Áætlun og skipulag bólusetningar

Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar gegn COVID-19.

Markmið bólusetningar er að vernda einstaklinga fyrir sjúkdómnum og að ná upp hjarðónæmi sem hindrar útbreiðslu faraldursins. Til að ná hjarðónæmi þarf að bólusetja um 60-70% þjóðarinnar. Stefnt er að því að um 75% landsmanna sem fæddir eru 2006 eða fyrr verði bólusettir.

Bólusetning gegn Covid-19 á Íslandi verður samræmd á landinu þar sem einstaklingar verða boðaðir í bólusetningu samkvæmt forgangsröðun sem sett var með reglugerð nr. 1198/2020, um breytingu á reglugerð um bólusetningar á Íslandi. Sjá nánar á covid.is  

Sóttvarnalækni er heimilt að víkja frá framangreindri forgangsröðun ef nauðsynlegt er, svo sem vegna stöðu faraldursins hverju sinni eða tegund bóluefnis, en skal taka mið af þeirri forgangsröðun sem kveðið er á um í reglugerðinni. 

Þeir sem hafa fengið staðfest COVID-19 með PCR greiningar prófi eða mótefnamælingu þurfa ekki að fara í bólusetningu.

  • Einstaklingar verða boðaðir í bólusetningu samkvæmt forgangslista.
  • Ekki verður hægt að panta tíma í bólusetningu.
  • Tölvukerfi heldur utan um alla forgangshópa, boðun í bólusetningar, upplýsingar um bóluefni, skráningu og eftirlit með að einstaklingur hafi verið bólusettur að fullu.
  • Bóluefni verður dreift til afhendingastaða á landinu þar sem heilsugæslan ber ábyrgð á framkvæmd bólusetninga á þjónustusvæði sínu.
  • Einstaklingar í forgangshópum verða boðaðir með skilaboðum í Heilsuveru þar sem fram kemur hvar og hvenær viðkomandi á að mæta.
  • Staðsetning bólusetninga fyrir aðra hópa verður kynnt þegar liggur fyrir hvenær þeir fá bólusetningu.
  • Að öllu jöfnu þarf að bólusetja einstaklinga tvisvar með sama bóluefninu með 3 vikna millibili, eftir leiðbeiningum framleiðanda.
  • Aukaverkanir. Almenningur og heilbrigðisstarfsfólk getur tilkynnt um aukaverkanir af völdum bóluefnis á vef Lyfjastofnunar

Fyrst birt 20.12.2020

<< Til baka