Vottorð um bólusetningu vegna COVID-19 tekin gild á landamærum til undanþágu á sóttvarnaraðgerðum

Skyldur um sýnatöku og sóttkví eftir ferðalög:

 • Núgildandi reglur gera ráð fyrir að allir sem koma til Íslands eftir meira en sólarhringsdvöl á áhættusvæðum m.t.t. COVID-19 framvísi vottorði um neikvætt PCR-próf en fari einnig í skimun við landamærin. Þeir sem eru án undanþágu fara aftur í skimun 5 dögum síðar og sæta sóttkví á milli sýnatöku. Ef seinna sýnið er neikvætt er sóttkví aflétt. Í dag eru öll lönd nema Grænland skilgreind sem áhættusvæði.
 • Allir sem koma til landsins þurfa að forskrá sig á covid.is. Gildir um börn og fullorðna.
 • Allir komufarþegar þurfa að fara í a.m.k. eina sýnatöku vegna COVID-19 á landamærum, hvaðan sem þeir koma og á hvaða aldri sem þeir eru, líka þeir sem eru með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu.
 • Á meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku er brýnt að fylgja þeim leiðbeiningum sem gilda um sóttkví.
 • Börn fædd 2005 og síðar þurfa ekki að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf við komuna.  Öll börn þurfa að undirgangast eina PCR-skimun á landamærum.  Sýnataka hjá börnum má vera frá nefkoki, hálsi eða munni. Börn eru ekki undanþegin þó þau hafi fengið COVID-19 eða þau séu bólusett. Ef foreldri/forráðamaður fer í sóttkví fer barn í sóttkví en barn losnar úr sóttkví, án seinni sýnatöku, þegar sóttkví foreldris/forráðamanns er aflétt. Ef foreldri/forráðamaður er með vottorð til undanþágu á sóttkví er sóttkví aflétt þegar neikvæð niðurstaða liggur fyrir úr sýnatöku á landamærum.
 • Sjá nánar á covid.is


Eftirfarandi vottorð eru tekin gild á landamærum til undanþágu á kröfu um að framvísa neikvæðu PCR-prófi og sóttkví:

 1. Vottorð um afstaðna COVID-19 sýkingu sem uppfylla ákveðin skilyrði.
  Sjá skilyrði sóttvarnalæknis.
 2. Vottorð um bólusetningu gegn COVID-19 sem uppfyllir leiðbeiningar sóttvarnalæknis um slík vottorð. Þær leiðbeiningar er að finna neðar í þessu skjali.
 • Bólusetningavottorð með einhverju af eftirfarandi bóluefnum sem hafa markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu (EMA). Vottorð sem uppfylla skilyrðin eru tekin gild frá öllum löndum:
  1. Comirnaty; Pfizer BioNTech
  2. COVID-19 Vaccine Moderna
  3. Vaxzevria; COVID-19 Vaccine AstraZeneca
  4. COVID-19 Vaccine Janssen
 • Skírteini á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO) eru einnig tekin gild (gula bókin) þegar WHO hefur fjallað um og viðurkennt bóluefni sem skráð er í skírteinið. Rétt útfyllt skírteini eru tekin gild frá öllum löndum. Hér á eftir fer listi yfir bóluefni sem má skrá í gulu bókina (uppfært eftir því sem ný bætast við):
  1. Tozinameran-Covid-19 mRNA Vaccine (Comirnaty®) Pfizer/BioNTech Manufacturing GmbH.
  2. COVID-19 Vaccine (ChAdOx1-S) AstraZeneca/SK Bio (SK Bioscience Co. Ltd).
  3. COVID-19 Vaccine (ChAdOx1-S) AstraZeneca (Covishield™ Serum Institute of India Pvt.Ltd).
  4. COVID-19 Vaccine (Ad26.COV2-S) Janssen-Cilag International NV.

Vottorð mega vera á pappír eða á rafrænu formi. Landamæraverðir meta hvort vottorð er gilt og kalla til fulltrúa sóttvarnalæknis (heilbrigðisstarfsmann) ef þarf og lokaákvörðun um gildi vottorðs er á ábyrgð sóttvarnalæknis. Ef farþegi framvísar vottorði sem er metið ógilt, þ.e. ef einhver þeirra skilyrða sem er krafist eru ekki fyrir hendi, skal viðkomandi sæta þeim sóttvarnaráðstöfunum sem öðrum komufarþegum er gert að sæta, þ.e. að gangast undir tvöfalda skimun, sóttkví á milli sýnatöku og að dvelja í sóttvarnahúsi ef það á við.


Bólusetningavottorð þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Tungumál þarf að vera íslenska, danska, norska, sænska, enska eða franska. Vottorð á öðru tungumáli má taka gilt ef þýðing stimpluð af löggildum skjalaþýðanda fylgir upprunalegu skjali á einu af tungumálunum sem krafist er.
 • Fornafn og eftirnafn (sambærilegt við ferðaskilríki).
 • Fæðingardagur.
 • Heiti sjúkdóms sem bólusett var gegn (COVID-19).
 • Hvar og hvenær bólusetning(ar) fór(u) fram (dagsetning(ar)).
  • Skilyrði er að bólusetningu sé lokið; sjá hér að neðan um fjölda skammta sem þarf til að bólusetningu sé lokið fyrir hvert bóluefni.
 • Útgefandi vottorðs (heilbrigðisstarfsmaður/stofnun), með undirskrift og stimpli ef alþjóðabólusetningaskírteinið.
 • Heiti bóluefnis eða bóluefna.
 • Framleiðandi bóluefnis og lotunúmer fyrir alla skammta.


Nánar um bóluefni sem hafa markaðsleyfi Lyfjastofnunar Evrópu:
(heiti bóluefnis; handhafi markaðsleyfis/framleiðandi; fjöldi og millibil skammta til að bólusetning teljist fullgild)

 • Comirnaty; COVID-19 mRNA vaccine; Pfizer/BioNTech Manufacturing GmbH; 2 skammtar með að lágmarki 19 daga millibili.
 • COVID-19 Vaccine Moderna; Moderna Biotech Spain S.L.; 2 skammtar með að lágmarki 28 daga millibili.
 • Vaxzevria; COVID-19 Vaccine AstraZeneca (ChAdOx1-s); AstraZeneca AB; 2 skammtar með að lágmarki 4 vikna millibili.
 • COVID-19 Vaccine Janssen (Ad26.COV2-S); Janssen-Cilag International NV; 1 skammtur.
 • Ef mismunandi bóluefni eru notuð fyrir fyrsta og annan skammt gildir tímabil milli skammta sem á við fyrra bóluefni sem var notað til að bólusetning teljist gild án mótefnamælingar.

Athugið að þó þessi vottorð séu tekin gild á landamærum Íslands til undanþágu á sóttvarnaraðgerðum við komuna til landsins á það ekki endilega almennt við um önnur lönd.


Fyrst birt 13.01.2021
Síðast uppfært 08.04.2021

<< Til baka