Boðanir í COVID-19 bólusetningu fyrir heilbrigðisstarfsmenn

Skv. reglugerð nr. 1198/2020 eru 3 mismunandi flokkar heilbrigðisstarfsmanna skilgreindir sem bólusetja skal gegn COVID-19:

 • Hópur 1 telur þá sem líklegastir eru til að sinna alvarlega veikum COVID-19 sjúklingum á bráðamóttökum og gjörgæslum sjúkrahúsa. Þessa hópa skilgreindu stofnanir sem sinna COVID-19 sjúklingum.
 • Hópur 2 felur í sér aðra sem líklegir eru til að sinna fólki með smitandi COVID-19 sýkingu í návígi, þar á meðal starfsfólk á COVID-19 göngu- og legudeildum, starfsfólk í sýnatökum vegna COVID-19 á landamærum eða annars staðar og starfsfólk sem tekur á móti bráðveikum í heilsugæslu sem ekki telst til bráðamóttöku. Til þessa hóps teljast einnig starfsmenn á hjúkrunarheimilum, sem hætt er við að beri smit inn á vinnustað þar sem eru afar viðkvæmir einstaklingar. Þessa hópa skilgreindu stofnanir sem sinna sjúklingum sem gætu haft COVID-19.
 • Til hóps 5 teljast heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með beinum hætti og nauðsynlegt er að hljóti bólusetningu gegn COVID-19 samkvæmt nánari ákvörðun sóttvarnalæknis. Nauðsynlegt er að fjalla nánar um hvernig þessi hópur hefur verið skilgreindur þar sem þeir sem honum tilheyra eru að fá boð í bólusetningu um þessar mundir.

Heilbrigðisstarfsmenn eru skilgreindir skv. 3. grein laga nr. 34/2012 og til þeirra teljast:

 1. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar
 2. Félagsráðgjafar
 3. Fótaaðgerðafræðingar
 4. Geislafræðingar
 5. Hjúkrunarfræðingar
 6. Hnykkjar (kírópraktorar)
 7. Iðjuþjálfar
 8. Lífeindafræðingar
 9. Ljósmæður
 10. Lyfjafræðingar
 11. Lyfjatæknar
 12. Læknar
 13. Læknaritarar (nú heilbrigðisgagnafræðingar)
 14. Matartæknar
 15. Matvælafræðingar
 16. Náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu
 17. Næringarfræðingar
 18. Næringarráðgjafar
 19. Næringarrekstrarfræðingar
 20. Osteópatar
 21. Sálfræðingar
 22. Sjóntækjafræðingar
 23. Sjúkraflutningamenn
 24. Sjúkraliðar
 25. Sjúkranuddarar
 26. Sjúkraþjálfarar
 27. Stoðtækjafræðingar
 28. Talmeinafræðingar
 29. Tannfræðingar
 30. Tannlæknar
 31. Tannsmiðir
 32. Tanntæknar
 33. Þroskaþjálfar

Eina leiðin til að ná til allra þessara stétta á kerfisbundinn hátt er að nota starfsleyfaskrá og rekstraðilaskrá landlæknis. Heimild fékkst frá Persónuvernd og Sjúkratryggingum til að nota skráningu á heilsugæslustöð til að staðsetja einstaklinga á þeim skrám á landinu. Ekki var unnt að hafa samband við alla einstaklinga á þessum skrám til að staðfesta að þeir sinni klíniskum störfum þar sem þeir eru yfir 20.000. Því varð að nota ákveðnar grundvallarreglur til að skilgreina hópinn nánar:

 • Sjúkraflutningamenn voru skilgreindir með öðrum viðbragðsaðilum í hóp 4 og hafa svo til allir lokið a.m.k. fyrri bólusetningu þegar þetta er ritað.
 • Meðal þessara starfsgreina eru nokkrar sem ekki eru í beinum samskiptum við sjúklinga í sínu starfi almennt, s.s. heilbrigðisgagnafræðingar, matvælafræðingar og tannsmiðir. Þessar stéttir verða ekki boðaðar í bólusetningu með hópi 5. Ef einstaklingar í þessum stéttum telja sig sinna klínisku starfi má senda erindi á mottaka@landlaeknir.is með röksemdafærslu.
 • Einnig eru starfsgreinar sem eru yfirleitt ekki í eiginlegu klínisku starfi með sjúklinga s.s. lyfjafræðingar og lyfjatæknar, en þeir eru oft í samskiptum við sjúklinga og í COVID faraldrinum hafa komið upp atvik þar sem hópsýkingar meðal þessara stétta settu mikilvæga starfsemi í hættu þannig að grípa þurfti til vinnusóttkvíar þrátt fyrir tengsl við smit. Því var ákveðið að halda þeim inni á lista yfir þá sem fá boð sem hópur 5. Almennir starfsmenn í apótekum eru hins vegar ekki heilbrigðisstarfsmenn og fá ekki bólusetningu sem slíkir, frekar en starfsmenn í matvöruverslunum sem einnig sinna ómissandi hlutverki í samfélaginu.

Meðal þeirra sem munu fá boð eru trúlega fjölmargir læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, þroskaþjálfar o.s.frv. sem ekki eru í klínisku starfi heldur hafa snúið til annarra starfa eða eru hættir störfum. Einstaklingar í þessari stöðu eru hvattir til að þiggja ekki þetta fyrsta boð í bólusetningu gegn COVID-19 heldur hugleiða að hver skammtur sem er notaður fyrir hóp 5 tefur lítillega bólusetningar einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu undir sextugu. Það kemur að því að allir sem vilja bólusetningu geti fengið hana, en við höfum ekki bóluefni fyrir alla fyrr en síðar á árinu.

 


Fyrst birt 06.04.2021

<< Til baka