Leiðbeiningar um mótefnamælingar eftir bólusetningu gegn COVID

Ekki er almennt mælt með mótefnamælingum eftir bólusetningu gegn COVID-19. Mótefnamyndun eftir bólusetningu er mjög misjöfn og þótt tilvist mótefna beri vott um svar við bólusetningu þá er hægt að smitast þótt mótefni séu til staðar. Einnig er frumubundið ónæmissvar sem myndast við bólusetningu mjög mismunandi og endurspeglast ekki endilega í mótefnamælingu, en veitir samt vörn gegn COVID-19 sjúkdómi. Ekki liggur fyrir viðmiðunargildi mælanlegra mótefna sem sannanlega þarf til að vernda gegn sjúkdómi eða smiti. Niðurstöður mótefnamælingar þarf alltaf að túlka í samhengi við aðstæður einstaklingsins, veirutýpur sem eru ráðandi í samfélaginu o.fl. og því ætti ekki að mæla mótefni nema læknisfræðileg ástæða og beiðni læknis liggi að baki eða í þágu lýðheilsu- eða vísindarannsókna.

Ekki verður í boði almenn örvunarbólusetning vegna neikvæðra mótefnamælinga eða lítils magns mældra mótefna. Hugsanlegt er að fram komi vísindaleg rök fyrir því að einstaklingar í ákveðnum áhættuhópum s.s. vegna starfs eða ákveðinna undirliggjandi sjúkdóma fái örvun fyrr eða oftar en allur almenningur. Í slíkum aðstæðum er hugsanlegt að mótefnamælingar verði notaðar til að finna þá sem ekki eru í brýnni þörf fyrir örvun ef bóluefni er af skornum skammti eða til að forðast aukaverkanir sem geta komið fram við endurtekna örvun.

Leiðbeiningar þessar eru skrifaðar í samstarfi við sérfræðinga í ónæmisfræði.

Sóttvarnalæknir


Fyrst birt 18.06.2021

<< Til baka