Einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma og eru í sérstökum áhættuhópi skv. reglugerð um COVID-19 bólusetningar

Í samráði við sérfræðinga sem staðið hafa að leiðbeiningum fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegum COVID-19 sjúkdómi var skilgreindur listi yfir sjúkdómsgreiningar sem eru taldar auka hættu á alvarlegum veikindum við COVID-19 sýkingu. Einstaklingar sem hafa fengið þessar greiningar skráðar í sjúkraskrá hérlendis, hjá heilsugæslu eða sjúkrahúsi, á undanförnum 2 árum (2019–2020) voru teknir út úr gagnagrunnum embættis landlæknis með samþykki Persónuverndar og flokkaðir eftir skráningu á heilsugæslustöð með upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands til að hægt sé að boða þá í bólusetningu þar sem þeir sækja heilbrigðisþjónustu.

Innan hópsins hafa verið skilgreindir viðráðanlega stórir listar fyrir hvert svæði, í forgangsröð eftir aldri (elstir sem fyrst) og áhættu skv. sérfræðingahópnum en einnig var tekið tillit til þess ef einstaklingur hefur áhættuþætti úr mörgum áhættuflokkum, s.s. hjartasjúkdóm, lungnasjúkdóm og nýrnasjúkdóm.

Hópur 7

Nánari lýsing/dæmi um sjúkdóma

Krabbameinsmeðferð undanfarin 2 ár (2019–2020)

Öll illkynja krabbamein.

Ónæmisbælandi sjúkdómar og meðfæddir ónæmisgallar

Beinmergsbilun, meðfæddir ónæmisgallar, HIV-sýking.

Ónæmisbælandi meðferð önnur en krabbameinsmeðferð

Ónæmisbæling eftir líffæraígræðslu, líftæknilyf við ýmsum sjúkdómum.

Hjartasjúkdómar, meðfæddir og áunnir

Meðfæddir blámahjartagallar, hjartabilun, kransæðasjúkdómur.

Lungnasjúkdómar, meðfæddir og áunnir

Langvinn lungnateppa.

Nýrnabilun

Einstaklingar á skilunarmeðferð, aðrir með langvinna nýrnabilun.

Taugasjúkdómar, meðfæddir og áunnir, sem hafa áhrif á öndun.

Mænusigg, SMA, MND og sambærilegir sjúkdómar.

Meðfæddir sjúkdómar sem hafa áhrif á mörg líkamskerfi

Slímseigjusjúkdómur, Downs heilkenni, Fabry sjúkdómur.

Annað sem komið hefur fram að auki hættu á alvarlegri COVID-19 sýkingu eða dregur úr getu einstaklings til að forðast smit með almennum sóttvarnaráðstöfunum

Sykursýki, offita og kæfisvefn, háþrýstingur, heilabilun, geðraskanir.


Fyrst birt 18.03.2021
Síðast uppfært 23.03.2021

<< Til baka