Undanþágur frá aðgerðum á landamærum vegna COVID-19 fyrir skipaáhafnir

Samkvæmt reglugerð nr. 161/2021 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 er öllum þeim, sem koma til Íslands og dvalið hafa í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum í löndum sem skilgreind eru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði, skylt að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf sem ekki er eldra en 72 klst. við byrðingu auk þess að fara í sýnatöku á landamærastöð til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni og síðan í sóttkví þangað til niðurstöður liggja fyrir úr seinni sýnatöku sem framkvæma skal 5 dögum eftir komu til landsins (4. gr.). Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. er sóttvarnalækni heimilt að veita undanþágu frá sýnatöku og/eða framvísun vottorðs um neikvætt PCR-próf til ákveðinna starfsstétta.

Undanþága er veitt frá almennum fyrirmælum um framvísun neikvæðs PCR-prófs, sýnatöku og sóttkví vegna COVID-19 til handa áhöfnum farskipa sem eru í reglulegum siglingum milli Íslands og hafna erlendis með áhöfnum sem búsettar eru hér á landi með eftirtöldum skilyrðum:

  1. Áhafnir sem eiga sína aðalbækistöð eða eru búsettar hér á landi hafi ferðast eingöngu í atvinnuskyni og hafi meðan á ferð stóð farið í einu og öllu eftir leiðbeiningum vinnuveitanda sem líta má á sem varnarsóttkví og ekki dvalið meira en sólarhring utan skips í erlendri höfn.
  2. Ekki sé blandað saman í áhöfn meðlimum sem eru þátttakendur í íslensku samfélagi við áhafnarmeðlimi sem dvelja á áhættusvæði m.t.t. COVID-19 þegar þeir eru ekki við störf.

    ♦ Athugið: Ef sömu einstaklingar starfa saman í áhöfn í 14 daga eða lengur án þess að nýir einstaklingar bætist í hópinn, gildir undanþágan þrátt fyrir mismunandi bakgrunnsáhættu við upphaf samstarfs ef engin COVID-19 veikindi koma upp meðal áhafnarmeðlima meðan á samstarfi stendur.

  3. Áhafnarmeðlimir sem útsettir eru fyrir smiti þrátt fyrir varúðarráðstafanir sem vinnuveitandi mælir með, hvort sem það er innan fjölskyldu, vinahóps eða í starfsumhverfi verða að virða að fullu sóttkvíartilmæli sóttvarnalæknis og falla ekki lengur undir þessi undanþáguskilyrði.

Athugið að saga um staðfestan COVID-19 sjúkdóm eða bólusetningu gerir framvísun neikvæðs PCR-prófs, sýnatöku og sóttkví óþarfa við heimkomu, óháð skilyrðum við störf erlendis. Vottorð um þetta sem uppfylla kröfur sóttvarnalæknis skal þá sýna við komuna til landsins.

Undanþága á ekki við:

  1. Áhafnir sem eiga sína aðalbækistöð erlendis og hafa stutta viðkomu á Íslandi, s.s. við löndun, fermingu eða affermingu, áhafnaskipti eða til að taka vistir.
  2. Ef bæst hafa við nýir áhafnarmeðlimir sem dvalið hafa á áhættusvæðum innan við 14 dögum áður en komið er að landi hér.

    Við þær aðstæður sem lýst er í síðustu tveimur punktum skal farið eftir leiðbeiningum vaktstöðvar siglinga Landhelgisgæslu Íslands meðan á heimsfaraldri stendur.

  3. Ef veikindi hafa komið upp um borð innan 14 daga frá komu til Íslands eða veikindi eru um borð við komu til landsins.

Í slíkum tilvikum skal fara eftir leiðbeiningum fyrir hafnir og skip.


Fyrst birt 22.01.2021
Síðast uppfært 01.03.2021

<< Til baka