Upplýsingar fyrir komufarþega til Íslands

Landamæri Íslands eru opin íbúum og ríkisborgurum EES/EFTA svæðis en Ísland fylgir ferðatakmörkunum á ytri landamærum Schengen-svæðisins. Komufarþegar þurfa að forskrá sig á covid.is. Þeir sem koma frá áhættusvæðum COVID-19 þurfa að fara í tvær sýnatökur eftir komu til landsins og vera í sóttkví á milli sýnatöku. Fyrri sýnataka er við landamærin en sú seinni 5 dögum síðar á vegum heilsugæslunnar.

Börn sem fædd eru 2005 og síðar sem ferðast fara í sóttkví með foreldri/forráðamanni. Börn sem ferðast ein fara í sýnatöku eftir 5 daga í sóttkví eftir komuna. Þeir sem hafa greinst með COVID-19 sýkingu eða mótefni á Íslandi eða í EES/EFTA-ríki, og framvísa gildu vottorði, eru undanþegnir sýnatöku. Hafi einstaklingur viðurkennt vottorð um bólusetningu vegna COVID-19 (alþjóðabólusetningaskírteinið) í samræmi við alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er honum ekki skylt að fara í sýnatöku skv. reglugerð nr.18/2021. Sama gildir um bólusetningarvottorð sem gefið er út í EES/EFTA-ríki sem uppfyllir leiðbeiningar sóttvarnalæknis. 

  • Öllum komufarþegum ber að fylla út forskráningarform á covid.is
  • Við skráningu velja komufarþegar skimun eða framvísa vottorði. Skimun innifelur tvær sýnatökur og sóttkví í 5-6 daga á milli sýnatöku. Sjá nánar í forskráningarformi.
  • Farþegar, áhöfn og starfsmenn bera andlishlífar á flugvelli og í flugi.
  • Öllum ber að sinna sóttvörnum, handhreinsun og virða 2ja metra nándarmörk.
  • Ferðamenn eru hvattir til að hlaða niður og nota appið Rakning C-19.
  • Meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku halda ferðamenn kyrru fyrir og fylgja reglum um sóttkví.
  • Sjá nánar hér að neðan og á vef covid.is. Þar er einnig netspjall fyrir spurningar.

Fyrir ferðina
Farþegum ber skylda til að fylla út forskráningarform áður en þeir koma til landsins með upplýsingum m.a. um nafn, kennitölu/fæðingardag, ferðamáta, hvaðan þeir eru að koma frá, dvalartíma á Íslandi, dvalarstaði og símanúmer. Í forminu er heilbrigðisyfirlýsing hvort farþegar hafi einhver einkenni, hafi greinst nýlega með COVID-19 eða verið í nánd við sýktan einstakling. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin forskráningu, sýnatöku og sóttkví. Upplýsingar um undanþágur o.fl. eru í forminu.

Sóttvarnaráðstafanir flugvalla, flugfélaga og hafna
Uppfærðar leiðbeiningar fyrir flugrekstraraðila, flugvelli og áhafnir varðandi sóttvarnaráðstafanir á flugvöllum og um borð í flugvél taka mið af leiðbeiningum EASA-ECDC og ber farþegum að fylgja tilmælum um sóttvarnir, nándarmörk og notkun á andlitshlífum í alþjóðaflugi og á flugvelli. Starfsmenn í afgreiðslu við farþega og áhöfn munu einnig bera grímur. Leiðbeiningar fyrir hafnir, umboðsmenn og áhafnir skipa eru uppfærðar reglulega.

