Krafa um neikvætt COVID-19 próf við komuna til landsins

(Enska - Pólska - Spænska - Litháíska)

 

Allir sem koma til Íslands eftir meira en sólarhringsdvöl á skilgreindu áhættusvæði þurfa að sýna vottorð um neikvætt COVID-19 próf gegn SARSCoV-2/COVID-19 við komuna til landsins skv. reglugerð. Flugfélag getur neitað farþega byrðingu framvísi hann ekki neikvæðu prófi sem krafist er. Athugið að sér reglur fjalla síðan um hvaða vottorð flugfélögum ber að kanna að farþegar hafi fyrir brottför. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin að framvísa neikvæðu prófi.

Ferðamenn sem hafa nýlega fengið COVID-19 og framvísa jákvæðu PCR prófi sem er eldra en 14 daga og yngra en 180 daga eru undanþegnir að framvísa neikvæðu prófi við komuna.

Einstaklingum sem ekki geta framvísað vottorði um neikvætt próf við komu til landsins verður boðin sýnataka á landamærum en ella annað hvort snúið til baka eða þeim gert að greiða sekt. Íslenskum ríkisborgurum verður þó ekki meinað að koma til landsins. Á meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku þarf að fylgja reglum um sóttkví.

Skilyrði sóttvarnalæknis um vottorð um neikvætt próf

  • Ferðamenn sem framvísa vottorði um fulla bólusetningu eða fyrri sýkingu:
      • Neikvæðrar niðurstöðu á PCR-prófi (RNA) eða hraðprófi (mótefnavaka, e. antigen) fyrir SARS-CoV-2/COVID-19 er krafist.
      • Ef jákvæðu PCR prófi er framvísað sem er meira en 14 daga gamalt en minna en 180 daga er neikvæðs prófs ekki krafist.
  • Ferðamenn sem ekki framvísa vottorði um fulla bólusetningu eða fyrri sýkingu:
      • Neikvæðrar niðurstöðu á PCR-prófi (RNA) fyrir SARS-CoV-2/COVID-19 er krafist. Hraðpróf (e. antigen) eru ekki tekin gild fyrir þessa ferðamenn sem verða að fara í 2 sýnatökur við komuna, fyrri sýnatöku á landamærum og seinni 5 dögum síðar á vegum heilsugæslu.
  • Vottorði geta verið rafræn eða á pappír.
  • Próf verður að hafa verið tekið innan við 72 klukkustundum fyrir brottför (byrðingu).
      • Ef farþegi er að koma með tengiflugi þá telur 72 klst. frá byrðingu fyrsta flugleggjar.
  • Þarf að vera á ensku eða Norðurlandamáli (íslensku, dönsku, norsku, sænsku) þó ekki finnsku.
  • Vottorð á öðru tungumáli má taka gilt ef þýðing stimpluð af löggildum skjalaþýðanda fylgir á einu af tungumálunum sem krafist er.
  • Fornafn og eftirnafn og fæðingardagur þess sem próf var tekið frá (sambærilegt við ferðaskilríki).
  • Dagsetning prófs.
  • Heiti og símanúmer rannsóknarstofu (eða nægar upplýsingar svo hægt sé að fá próf staðfest).
  • Í forskráningu þarf að staðfesta að prófi verði framvísað við komuna sé þess krafist.

 

Meira um neikvæð próf sem eru viðurkennd

  • Mótefnavaka hraðpróf (e. rapid antigen tests) og PCR próf (eins RT-PCR, qPCR, RT-qPCR) eru viðurkennd. Þeir sem eru ekki bólusettir eða með fyrri sýkingu verða að framvísa PCR prófi (ekki hraðprófi).
  • Hvers kyns sjálfspróf (PCR, antigen eða LAMP) eru ekki viðurkennd.
  • Ekki eru gerðar ákveðnar kröfur um næmi (e. sensitivity) og sértæki (e. specificity) PCR- eða hraðprófa en til viðmiðunar eru hraðpróf leyfð til notkunar á Íslandi með a.m.k. 90% næmi og a.m.k. 97% sértæki skv. faglegum fyrirmælum landlæknis.

Undanþegnir því að framvísa neikvæðu prófi eru:

  • Börn fædd 2005 og síðar.
  • Þeir sem hafa dvalið skemur en sólarhring erlendis á skilgreindu áhættusvæði.
  • Þeir sem hafa dvalið utan áhættusvæða sl. 14 daga (t.d. á sjó í sama hópi).
  • Þeir sem hafa nýlega fengið COVID-19 og framvísa jákvæðu PCR prófi sem er eldra en 14 daga og yngra en 180 daga.
  • Áhafnir og ákveðnar stéttir á skilgreindum vinnuferðum erlendis, enda hafi þær undanþágubréf frá sóttvarnalækni.

Athugið varðandi sýnatöku við komuna til landsins:
Íslenskir ríkisborgarar, íbúar Íslands og ferðamenn með ákveðin tengsl við Ísland þurfa að fara í COVID-19 próf á innan við tveimur dögum frá komu til landsins þrátt fyrir að framvísa vottorði um fulla bólusetningu og þrátt fyrir að framvísa neikvæðu prófi við komuna. Þó eru þeir sem hafa vottorð um nýlega sýkingu undanþegnir sbr. að ofan um nýlegt jákvætt PCR próf. Sjá nánar á covid.is og í forskráningu.


Fyrst birt 18.02.2021
Síðast uppfært 03.09.2021

<< Til baka