færri skammtar eru í hverju glasi en með Moderna.

Aukaverkanir/öryggi bóluefnisins meðal barna:

Rannsókn sem lá að baki markaðsleyfi fyrir þennan aldurshóp fól í sér bólusetningu um 2000 barna. Nú er komið út uppgjör um aukaverkanir bólusetninga með þessu bóluefni meðal tæplega 9 milljóna barna á aldrinum 12─17 ára barna í Bandaríkjunum. Þar kemur fram að um 1/1000 börnum á þessum aldri fær aukaverkanir sem eru tilkynntar til yfirvalda með svipuðum hætti og er á tilkynningum til Lyfjastofnunar hérlendis. Þar af er um 90% ekki alvarlegar aukaverkanir (s.s. yfirlið), en um 9/100.000 bólusettum börnum fær alvarlega aukaverkun, þ.e. aukaverkun sem krefst læknisskoðunar. Áður hafði komið fram að tíðni algengra aukaverkana (s.s. hita og flensulíkra einkenna eða staðbundinna óþæginda) er svipuð og fyrir fullorðna. Meðal alvarlegra aukaverkana eru gollurshússbólga (bólga í himnu utan um hjartað) og hjartavöðvabólga. Þetta eru sjaldgæfar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar með mRNA bóluefnum og algengari hjá yngri einstaklingum (undir 30 ára) en þeim sem eldri eru. Þeir sem fá slíkar aukaverkanir þurfa liðsinni heilbrigðisþjónustu og teljast þetta því alvarlegar aukaverkanir, en flestir jafna sig án teljandi meðferðar, með hvíld; aðrir þurfa e.t.v. bólgueyðandi lyf eða aðra meðferð, innan eða utan sjúkrahúss.

Tíðni bráðaofnæmis eftir bólusetningu með bóluefni Pfizer/BioNTech virðist um tífalt algengara en við aðrar bólusetningar, rúmlega 1/100.000 skammta en oft er áætluð tíðni bráðaofnæmis um 1/milljón skammta fyrir önnur bóluefni (aðeins mismunandi eftir bóluefnum og löndum). Ekki hafa komið fram vísbendingar um að bráðaofnæmi sé algengara hjá börnum en öðrum aldurshópum.

Í athugun er hér á landi og víðar hvort tengsl eru milli bólusetninga með þessu bóluefni og truflana á tíðahring hjá konum á frjósemisskeiði. Meðal stúlkna 12─15 ára eru bæði stúlkur sem ekki hafa gengið í gegnum fyrstu tíðir og stúlkur sem hafa haft reglulegan tíðahring um tíma. Ef tenging reynist vera milli bóluefnisins og þessara kvartana er hugsanlegt að truflanir verði á tíðahring stúlkna sem þiggja bólusetninguna. Stúlkur sem ekki hafa reglulegan tíðahring eða hafa ekki byrjað á blæðingum áður en þær fá bólusetningu átta sig mögulega síður en fullorðnar konur á því hvað er eðlilegt og hvað ekki, því er mikilvægt að foreldrar, skólahjúkrunarfræðingar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn séu tilbúnir að ráð­leggja stúlkum hvað þetta varðar. Of skammt er liðið frá því að bólusetningar kvenna á frjósemisskeiði hófust í stórum stíl til að vitað sé hvernig tengslum við bólusetningu er háttað, og hversu lengi þessi áhrif geta varað.

Börn 12–15 ára eru almennt líklegri en aðrir aldurshópar til að falla í yfirlið eftir bólusetningu. Afar mikilvægt er að aðstæður við bólusetninguna séu þannig að börnin geti látið fara vel um sig í a.m.k. 15 mín. eftir bólusetninguna og að fylgst sé náið með líðan þeirra þar sem þau hafa e.t.v. ekki tækifæri til að láta vita af vanlíðan áður en þau detta út af. Æskilegt er að börn sem liðið hefur yfir áður, t.d. í blóðprufu eða við aðra bólusetningu, hafi tækifæri til að liggja út af við bólusetningu gegn COVID-19.

Lyfjastofnun, sóttvarnalæknir og landlæknir munu fylgjast áfram náið með upplýsingum erlendis frá varðandi aukaverkanir og öryggi COVID-19 bóluefna og sérstaklega aukaverkanatilkynningum í tengslum við bólusetningar gegn COVID-19 hjá þessum aldurshópi hér á landi.

Framkvæmd bólusetninga fyrir börn:

Framboð bóluefnis sem til er í landinu og áætlanir um sendingar á næstu vikum gefa til kynna að hægt verði að klára a.m.k. einn skammt fyrir alla sem þess óska í ágúst ef framkvæmdin gengur vel. Ekki verður sent boð úr bólu­setningakerfinu heldur verður auglýst á hverju heilsugæslusvæði hvenær ákveðinn árgangur má mæta og hvert, skipt eftir fæðingarmánuði þar sem þess gerist þörf vegna fjölda. Forráðamaður eða fulltrúi hans (sem hefur náð 18 ára aldri) þarf að fylgja barni í bólu­setningu, bæði til að gefa til kynna samþykki fyrir bólusetningu og eins til að styðja barnið í gegnum bólusetninguna og fylgjast með líðan þess á biðtímanum eftir bólusetninguna.

Upplýsingar um framkvæmdina á vef heilsugæslunnar:

Höfuðborgarsvæðið

HSS

HSU

HSA

HSN

HVEST

HVE

Frétt um bólusetningar ungmenna

Upplýsingar fyrir ungmenni um COVID-19 bólusetningar

Auðlesið efni um COVID-19 bólusetningar (er í uppfærslu 10.08.2021)

Eldri grein um bólusetningar barna á skólaaldri við COVID-19 – til íhugunar fyrir heilsugæslu og almenning

 

Sóttvarnalæknir


Fyrst birt 01.07.2021

<< Til baka