Sóttvarnaráðstafanir á landamærum
Sýnataka felur í sér PCR-próf (e. Polymerase Chain Reaction), eða kjarnsýrumælingu, til greiningar á SARS-CoV-2 veirunni, sem veldur COVID-19. Undanþegin sýnatöku eru börn fædd 2005 eða síðar sem ferðast með foreldri/forráðamanni, þeir sem hafa dvalið utan áhættusvæða í 14 daga fyrir komu og áhafnir flugvéla og flutningaskipa búsettar á Íslandi sem fylgja ákveðnu vinnulagi erlendis. Þá eru þeir sem hafa greinst með COVID-19 sýkingu eða mótefni á Íslandi eða í EES/EFTA-ríki undanþegnir enda framvísi þeir gildu vottorði. Nánar um það og bólusetningavottorð að ofan.

Hægt er að fá vottorð um staðfesta sýkingu á Íslandi á heilsuvera.is eða hjá embætti landlæknis ef ekki með rafræn skilríki (beiðni sendist á: mottaka@landlaeknir.is). Niðurstöður mótefnamælinga sem gerðar voru hjá Íslenskri erfðagreiningu er að finna á heilsuvera.is. Vottorð vegna mótefnamælinga hjá öðrum rannsóknarstofum þarf að fá hjá viðkomandi eða hjá heilsugæslu.

Flugvellir og hafnir
Boðið er upp á sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. Komufarþegar á öðrum alþjóðaflugvöllum (Akureyri, Egilsstaðir, Reykjavík) og höfnum fara í sýnatöku eftir aðstæðum, á flugvelli/höfn, á heilsugæslustöð eða öðrum stöðum þar sem sýnataka vegna landamæra er framkvæmd.

Upplýsingar um próf á landamærum
Sýnataka fer fram við komu til landsins og er gjaldfrjáls. Gert er ráð fyrir að biðtími eftir sýnatöku á landamærum sé innan við ein klukkustund. Í kjölfar sýnatöku er komu¬farþegum skylt að fara á skráðan dvalarstað, skv. forskráningarformi og þeir þurfa að fylgja reglum um sóttkví. Seinni sýnataka er 5 dögum eftir þá fyrri og ef niðurstaða úr sýnatöku er neikvæð er sóttkví aflétt. Til dæmis ef fyrri sýnataka er á miðvikudegi er sú seinni á mánudegi. Jákvæð niðurstaða leiðir alltaf til einangrunar og frekari rannsókna.

Á meðan beðið er eftir niðurstöðu sýnatöku
Komufarþegar þurfa að sæta sóttkví uns niðurstöður úr síðari sýnatöku eru tilkynntar. Einstaklingar í sóttkví eiga ekki ekki nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað (en þó má nota leigubíla) og þeir eiga ekki að vera á ferðinni. Það má nota flugrútu frá Keflavík, einkabíl og bílaleigubíl. Allir ættu að þvo hendur og/eða nota handspritt, forðast að snerta sameiginlega snertifleti, varast að snerta andlit (augu, munn og nef) með óþvegnum höndum, og takmarka nánd við aðra (virða 2ja metra nándarmörk).

Önnur sýnataka og sóttkví
Allir sem komufarþegar þurfa að virða sóttkví á milli sýnatöku. Hér má finna lista yfir stöðvar sem sinna síðari sýnatöku eftir komuna. Athugið mismunandi opnunartíma stöðva og að á sumum þarf að panta tíma. Ef 5. dagur fellur á helgi eða frídag gæti þurft að fara í síðari sýnatöku seinna, ef utan höfuðborgarsvæðis, og lengist þá sóttkví um þann tíma.

Tilkynning niðurstaða
Gert er ráð fyrir að komufarþegar fái niðurstöður úr prófi innan sólarhrings. Jákvæðar niðurstöður eru tilkynntar símleiðis. Nauðsynlegt er að hægt sé að ná sambandi við alla komufarþega til að tilkynna um niðurstöðu úr prófi. Því er mikilvægt að hafa símann tengdan og eitt eða fleiri símanúmer virk. Ef ekki er hringt í þig eftir sólarhring er prófið neikvætt. Neikvæðar niðurstöður eru einnig sendar í gegnum appið Rakning C-19 og sem sms-skilaboð. Þetta á bæði við fyrri og síðari sýnatöku.

