Leghálsspeglanir

Leghálsspeglun (kolposcopi) er smásjárskoðun á leghálsi, sem gerð er ef frumubreytingar finnast í leghálsstroki við skimun. Frumubreytingar eru oftast orsakaðar af HPV veirusýkingu (human papilloma veiru). Vægar forstigsbreytingar hverfa oft sjálfkrafa án meðferðar og því er nægjanlegt að hafa eftirlit með þeim eftir 6-12 mánuði. Hins vegar ef það gerist ekki eða ef hágráðu frumubreytingar eru í stroki, er þörf á leghálsspeglun til frekari greiningar. Við leghálsspeglun er leghálsinn skoðaður og útbreiðsla frumubreytinga könnuð. Einnig eru tekin vefjasýni (biopsiur) til vefjagreiningar. Vefjasýni eru tekin frá svæðum sem sýna frumubreytingar.

Hvernig fer leghálsspeglun fram

Leghálsspeglun þarfnast hvorki svæfingar né deyfingar. Læknir framkæmir rannsóknina sem tekur um 15-20 mínútur. Konan fer í hefðbundna kvenskoðun, leghálsinn er skoðaður og tekin sýni.

Að jafnaði tekur um 7-10 daga að fá niðurstöður úr leghálsspeglun. Þá er tekin ákvörðun um hvort þörf er á að gera keiluskurð. Æskilegt er að leghálsspeglanir verði á fárra höndum og hjá þeim sem hafa fengið sérstaka þjálfun. Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK) munu að mestu sjá um leghálsspeglanir frá 1. janúar 2021.

Leiðbeiningar um verklag

Leiðbeiningar landlæknis um leghálsskimun eru byggðar á dönskum leiðbeiningum sem gefnar voru út af Sundhedsstyrelsen 2018. Danir hafa ákveðnar staðbundnar útfærslur á skimun, hér er stuðst við leiðbeiningar höfuðborgarsvæðisins (Region Hovedstaden).

Unnið er eftir flæðiriti úr dönsku leiðbeiningunum við skipulag á leghálsspeglun.
Konur sem greinast með HPV sýkingu( HPV+) eða hágráðu frumubreytingar (HSIL, AIS, AGS, ASC-H) er vísað í leghálsspeglun með tilvísun á Landspítalann eða SAK.

Eftir leghálsspeglun og vefjasýnatöku er tekin ákvörðun um hvort konan haldi áfram í hefðbundinni skimun, hvort endurtaka þurfi leghálsspeglun eða að gera þurfi keiluskurð á leghálsinum til að fjarlægja frumubreytingarnar.

Læknir sem framkvæmir leghálsspeglunina ber ábyrgð á að upplýsa konuna og gera áætlun fyrir framhaldið.

Aðrar tilvísanir í leghálsspeglun óháð svari við frumusýni geta verið:

  • Grunur um leghálskrabbamein við klíníska skoðun
  • Óljós sár á leghálsi með eða án blóðugrar útferðar
  • Óútskýrðar og viðvarandi blæðingar frá leggöngum
  • Frumusýni ófullkomið tvisvar í röð.

Fagráð skimana mælir með að horft verði til Bretlands varðandi uppbyggingu, skipulag, skráningu og eftirlit með leghálsspeglunum hér á landi.


Fyrst birt 06.01.2021

<< Til baka