Bólusetning barnshafandi kvenna við COVID-19

Frá 27.07.2021 hefur verið mælt með bólusetningu allra barnshafandi kvenna við COVID-19 vegna aukinnar hættu á alvarlegum veikindum meðal barnshafandi kvenna vegna COVID-19 og mögulega aukinnar tíðni á fósturlátum og andvana fæðingum í tengslum við COVID-19 á meðgöngu.

Mælt er með að bólusetning fari fram eftir að fyrstu 12 vikum meðgöngu er lokið.

Það er góð reynsla af notkun mRNA bóluefnanna (Comirnaty® og COVID-19 Vaccine Moderna®) við COVID-19 á meðgöngu og við brjóstagjöf. Ekki voru gerðar rannsóknir á barnshafandi konum eða konum með barn á brjósti fyrir markaðsleyfisafgreiðslu neins COVID-19 bóluefnis en fylgst hefur verið með vaxandi fjölda kvenna sem hefur þegið bólusetningu á meðgöngu eftir að mRNA bóluefnin komu á markað. Dýrarannsóknir benda ekki til þess að hætta geti stafað af bóluefnunum fyrir barnshafandi konur, fóstrið eða barn á brjósti. Ekki er búist við að notkun bóluefnis hjá barnshafandi konum hafi í för með sér meiri hættu en fyrir aðra hópa, frekar en fyrir önnur óvirkjuð (ekki lifandi) bóluefni en mælt er með notkun t.d. inflúensubóluefnis hvenær sem er á meðgöngu. Almenna reglan er sú að þegar verið er að nota ný bóluefni að sýna sérstaka varúð þegar kemur að barnshafandi konum, sérstaklega fyrir 12 vikna meðgöngu. Ef kona fær bólusetningu óafvitandi um þungun er ekki ástæða til að rjúfa þungun. Mælt er með að bíða með seinni skammt fram yfir 12 vikna meðgöngu þótt tímabil á milli skammta verði þá lengra en framleiðandi mælir með.

Vegna aukinnar hættu barnshafandi kvenna á blóðtöppum og skorts á reynslu annars staðar frá er ekki mælt með notkun bóluefnis frá Janssen eða Astra Zeneca fyrir barnshafandi konur hér á landi.

Nánar:

Lyfjastofnun:


Fyrst birt 27.01.2021
Síðast uppfært 18.01.2022

<< Til baka