Leiðbeiningar um sóttvarnir og sóttkví fyrir einstaklinga sem eru bólusettir gegn COVID-19

Sóttvarnalæknir hefur gert eftirfarandi leiðbeiningar í samráði við smitsjúkdómalækna Landspítala. Þær verða uppfærðar eftir þörfum.

Með bólusettum einstaklingi er átt við fullbólusetta en fullri virkni bólusetningar er náð tveimur vikum eftir síðari skammt bólusetningar eða tveimur vikum eftir Janssen bólusetningu. Ef þarf tvo skammta af bóluefni til að vera full bólusettur þá gilda sömu reglur eftir einn skammt og gilda fyrir óbólusetta einstaklinga.

Alltaf gildir að bólusettur einstaklingur sem fær einkenni sem gætu verið COVID-19 á að fara í sýnatöku sem fyrst og ekki mæta í skóla eða til vinnu, eða fara heim ef kominn þangað. Ef sýni er neikvætt skal mæting í skóla eða í vinnu ákveðin í samráði við yfirmann, þegar einkenni eru gengin yfir.

1.  Bólusettur almenningur og ferðamenn

 • Ekki útsettir fyrir COVID-19
  Sömu leiðbeiningar um sóttvarnir og fyrir aðra á hverjum tíma.

 • Á heimili með aðila í sóttkví
  Ekki þörf fyrir sóttkví.

 • Að störfum með aðila í vinnusóttkví
  Skráðir hjá sóttvarnalækni vegna umsóknar um vinnusóttkví, eins og óbólusettir. Ef vinnusóttkví lýkur áður en kemur að seinni sýnatöku aðila í vinnusóttkví setur sóttvarnalæknir fram skilyrði fyrir sóttkví fyrir samstarfsmenn í samþykki fyrir vinnusóttkví. Skilyrðin geta verið mismunandi fyrir bólusetta og óbólusetta.
 • Útsettir fyrir COVID-19 sýktum einstaklingi (skv. rakningu)
  • Við minniháttar útsetningu að mati rakningateymis má í stað sóttkvíar beita smitgát í 14 daga. Smitgát þýðir að hafa eftirlit með einkennum og ekki umgangast viðkvæma einstaklinga.
  • Ef nánd við smitaðan einstakling er veruleg að mati rakningateymis getur bólusettur einstaklingur þurft að fara í sóttkví.

2.  Bólusettir heilbrigðisstarfsmenn

 • Ekki útsettir fyrir COVID-19
  Heilbrigðisstofnanir setja sóttvarnareglur sem gilda á stofnuninni.
 • Á heimili með aðila í sóttkví
  Ekki þörf fyrir sóttkví.

 • Að störfum með aðila í vinnusóttkví
  Ekki þörf fyrir sóttkví en heilbrigðisstofnun ætti að takmarka eins og hægt er hópinn sem þarf að umgangast aðila í vinnusóttkví og hafa yfirlit yfir hverjir eru í smithættu ef smit kemur upp í vinnusóttkví sbr. næsta lið.

 • Útsettir fyrir COVID-19 sýktum einstaklingi
  • Sóttkví eða smitgát fer eftir ákvörðun rakningateymis sbr. framangreint eða farsóttanefndar vinnustaðar ef slík nefnd er til staðar.
  • Heilbrigðisstofnun  getur beitt sóttkví C á vinnustað ef starfsmaður er í sóttkví. Ef tilefni er til að beita sóttkví C við störf ætti starfsmaður að vera í sóttkví utan vinnu. Sóttvarnalæknir sker úr um álitamál.

Fyrst birt 23.02.2021
Síðast uppfært 13.07.2021

<< Til baka