Algengar spurningar heilbrigðisstarfsfólks

Spurningar um skipulag og framkvæmd bólusetninga:

Get ég séð í Sögu þá sem hafa verið bólusettir?
Já, hægt er að sjá undir forsíðu sjúklings eða ónæmisaðgerðum hvort viðkomandi er bólusettur.

Get ég séð í Heilsuveru þá sem hafa verið bólusettir?
Hver og einn getur séð sínar bólusetningar inn á www.heilsuvera.is  undir Mínar síður.

Hvernig á að skrá aukaverkanir?
Aukaverkanir eru skráðar á vef Lyfjastofnunar.

Hvar eru bólusetningar skráðar?
Allar bólusetningar eru skráðar í í bólusetningakerfinu og fara þaðan í miðlægan bólusetningar gagnagrunn sóttvarnalæknis. Ekki er leyfilegt að skrá bólusetningar við COVID-19 í Sögu eins og er.


Hver sinnir gerð bólusetningaskírteina vegna COVID-19 bólusetninga?
Bólusetningarskírteini eru aðgengileg þeim sem hafa rafræn skilríki í Heilsuveru án aðkomu heilsugæslu. Einstaklingar sem fá seinni bólusetningu fyrr en ætlast er til þurfa að hafa samband við heilsugæslu til að hægt sé að meta gildi seinni skammts skv. leiðbeiningum um frávik við COVID-19 bólusetningu. Ef bólusetning er talin gild má heilsugæsla gefa út hefðbundið pappírsskírteini eins og notuð eru fyrir barnabólusetningar. Ef bóluefnið hefur lokið umfjöllun hjá WHO má nota gulu bókina (alþjóðlegt bólusetningaskírteini). Athugið skilyrði sóttvarnalæknis fyrir gildri skráningu COVID-19 bólusetninga í bólusetningaskírteini. Þeir sem ekki hafa rafræn skilríki þurfa einnig að leita til heilsugæslu til að fá pappírsskírteini.

Má heilsugæsla taka gjald fyrir að skrá COVID-19 bólusetningar í pappírsskírteini?
Já, skv. 5. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1350/2020.


Hvernig á að tímasetja aðrar bólusetningar sem einstaklingur óskar eftir þegar COVID-19 bólusetning er gerð?
Aðrar bólusetningar með óvirkjuðum bóluefnum ætti að gera um 2 vikum eftir COVID-19 bólusetningu. Athugið að gefa ekki lifandi bóluefni milli skammta COVID-19 bóluefna sem gefin eru með mánaðar- eða styttra millibili.

Ef einstaklingur hefur fengið bólusetningu við inflúensu eða önnur óvirkjuð bóluefni ættu að líða að lágmarki 7 dagar og helst 14 dagar áður en viðkomandi fær COVID-19 bóluefni.

Ef einstaklingur hefur fengið lifandi bóluefni (gulusótt, MMR eða hlaupabólu) má ekki gefa önnur bóluefni, þ.m.t. COVID-19 bóluefni, fyrr en að lágmarki 30 dögum síðar.

 

Eiga þeir sem hafa fengið COVID-19 eða með mótefni að fá bólusetningu með sínum hópi skv. reglugerð?
Einstaklingar sem hafa fengið COVID-19 eða með mótefni án sögu um sjúkdóm eru a.m.k. hlutvarðir gegn SARS-CoV-2 og liggur því meira á að bólusetja sem flesta sem hvorki hafa sögu um sjúkdóm né mótefni. Þeir sem hafa sögu um COVID-19 eða eru með mótefni munu samt fá bólusetningu þegar framboð bóluefnis er ekki lengur takmarkandi þáttur. Enn er ekki komið á hreint hvort einstaklingar með slíka sögu þurfa eina eða tvær bólusetningar.

Hver sér um að setja hópa inn í kerfið?
Svokallaðir listamenn, í hverju heilbrigðisumdæmi, setja hópa inn í kerfið ásamt starfsmönnum embættis landlæknis og sóttvarnalæknis, eftir atvikum.

Hvar fæ ég upplýsingar um hver er listamaður í mínu umdæmi?
Hjá framkvæmdastjóra hjúkrunar í þínu heilbrigðisumdæmi.

Hvað ef ég næ ekki í listamann?
Hafið samband við framkvæmdastjóra hjúkrunar í þínu heilbrigðisumdæmi.

Hver getur breytt hópum?
Listamenn í hverju heilbrigðisumdæmi og listamenn á SAk og LSH.

Hver getur boðað hóp í bólusetningu?
Listamenn í hverju heilbrigðisumdæmi ásamt listamönnum á LSH og SAk.

Er hægt að skrá sömu manneskjuna oft í kerfið? Er hætta á að einhver verði bólusettur tvisvar?
Kerfið heldur utan um bólusetningar allra og lætur vita ef reynt er að bólusetja einstakling oftar en þörf er á. Einstaklingar geta komið fram á mörgum listum en upplýsingar um boð og gefnar bólusetningar fylgja honum í gegnum allt kerfið.

Spurningar um bóluefnin:

Hverjar eru frábendingar hvers bóluefnis og hvernig á að bregðast við ef þær eru til staðar hjá einstaklingi sem boðin er bólusetning?

  • mRNA bóluefni (Pfizer BioNTech, Moderna)+

1. Bráðaofnæmiskast
a) eftir lyf sem gefin eru í vöðva eða í æð.
b) af óþekktri orsök.
c) vegna polyethylene glycols (PEG) eða annarra innihaldsefna bóluefnis

Viðbrögð: vísa viðkomandi til ofnæmislæknis, bólusetning bíður þar til ofnæmislæknir hefur gefið álit um hvaða bóluefni koma til greina og við hvaða aðstæður eigi að gefa bólusetningu.

