Bólusetning gegn COVID-19 - Algengar spurningar og svör

ENGLISH
POLSKI

Af hverju bólusetjum við gegn COVID-19?
Það eru nokkrar ástæður fyrir því, þar á meðal:

  • Til að lágmarka dauðsföll, alvarleg veikindi og langvarandi áhrif vegna COVID-19 hjá bólusettum.
  • Til að lágmarka útbreiðslu smits í þjóðfélaginu með þvi að skapa víðtækt ónæmi í samfélaginu.
  • Til að tryggja samfélagslega mikilvæga starfsemi.

Hver verða áhrif bólusetningar gegn COVID-19?
Það mun skipta máli hvaða bóluefni við fáum, hversu árangursrík þau eru, hve marga skammta á að taka og hversu marga skammta við fáum, miðað við hversu stóran hluta landsmanna við getum bólusett. Samfélagsleg áhrif munu einnig ráðast af því hve fljótt verður mögulegt að bólusetja viðkomandi forgangshópa og hversu mikill stuðningur er við bólusetninguna. Upplýsingar verða uppfærðar eftir því sem meiri þekking verður til á þeim tegundum bóluefna, sem í boði verða. 
Þegar bóluefnin eru samþykkt, vitum við að þau hafa viðunandi áhrif, en ekki er vitað hversu lengi áhrifin vara. Bráðar aukaverkanir verða einnig þekktar.

Hvenær kemur bóluefnið við COVID-19 til landsins?
Á Íslandi verður boðið upp á bóluefni frá nokkrum framleiðendum. Reiknað er með að fyrstu skammtar bóluefnis muni berast hingað til lands í lok desember 2020. Bólusetning mun hefjast strax í framhaldi af því. Bólusett verður í samræmi við afhendingu bólusefnisins hér á landi en hins vegar geta komið upp áskoranir á leiðinni sem geta tafið eða stöðvað þróun, framleiðslu og afhendingu sumra bóluefnanna. Bóluefnisskammtar verða líklega takmarkaðir í upphafi, svo það getur tekið tíma áður en við getum boðið öllum í markhópunum bóluefni.


Hvernig er fylgst með aukaverkunum?
Öll bóluefni hafa aukaverkanir, flestar eru vægar og skammvinnar. Þegar bóluefni eru þróuð er alltaf markmiðið að bóluefnin skili sem bestum áhrifum með sem minnstum aukaverkunum. Jafnvel þó að þú prófir nýju bóluefnin muntu aldrei geta verndað þig alveg gegn sjaldgæfum aukaverkunum. Sumar aukaverkanir uppgötvast aðeins þegar bóluefnið hefur verið notað í lengri tíma. Þegar bóluefnin eru samþykkt munum við vita mikið um algengar og sjaldgæfari aukaverkanir hjá fullorðnum en líklega minna um aukaverkanir hjá börnum, öldruðum og barnshafandi konum. Ennfremur verður lítið vitað um langtíma aukaverkanir bólusetningar.

Eftir að bóluefnin hafa verið notuð hefur Lyfjastofnun ásamt embætti landlæknis eftirlit með því hvort óvæntar aukaverkanir komi fram. Einnig er mikil alþjóðleg samvinna við hin löndin sem nota sömu bóluefni. Að auki er framleiðendum bóluefna gert að gera nýjar kerfisbundnar öryggisrannsóknir. Almenningur og heilbrigðisstarfsfólk getur tilkynnt um aukaverkanir af völdum bóluefnis á vef Lyfjastofnunar


Upplýst samþykki
Það er eðlilegt að sumir séu hikandi áður en við vitum meira um bóluefnin sem eru í þróunarferlinu. Við munum upplýsa um hvernig áhrifin eru og hvaða aukaverkanir samþykktu bóluefnin hafa svo allir geti tekið upplýst val. Ekki verður krafist upplýsts samþykkis fyrir bólusetningunni.

Færðu COVID-19 við það að taka bóluefni?
Ekkert bóluefnanna hefur í sér lifandi kórónaveiru svo þú færð ekki COVID-19 við að verða bólusett/ur. Líklegar aukaverkanir geta komið fram sem minna á flensueinkenni. Þetta eru aukaverkanir sem sýna að ónæmiskerfið okkar vinnur með bóluefnið.

Börn og barnshafandi konur
Þau bóluefni sem eru komnir lengst hafa ekki verið prófuð á börnum og ungmennum. Börn smitast síður en aðrir íbúar. Ekki er mælt með bólusetningu fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um bólusetningu þungaðra kvenna. Hins vegar er óhætt að bólusetja konur með barn á brjósti.

Getur það valdið vandræðum ef nægilega stór hluti þjóðarinnar verður ekki bólusettur gegn COVID-19?
Níu af hverjum tíu landsmönnum munu örugglega eða líklega þiggja bólusetningu samkvæmt ýmsum skoðanakönnunum, eins og Þjóðarpúlsi Gallup sem var birtur í september. Einungis sex prósent sögðust ekki eða líklega ekki myndu þiggja bólusetningu. Fjögur prósent tóku ekki afstöðu.

Langalgengasta ástæðan fyrir því að fólk segist ekki eða líklega ekki láta bólusetja sig er sú að það vilji bíða eftir að reynsla komi á bólusetninguna og mögulegar aukaverkanir. Lítill hluti sagðist almennt vera á móti bólusetningum og nokkrir sögðust ekki þiggja bólusetningu þar sem þeir hefðu þegar fengið sjúkdóminn eða mælst með mótefni.


Hversu langan tíma tekur að ná stjórn á faraldrinum eftir að bólusetning er hafin?
Það tekur tíma að bólusetja alla þá sem vilja láta bólusetja sig. Reiknað er með að samningar Íslands við bóluefnaframleiðendur tryggi bóluefni fyrir rúmlega 280.000 manns. Nauðsynlegt verður að viðhalda ákveðnum samfélagslegum takmörkunum að minnsta kosti fyrstu mánuði bólusetningar.

Líkurnar á að líf almennings komist aftur í eðlilegt horf eru háðar áhrifum bóluefnisins og getu þess til að koma í veg fyrir, ekki aðeins alvarlegan sjúkdóm, heldur einnig útbreiðslu kórónaveirunnar.


Kemur bóluefnið einnig í veg fyrir smit?
Þetta er ekki ljóst á þessari stundu en beðið er eftir frekari upplýsingum. Enn eru engar upplýsingar um hversu lengi vernd bóluefnisins mun vara.


Er hægt að krefjast þess að einhver verði bólusettur?
Allar bólusetningar á Íslandi eru valkvæðar.


Þarf að greiða fyrir bólusetningu við COVID-19?
Nei, bólusetningin verður gjaldfrjáls.

Hversu langan tíma mun taka fyrir líf okkar að komast í eðlilegt horf?
Jafnvel þó það styttist í að við fáum bóluefni hingað til lands mun það taka langan tíma áður en allir hópar fái bólusetningu. Því verðum við áfram að viðhafa þær grundvallarsmitvarnir sem við höfum notað síðastliðna mánuði 


Fyrst birt 21.12.2020

<< Til baka