Ferli þegar upp kemur COVID-19 smit

  1. Veikindi. Starfsmaður verður veikur. Fer í COVID-19 próf sem reynist jákvætt.
  2. Smitrakningarteymi hefur samband við þann sem hefur smitast og eftir atvikum við vinnuveitanda. Spurt er út í aðstæður á starfsstaðnum og samskipti þess smitaða við aðra á tilgreindu sóttvarnarsvæði/rými.
  3. Tímabil sóttkvíar. Smitrakningarteymi gefur upp það tímabil sem miða á við og er þá gengið úr frá reglunni: Innan 24 klst og innan 2 metra í meira en 15 mín. með þeim smitaða. Sóttkví er 14 dagar frá útsetningu fyrir smiti. Stytta má sóttkví í 7 daga ef farið er í sýnatöku á 7. degi og þá berst strikamerki í tölvupósti og með smáskilaboðum eftir kl. 16 daginn áður. Miðað er við 24 klst. áður en fyrstu einkenna varð vart. Ef um engin einkenni er að ræða er miðað við 24 klst. frá sýnatöku. 
    Dæmi: A fær einkenni 2. maí en greinist með COVID-19 þann 4. maí. Hann hitti B þann 1. maí og þeir unnu saman. B fer þá í 14 daga sóttkví frá 1. maí, fær strikamerki sent 7. maí eftir kl. 16 og fer í sýnatöku þann 8. maí. Ef prófið er neikvætt þá er B laus úr sóttkví.
  4. Úrvinnslusóttkví. Ef vafamál um umgengni eða samneyti starfsfólks koma upp þá er engin áhætta tekin heldur svæði lokað tímabundið. Svokölluð úrvinnslusóttkví sem stendur yfirleitt þangað til búið er að rekja smit eða niðurstöður sýnatöku liggja fyrir.

Mikilvægt er að leggja áherslu á að starfsfólk haldi sig heima og mæti ekki til vinnu ef það byrjar að finna fyrir einkennum. Helstu einkenni COVID-19 minna á venjulega flensu: Hósti, hiti, hálssærindi, andþyngsli, bein- og vöðvaverkir og þreyta, meltingarfæraeinkenni (sérstaklega hjá börnum), skyndilegt tap á lyktar- og bragðskyni. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.

Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í heilsugæsluna eða hafa samband gegnum heilsuvera.is. Utan dagvinnutíma má hafa samband við Læknavakt í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Í neyð hringið í 112.

Einstaklingur fer í sóttkví ef hann hefur:

  • Umgengist fólk sem svo greinist með COVID-19.
  • Verið á ferðalagi á skilgreindum áhættusvæðum.

Sjá hér Leiðbeiningar til framlínustarfsmanna í atvinnulífinu
Einnig á ensku og öðrum tungumálum.

Leiðbeiningar um sóttkví

Nánari upplýsingar á vef embættis landlæknis og covid.is


Fyrst birt 20.06.2020
Síðast uppfært 02.01.2021

<< Til baka