Ferli fyrir smitaða einstaklinga
Jákvætt próf við komuna til landsins leiðir til frekari rannsókna eins og mótefna¬mælingar til að kanna hvort um virkt smit sé að ræða. Sé um virkt smit að ræða ber viðkomandi að fara í einangrun. Þeir sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í einangrun, skulu dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að bera kostnað af því. Smituðum einstaklingum ber að veita smitrakningarteymi upplýsingar um hverja þeir hafa umgengist frá því 1-2 dögum áður en einkenna varð vart, eða frá því að smit greinist í einkennalausum einstaklingi. Ef viðkomandi mælist með mótefni er talið að um gamalt smit sé að ræða og viðkomandi sé ekki smitandi og þurfi því ekki einangrun.

Upplýsingar fyrir þá sem velja að fara í sóttkví
Upplýsingar um sóttkví er að finna á covid.is. Vakin er athygli á því að brot á sóttkví eða einangrun getur leitt til sekta og aðkomu yfirvalda til að koma í veg fyrir brot.

Ferli fyrir einstaklinga sem skipað er í sóttkví
Neikvæð niðurstaða úr sýnatöku á landmærum kemur ekki í veg fyrir að einstaklingur verði að fara í sóttkví ef í ljós kemur að hann hefur verið útsettur fyrir smiti, s.s. vegna þess að smitandi einstaklingur sat nálægt honum í flugvél eða ef ferðafélagi veikist og greinist með COVID-19.

Smitrakningarteymi hefur samband við þá sem hafa verið í nánd við smitaðan einstakling frá því 1-2 dögum áður en einkenna varð vart, t.d. umgengist hann lengur en 15 mínútur í minna en 2ja metra fjarlægð, verið í beinni snertingu við viðkomandi eða teljast hafa verið í nánd við smitaðan einstakling í flugvél. Þessir einstaklingar geta þurft að fara í sóttkví ef talið er að viðkomandi sé smitandi. Erlendir ríkisborgarar sem eiga ekki kost á að dvelja á eigin vegum í húsnæði sem samræmist leiðbeiningum um húsnæði í sóttkví, skulu dvelja í opinberu sóttvarnarhúsi án þess að þeir beri kostnað af því.

Einstaklingar sem leita læknisþjónustu
Greining, meðferð og eftirlit tilkynningarskyldra sjúkdóma, þar með talið COVID-19, er sjúklingi að kost¬naðarlausu. Þetta á ekki við um valkvæða sýnatöku vegna COVID-19.

Á meðan á dvöl stendur
Ætlast er til að allir gæti að sóttvörnum, svo sem handþvotti, þrifum og sótthreinsun snertiflata og virði gildandi reglur. Eins þarf að virða 2ja metra nándarmörk í samskiptum. Slíkt er mikilvægur hluti smitvarna.

PCR-próf hjá einkennalausum einstaklingum er ekki óyggjandi próf til að greina SARS-CoV-2 veiruna, sem veldur COVID-19. Ferðamenn eru hvattir til að hlaða niður og nota appið Rakning C-19. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um COVID-19 og hvernig nálgast á heilbrigðisþjónustuna. Einnig eru þeir hvattir til að fylgjast vel með covid.is vefsíðunni. Þar eru ávallt nýjustu upplýsingar og tilkynningar til ferðamanna að finna.

Ferðamenn eru hvattir til að huga að heilsu sinni. Þeir sem veikjast eða telja sig vera með COVID-19 einkenni geta haft samband við heilsugæsluna á dagtíma, í síma eða gegnum heilsuvera.is, Læknavaktina í síma 1700 utan dagvinnutíma (+354 544 4113 sé hringt úr erlendu símanúmeri) eða í gegnum Rakning C-19 appið.


Fyrst birt 05.06.2020
Síðast uppfært 19.01.2021

<< Til baka