2. Bráðaofnæmiskast eða önnur ofnæmisviðbrögð við fyrri bólusetningu með mRNA bóluefni.

Viðbrögð: Vísa viðkomandi til ofnæmislæknis. Seinni skammtur bíður þar til ofnæmislæknir hefur gefið álit um hvort annað bóluefni komi til greina til að klára bólusetningu og þá við hvaða aðstæður eða hvort forðast þurfi öll bóluefni gegn COVID-19.

3. Aðrar alvarlegar aukaverkanir við fyrri bólusetningu með mRNA bóluefni og staðfest eða sterkur grunur um tengsl atviks við bóluefnið/bólusetninguna.

Viðbrögð: Bíða þarf með frekari bólusetningu þar til frekari upplýsingar og leiðbeiningar liggja fyrir, t.d. frá Lyfjastofnun Evrópu

  • Astra Zeneca bóluefni

1. Bráðaofnæmiskast eða önnur ofnæmisviðbrögð við fyrri bólusetningu með Astra Zeneca bóluefni gegn COVID-19.

Viðbrögð: vísa viðkomandi til ofnæmislæknis. Seinni skammtur bíður þar til ofnæmislæknir hefur gefið álit um hvort annað bóluefni komi til greina til að klára bólusetningu og þá við hvaða aðstæður eða hvort forðast þurfi öll bóluefni gegn COVID-19.

2. Aðrar alvarlegar aukaverkanir við fyrri bólusetningu með AZ bóluefni og staðfest eða sterkur grunur um tengsl atviks við bóluefnið/bólusetninguna.


Viðbrögð: Bíða þarf með frekari bólusetningu þar til frekari upplýsingar og leiðbeiningar liggja fyrir, t.d. frá Lyfjastofnun Evrópu.

3. Fyrri saga um blóðtappa eða sjúkdómar sem auka verulega hættu á blóðtöppum, sjá sérfræðilálit blóðmeinafræðinga og lista yfir greiningarnar. Athugið að ekki er um eiginlegar frábendingar að ræða þar sem ekki er staðfest að hætta á blóðtöppum eftir Astra Zenca bólusetningu sé aukin hjá einstaklingum með þessa sjúkdómssögu. Einstaklingar með þessa sögu sem óska eftir að fá Astra Zeneca bóluefni mega fá það.

Er ættarsaga um blóðtappa frábending við bólusetningu með einhverju bóluefnanna?
Nei, sbr. ofangreindan lið 3 um frábendingar og tengla þar.

Er fyrri saga um blóðtappa eða ættarsaga um blóðtappa frábending við bólusetningu með einhverju bóluefnanna?
Nei, sbr. ofangreint um frábendingar.

Er fyrri saga um blæðingartilhneigingu, blóðflögufæð, blóðþynningu eða ættarsaga um blæðingartilhneigingu eða blóðflögufæð frábending við bólusetningu með einhverju bóluefnanna?
Nei. Ávallt skal gæta varúðar við gjöf lyfja í vöðva ef saga er um blæðingartilhneigingu eða einstaklingur er á blóðþynningu, sbr. fylgiseðla bóluefnanna hjá Sérlyfjaskrá. Athugið að ekki má gefa þessi bóluefni undir húð skv. fylgiseðlunum.

Skiptir máli á hvaða öðrum lyfjum einstaklingur er eða hvaða sjúkdóma hann hefur við val á bóluefni?
Almennt ekki en sjá þó um Astra Zeneca hér að ofan. Öll bóluefnin eru mjög virk gegn smiti, alvarlegum sjúkdómi og dauða vegna COVID-19 hjá einstaklingum með ólaskað ónæmiskerfi. Einstaklingar með ónæmisbælandi sjúkdóma eða sem nota lyf sem hafa veruleg ónæmisbælandi áhrif mega fá öll bóluefnin því engin þeirra COVID-19 bóluefna sem nú eru á markaði eru lifandi bóluefni. Þessir einstaklingar svara þeim öllum trúlega heldur verr en almennt gengur og gerist en þar sem ekkert bóluefnanna hefur verið rannsakað hjá einstaklingum með mikla ónæmisbælingu er ekki tilefni til að taka eitt bóluefni fram yfir önnur fyrir þennan hóp.

Meginreglan er sú að æskilegt er að bólusetja ónæmisbælda einstaklinga sem fyrst og án röskunar á mikilvægri meðferð. Í stöku tilvikum getur verið hægt að tímasetja bólusetningu þannig að önnur meðferð hafi síður áhrif til bælingar svars við bóluefninu eða verið tilefni til að nota bóluefni sem veitir fulla vörn með hraði, sjá líka hér. Fyrir suma getur verið hægt að fella niður ónæmisbælandi meðferð í allt að 2 vikur eða skv. læknisráði til að efla svar en almennt er æskilegt að halda nauðsynlegri meðferð áfram án rasks.

Er ástæða til að fylgja eftir bólusetningu með mótefnamælingu hjá einhverjum sjúklingahópum?
Nei. Til eru leiðbeiningar um viðbrögð við frávikum í bólusetningu gegn COVID-19 þar sem mælt er með mótefnamælingum í ákveðnum tilvikum. Þegar frá líður bólusetningarátaki því sem nú stendur yfir er mögulegt að fram komi leiðbeiningar um notkun mótefnamælinga og/eða endurbólusetningar ákveðinna hópa án mótefnamælinga.

Sjá nánar um þekktar aukaverkanir bóluefna gegn COVID-19 hér.


Fyrst birt 21.12.2020
Síðast uppfært 15.04.2021

<< Til baka