Eftirlit á meðgöngu

Skimun á meðgöngu

Ljósmóðir kannar skimunarsögu konu í fyrsta viðtali meðgöngu. Ef kona hefur ekki sinnt boði um skimun er ráðlagt að ljósmóðir taki leghálsýni skv. skimunarleiðbeiningum eftir aldri eða vísi konu áfram til sýnatöku á heilsugæslu eða hjá kvensjúkdómalækni.

Ef kona fær boð um skimun á meðgöngu og hefur ekki verið í sérstöku eftirliti vegna forstigsbreytinga má fresta skimuninni þar til eftir fæðingu.

 

Óeðlileg leghálssýni hjá konum á meðgöngu

Markmið með uppvinnslu er að útiloka ífarandi vöxt, krabbamein. Uppvinnsla skal fylgja sömu leiðbeiningum og hjá konum sem ekki eru þungaðar.

Konur með óeðlileg leghálssýni þar sem ábending er fyrir leghálsspeglun ættu að fá tíma til leghálsspeglunar eins fljótt og auðið er þar sem skoðun snemma í þungun er auðveldari.

Ákjósanlegur tími fyrir fyrstu leghálsspeglun í þungun er í viku 13-14.
Kvensjúkdómalæknir með reynslu í leghálsspeglunum ætti að framkvæma leghálsspeglun á þunguðum konum.

Leghálsspeglun skal metin á sama hátt og hjá ekki þunguðum konum með Swedescore til hliðsjónar.

Stilla má blæðingu eftir sýnatöku með lapis, monsell lausn, spongostan eða tróð í leggöng.

Ekki skal gera leghálsskaf.

Eftirlit með leghálsspeglun á meðgöngu

Konur sem greinast með hágráðu breytingar ≥ CIN 2 snemma á meðgöngu skal fylgja eftir með leghálsspeglun og e.t.v. vefjasýnum á fyrsta þriðjungi og við lok annars þriðjungs meðgöngu. Konur sem eru lengra komnar í meðgöngu skal fylgja eftir með leghálsspeglun eftir fæðingu.

Konur sem fyrir meðgöngu hafa fengið ráðleggingar um keiluskurð sem ekki hefur verið framkvæmdur eða í eftirliti vegna CIN 2 breytinga þarf að taka afstöðu til eftirlits á meðgöngu í upphafi hennar.

Hægt er að bíða með eftirlit hjá konum sem þurfa eftirlit með leghálssýni eða leghálsspeglun eftir keiluskurð eða ómeðhöndlað CIN 1 þar til eftir fæðingu.

Konum með AGC skal fylgja eftir með á sama hátt og konum sem ekki eru þungaðar.
Konum með AIS skal fylgja eftir á meðgöngu með leghálsspeglun. Eftirlit skal vera einstalkingsmiðað og e.t.v. í samráði við krabbameinsskurðlækna á kvennadeild Landspítala.

Eftirlit eftir fæðingu

Konur sem hafa þurft leghálsspeglun á meðgöngu skal fylgja eftir með leghálsspeglun eða keiluskurði 6-12 vikum eftir fæðingu.


Fyrst birt 01.06.2021

<< Til baka