Vottorð vegna fyrri COVID-19 sýkingar tekin gild á landamærum til undanþágu á sóttvarnaraðgerðum

Skyldur um sýnatöku og sóttkví eftir ferðalög:

 • Núgildandi reglur gera ráð fyrir að allir sem koma til Íslands eftir meira en sólarhringsdvöl á áhættusvæði m.t.t. COVID-19 framvísi vottorði um neikvætt PCR-próf en fari einnig í skimun við landamærin. Þeir sem eru án undanþágu fara aftur í skimun 5 dögum síðar og sæta sóttkví á milli sýnatöku. Ef seinna sýnið er neikvætt er sóttkví aflétt. Í dag eru öll lönd nema Grænland skilgreind sem áhættusvæði.
 • Allir sem koma til landsins þurfa að forskrá sig á covid.is.
 • Allir komufarþegar þurfa að fara í a.m.k. eina sýnatöku vegna COVID-19 á landamærum, hvaðan sem þeir koma og á hvaða aldri sem þeir eru, líka þeir sem eru með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu.
 • Á meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku er brýnt að fylgja þeim leiðbeiningum sem gilda um sóttkví.
 • Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa ekki að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf við komuna. Öll börn þurfa að undirgangast eina COVID-19 PCR skimun á landamærum.  Sýnataka hjá börnum má vera frá nefkoki, hálsi eða munni. Börn eru ekki undanþegin þó þau hafi fengið COVID-19 eða þau séu bólusett. Ef foreldri/forráðamaður fer í sóttkví fer barn í sóttkví en barn losnar úr sóttkví, án seinni sýnatöku, þegar sóttkví foreldris/forráðamanns er aflétt. Ef foreldri/forráðamaður er með vottorð til undanþágu á sóttkví er sóttkví aflétt þegar neikvæð niðurstaða liggur fyrir úr sýnatöku á landamærum.
 • Sjá nánar á covid.is

 

Eftirfarandi vottorð eru tekin gild á landamærum til undanþágu á kröfu um að framvísa neikvæðu PCR-prófi, og sóttkví:

 1. Vottorð um bólusetningu gegn COVID-19: Sjá skilyrði sóttvarnalæknis.
 2. Vottorð um afstaðna COVID-19 sýkingu sem uppfyllir skylirði sóttvarnalæknis um slík vottorð. Þær leiðbeiningar er að finna í þessu skjali.

Vottorð um afstaðna COVID-19 sýkingu þarf að vera rannsóknarniðurstaða frá rannsóknarstofu (eða staðfesting frá sóttvarnalækni á Íslandi). Vottorð eru tekin gild hvort sem þau eru upprunin frá löndum innan EES-svæðis eða utan. Klínísk sjúkdómsgreining er ekki tekin gild.

Vottorð mega á pappír eða á rafrænu formi. Landamæraverðir meta hvort vottorð er gilt og kalla til fulltrúa sóttvarnalæknis (heilbrigðisstarfsmann) ef þarf og lokaákvörðun um gildi vottorðs er á ábyrgð sóttvarnalæknis. Ef farþegi framvísar vottorði sem er ógilt, þ.e. ef einhver þeirra skilyrða sem er krafist eru ekki fyrir hendi, skal viðkomandi sæta þeim sóttvarnarráðstöfunum sem öðrum komufarþegum er gert að sæta, þ.e. að gangast undir tvöfalda skimun, sóttkví á milli sýnatöku og að dvelja í sóttvarnahúsi ef það á við.

 

Eftirfarandi vottorð eru tekin gild sem staðfesting á fyrri COVID-19 sýkingu:

 • Jákvætt PCR-próf (RT-PCR) fyrir SARS-CoV-2/COVID-19 sem er a.m.k. 14 daga gamalt.
 • Mótefnamæling með ELISA blóðvatnsprófi* á rannsóknarstofu sem staðfestir mótefni (IgG) gegn SARS-CoV-2/COVID-19.

Ekki er tekið við hraðprófum/skyndiprófum (e. RDTs) sem mæla mótefnavaka (e. antigen) eða mótefni.

 

Vottorð um fyrri COVID-19 sýkingu þurfa auk þess að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Vottorð þarf að vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Vottorð á öðru tungumáli má taka gilt ef þýðing stimpluð af löggildum skjalaþýðanda fylgir upprunalegu skjali á einu af tungumálunum sem krafist er.
 • Fornafn og eftirnafn (sambærilegt við ferðaskilríki).
 • Fæðingardagur.
 • Hvenær sýnataka/mótefnamæling fór fram (dagsetning)
 • Hvar sýnataka/mótefnamæling fór fram (land/borg/heimilisfang).
 • Heiti rannsóknarstofu/útgefanda vottorðs.
 • Dagsetning vottorðs.
 • Símanúmer hjá rannsóknarstofu/útgefanda vottorðs (eða nægar upplýsingar eins og vefsíða þannig að hægt sé að hafa samband við viðkomandi ef þarf).
 • Tegund prófs (PRC-próf eða mótefnamæling með ELISA blóðvatnsprófi*).
 • Niðurstaða rannsóknar (PCR-próf jákvætt fyrir SARS-CoV-2/COVID-19 eða mótefni (IgG) til staðar).

*EIA, ECLIA, ELFA, CMIA, CLIA, CLMIA eru sambærileg próf við ELISA.

Athugið að þó vottorð um afstaðna sýkingu séu tekin gild á landamærum Íslands til undanþágu á sóttvarnaraðgerðum við komuna á það ekki endilega almennt við um önnur lönd.


Fyrst birt 26.11.2020
Síðast uppfært 06.04.2021

<< Til baka