Nánar um aukaverkanir bóluefna

  • Tíðni alvarlegra aukaverkana er alstaðar lág fyrir bóluefni sem eru í notkun hér á landi, en getur verið mismunandi eftir löndum þrátt fyrir að um samskonar bóluefni sé að ræða.

  • Ef hætta á sjúkdómi er veruleg eru gjarnan notuð bóluefni sem eru tiltölulega ódýr í framleiðslu en geta haft meiri eða alvarlegri aukaverkanir heldur en nýrri eða flóknari og þar með dýrari bóluefni, t.d. lifandi mænusóttarbóluefni þar sem sjúkdómurinn geysar ennþá og bóluefni við japanskri heilabólgu sem framleidd eru í taugafrumurækt í Asíu og notuð í almennum bólusetningum þar sem sjúkdómurinn er landlægur.

  • Ástæður þess að aukaverkanir samskonar bóluefna eru misalgengar eftir löndum eru mögulega tengdar mismunandi tíðni arfgerða sem auka hættu á óvenjulegum viðbrögðum ónæmiskerfis. Einnig eru neysluvenjur mismunandi milli landa og er t.d. gelatínofnæmi misalgengt eftir löndum.

  • Óvenjuleg viðbrögð ónæmiskerfis við áreitum almennt eru gjarnan tengd ákveðnum arfgerðum sameinda sem sýna ónæmiskerfinu mótefnavaka (sk. HLA sameinda) og geta því verið mismunandi bæði eftir löndum og eftir uppruna einstaklinga í hverju landi fyrir sig. Þekkt er að einstaklingar með ákveðnar HLA arfgerðir fá stundum alvarlegri einkenni eða er hættara við fylgikvillum við ákveðnar sýkingar (sjá t.d. hér og hér) og mismunandi svörun einstaklinga við ákveðnum bóluefnum eftir HLA gerð hefur verið lýst, t.d. fyrir inflúensu, mislinga og lifrarbólgu B bóluefni.

  • Vel hugsanlegt er að slíkar arfgerðir hafi einnig áhrif á óæskileg viðbrögð ónæmiskerfis við bóluefnum en rannsóknir á þessu hafa ekki komið fram ennþá, líklega vegna þess hve fátíð slík atvik eru.

  • Lifandi bóluefnum geta fylgt einkenni sem líkjast einkennum sjúkdómsins sem bólusett er gegn, en eru vægari en einkennin sem koma fram við sjúkdómssmit. Alvarlegri einkenni geta þó komið fram ef slík bóluefni eru gefin einstaklingum með mikið veiklað ónæmiskerfi og ber því að forðast lifandi bóluefni hjá mjög viðkvæmum einstaklingum og á meðgöngu.

  • Alvarlegar aukaverkanir bólusetninga eru mjög fátíðar en geta sést hjá u.þ.b. einum af hverjum 500.000–1.000.000 bólusetningum. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir fyrir allar bólusetningar sem eru í útbreiddri notkun á heimsvísu.

  • Víða erlendis er fylgst mjög náið með öllum hugsanlegum aukaverkunum bólusetninga og á Íslandi er heilbrigðisstarfsmönnum skylt samkvæmt lögum að tilkynna um óvenjulegar og/eða alvarlegar aukaverkanir bólusetninga til Lyfjastofnunar.

  • Það er mjög mikilvægt að almenningur láti heilbrigðisstarfsmann t.d. heilsugæslu vita af einkennum sem koma fram eftir bólusetningu ef þau eru alvarleg (t.d. allur handleggur bólgnar) eða eru skilgreind sjaldgæf, mjög sjaldgæf eða tíðni ekki þekkt í fylgiseðli.
  • COVID-19 bóluefni eru merkt sérstöku eftirliti hjá Lyfjastofnun og sérlega mikilvægt að afla upplýsinga um aukaverkanir í þessu samhengi.

Tilkynning aukaverkana til Lyfjastofnunar


Fyrst birt 20.01.2021

<< Til baka