Undanþágur frá kröfum um framvísun vottorðs um neikvætt PCR-próf og sýnatöku fyrir flugáhafnir eftir vinnuferðir erlendis

Samkvæmt reglugerð nr. 161/2021 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 er öllum þeim, sem koma til Íslands og dvalið hafa í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum í löndum sem skilgreind eru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði, skylt að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf sem ekki er eldra en 72 klst. við byrðingu auk þess að fara í sýnatöku á landamærastöð til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni og síðan í sóttkví þangað til niðurstöður liggja fyrir úr seinni sýnatöku sem framkvæma skal 5 dögum eftir komu til landsins (4. gr.). Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. er sóttvarnalækni heimilt að veita undanþágu frá sýnatöku og/eða framvísun vottorðs um neikvætt PCR-próf til ákveðinna starfsstétta sem fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis um vinnuferðir erlendis þ. á m. starfsfólki sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu, s.s. flugáhöfnum. Sækja þarf um slíka undanþágu.

Undanþáguna má veita til handa flugáhöfnum flugrekstraraðila með rekstrarleyfi hér á landi auk áhafnarmeðlima erlendra rekstraraðila sem búsettir eru hér með eftirtöldum skilyrðum:

 1. Ferð hafi ekki varað lengur en 72 klukkustundir frá brottför frá Íslandi til komu.
 2. Áhafnir sem eiga sína aðalbækistöð eða eru búsettar hér á landi hafi ferðast eingöngu í atvinnuskyni og hafi farið í einu og öllu eftir leiðbeiningum vinnuveitanda og sóttvarnalæknis sem líta má á sem varnarsóttkví.
 3. Áhafnarmeðlimir sem útsettir eru fyrir smiti þrátt fyrir varúðarráðstafanir, hvort sem það er innan fjölskyldu, vinahóps eða í starfsumhverfi verða að virða að fullu leiðbeiningar sóttvarnalæknis um sóttkví og falla þá ekki lengur undir þessi undanþáguskilyrði.
 4. Starfsmenn í þessari stöðu fylgist vel með heilsunni og sérstaklega eftirfarandi: 
  • Kvef eða hálssærindi, skyndilegar breytingar á bragð- og lyktarskyni
  • Hósti eða mæði
  • Þreyta, vöðva- eða beinverkir, höfuðverkur
  • Hiti yfir 38°C 

Ef einhver einkenni koma fram skal ráðfæra sig við starfsmannaheilsuvernd um hvort mæta megi til starfa.

Þeir sem hafa sögu um fyrra smit COVID-19 eða hafa lokið bólusetningu gegn COVID-19 og geta framvísað um það vottorði eða skírteini frá EES/EFTA ríki sem uppfyllir skilyrði sóttvarnalæknis eru undanþegnir kröfu um sýnatöku við komuna til landsins óháð lengd eða tilefni ferðar.


Fyrst birt 26.01.2021
Síðast uppfært 18.02.2021

<< Til baka