Hverjir ættu ekki að fá Astra Zeneca bóluefni við COVID-19 (Vaxzevria)

Að ráði blóðmeinafræðinga LSH verða eftirfarandi einstaklingar merktir í bólusetningarkerfinu fyrir COVID-19 bólusetningar þannig að þeim verði boðið mRNA bóluefni en ekki Astra Zeneca. Að mati Lyfjastofnunar Evrópu er ekki um eiginlegar frábendingar að ræða þar sem hættan á segum eftir Astra Zeneca bólusetningu hefur ekki enn sem komið er verið tengd segatilhneigingu almennt og eru trúlega idiosynkratisk ónæmisviðbrögð að baki þessum atvikum. Einstaklingar sem óska eftir Astra Zeneca bólusetningu þótt þeir falli í þessa hópa mega fá hana og ekki þarf að tilkynna slíkt til Lyfjastofnunar eða sóttvarnalæknis sem frávik við COVID-19 bólusetningu/ranga notkun lyfs.

 • Konur undir 55 ára aldri
 • Einstaklingar með fyrri sögu um sjálfsprottna bláæðasega, hvort sem þeir eru á blóðþynnandi lyfjum eða ekki - ICD10 kóðar
   • I26 með öllum undirkóðum (lungnablóðrek)
   • I80 með öllum undirkóðum (bláæðabólga og segabláæðabólga)
   • I81 með öllum undirkóðum (segamyndun í portæð)
   • I82 með öllum undirkóðum (annað bláæðablóðrek og –segamyndun)
   • I67.6 (graftarlaus segamyndun í bláæðakerfi innan höfuðkúpu, þ.m.t. segar í sinus venosus)
 • Einstaklingar með undirliggjandi mikið aukna hættu á bláæðasegum s.s. sjúklingar

1. með beinmergsfrumuaukningu (e. myeloproliferative syndrome; ICD10 kóðar fylgja ensku heiti hér að neðan):

    • langvinnt mergfrumuhvítblæði (e. C92.1 chronic myeloid leukaemia; D47.1 chronic neutrophilic leukaemia og myeloproliferative disease, unspecified; D47.5 chronic eosinophilic leukaemia)
    • frumkomið rauðkornablæði (e. D45 polycythaemia vera)
    • sjálfvakið blóðflagnablæði (e. D47.3 essential thrombocythaemia)
    • frumkomin beinmergstrefjun (e. D47.4 primary myelofibrosis) – þ.m.t. sjúklingar með JAK2 stökkbreytingar

2. með PNH (e. primary nocturnal haemoglobinuria; köstótt næturblóðrauðamiga; ICD10 D59.5)

3. með lupus anticoagulant/antiphospholipid syndrome, þ.e. sjúklingar með sjálfsmótefni sem auka hættu á bláæðasegum (ICD10 D68.6)

4. á lenalidomid meðferð við beinmergsmeinum s.s. myeloma multiplex (ATC L04AX04)

Afar mikilvægt er að vera á varðbergi fyrir teiknum um sjaldgæfar og alvarlegar aukaverkanir allra COVID bóluefnanna og bregðast hratt við ef sjúklingur hefur einkenni eða teikn um blóðflögufæð (s.s. slímhúðar- eða húðblæðingar), blóðsega í slag- eða bláæðum, þ.m.t. í innyflaæðum og innankúpuæðum/sinus venosus eða segarek, t.d. til lungna.

Enn er ekki komin bráðabirgðaskilgreining á slíkum atvikum né leiðbeiningar um hvaða rannsóknir skuli gera eða hvaða meðferð er árangursríkust en rétt er að fá sérfræðiálit blóðmeinafræðings og taka fram möguleg tengsl við bólusetninguna.

Ef slík atvik koma upp innan 2ja vikna eftir bólusetningu gegn COVID er mikilvægt að senda tilkynningu til Lyfjastofnunar.


Fyrst birt 09.04.2021

<< Til baka