Vottorð vegna fyrri COVID-19 sýkingar tekin gild á landamærum til undanþágu

Núgildandi reglur gera ráð fyrir að allir sem koma til Íslands eftir meira en sólarhringsdvöl á áhættusvæði m.t.t. COVID-19 framvísi vottorði um neikvætt PCR-próf en fari einnig í skimun við landamærin og aftur 5 dögum síðar en sæti sóttkví á milli sýnatöku. Ef seinna sýnið er neikvætt er sóttkví aflétt. Í dag eru öll lönd skilgreind sem áhættusvæði.

Allir sem koma til landsins þurfa að forskrá sig á covid.is. Börn fædd árið 2005 og síðar þurfa að fara í sóttkví með foreldri/forráðamanni eftir ferðalag en eru undanþegin sýnatöku. Ef börn ferðast ein, eða með foreldri/forráðamanni sem er undanþeginn, fara þau í sýnatöku eftir 5 daga sóttkví eftir komuna. Börn 2ja ára og yngri eru undanþegin sýnatöku en ekki sóttkví. Börn þurfa ekki að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf.

Sjá nánar á covid.is

Framvísi einstaklingur við komuna vottorði um afstaðna COVID-19 sýkingu á Íslandi eða í EES/EFTA ríki* (með jákvæðu PCR-prófi sem er eldra en 14 daga og/eða mótefnum) er sýnataka og sóttkví undanþegin á grundvelli ætlaðs ónæmis fyrir SARS-CoV-2 og COVID-19. sbr. reglugerð nr. 161/2021. Þessir einstaklingar þurfa heldur ekki að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf.

Vottorð um afstaðna sýkingu þarf að vera rannsóknarniðurstaða frá rannsóknarstofu í EES/EFTA ríki* eða staðfesting frá sóttvarnalækni á Íslandi. Klínísk sjúkdómsgreining er ekki tekin gild.

Vottorð má vera á pappír eða á rafrænu formi. Landamæraverðir meta hvort vottorð er gilt og kalla til fulltrúa sóttvarnalæknis (heilbrigðisstarfsmann) ef þarf og lokaákvörðun um gildi vottorðs er á ábyrgð sóttvarnalæknis. Ef farþegi framvísar vottorði sem er ógilt, þ.e. ef einhver þeirra skilyrða sem er krafist eru ekki fyrir hendi, skal viðkomandi sæta þeim sóttvarnarráðstöfunum sem öðrum komufarþegum er gert að sæta, þ.e. að framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf og gangast undir tvöfalda skimun og sóttkví á milli.

Eftirfarandi vottorð eru tekin gild sem staðfesting á fyrri COVID-19 sýkingu:

 • Jákvætt PCR-próf (RNA) fyrir SARS-CoV-2/COVID-19 sem er a.m.k. 14 daga gamalt.
 • Mótefnamæling með ELISA blóðvatnsprófi** á rannsóknarstofu sem staðfestir mótefni (IgG) gegn SARS-CoV-2/COVID-19.
 • Ekki er tekið við hraðprófum/skyndiprófum (e.RDT) sem mæla mótefnavaka (e. antigen) eða mótefni.

Vottorð um fyrri COVID-19 sýkingu þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Vottorð þarf að vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Vottorð á öðru tungumáli má taka gilt ef þýðing stimpluð af löggildum skjalaþýðanda fylgir á einu af tungumálunum sem krafist er.
 • Fornafn og eftirnafn (sambærilegt við ferðaskilríki).
 • Fæðingardagur.
 • Hvenær sýnataka fór fram (dagsetning)
 • Hvar sýnatakan fór fram (land/borg/heimilisfang).
 • Heiti rannsóknarstofu/útgefanda vottorðs.
 • Dagsetning vottorðs.
 • Símanúmer hjá þeim aðila sem er ábyrgur fyrir útgáfu vottorðsins eða rannsóknarstofu.
 • Tegund prófs (PRC-próf eða mótefnamæling með ELISA blóðvatnsprófi**).
 • Niðurstaða rannsóknar (PCR-próf jákvætt fyrir SARS-CoV-2 eða mótefni (IgG) til staðar).

*auk Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkanið.
**EIA, ECLIA, ELFA, CMIA, CLIA, CLMIA eru sambærileg próf við ELISA

Athugið að þó vottorð um afstaðna sýkingu séu tekin gild á landamærum Íslands til undanþágu á sýnatöku og sóttkví á það ekki endilega almennt við um önnur lönd.


Fyrst birt 26.11.2020
Síðast uppfært 24.02.2021

<< Til baka