Vottorð vegna fyrri COVID-19 sýkingar og mótefna tekin gild á landamærum til undanþágu á sóttvarnaraðgerðum

(Enska - Pólska - Spænska - Litháíska)

Ferðamenn sem framvísa vottorði um fyrri sýkingu (jákvæðu PCR prófi) eða mótefnamælingu sem sýnir mótefni (sbr. skilyrði að neðan) eru undanþegnir ákveðnum aðgerðum á landamærum vegna COVID-19.

Þeir sem eru með viðurkennd vottorð um fyrri sýkingu/mótefni af völdum COVID-19 eða fulla bólusetningu þurfa að framvísa neikvæðu PCR- eða hraðprófi (e. antigen), sem má ekki vera eldra en 72 klst. gamalt við brottför (byrðingu), en eru annars undanþegnir sóttkví. 

Einstaklingum sem ekki geta framvísað vottorði um neikvætt próf við komu til landsins þurfa að fara í sýnatöku á landamærum en geta átt von á að vera snúið til baka eða þeim gert að greiða sekt. Íslenskum ríkisborgurum verður þó ekki meinað að koma til landsins. Á meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku þarf að fylgja reglum um sóttkví.

Ferðamenn sem hafa nýlega fengið COVID-19 og framvísa jákvæðu PCR prófi sem er eldra en 14 daga og yngra en 180 daga eru undanþegnir að framvísa neikvæðu prófi við komuna.

Athugið varðandi sýnatöku við komuna til landsins:
Ferðamenn með jákvætt PCR próf sem er eldra en 180 daga og ferðamenn með vottorð um mótefni, sem eru íslenskir ríkisborgarar, íbúar Íslands eða með ákveðin tengsl við Ísland þurfa að fara í COVID-19 próf á innan við tveimur dögum frá komu til landsins þrátt fyrir að framvísa einnig neikvæðu prófi við komuna. Sjá nánar á covid.is og í forskráningu.

Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin framvísun á neikvæðu prófi. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin forskráningu og sýnatöku. Ef barn ferðast með foreldri/forráðamanni sem fer í sóttkví fylgir barn með í sóttkví en losnar úr henni án sýnatöku, þegar sóttkví foreldris/forráðamanns er aflétt. Ef barn ferðast eitt eða með foreldri/forráðamanni sem er undanþeginn sóttkví er barnið einnig undanþegið.

 

Allir sem koma til landsins þurfa að forskrá sig á covid.is.

 

Viðurkennd vottorð á Íslandi:

1. Vottorð um bólusetningu gegn COVID-19 sem uppfylla skilyrði sóttvarnalæknis.
2. Vottorð um afstaðna COVID-19 sýkingu sem uppfylla neðangreind skilyrði.

 

Eftirfarandi vottorð eru tekin gild sem staðfesting á fyrri COVID-19 sýkingu:

 • Jákvætt PCR-próf (RT-PCR) fyrir SARS-CoV-2 / COVID-19 sem er eldra en 14 daga gamalt.
 • Mótefnamæling með blóðvatnsprófi á rannsóknarstofu sem staðfestir mótefni (IgG) gegn SARS-CoV-2 / COVID-19 með ELISA eða sambærilegri aðferð* (sjá neðar).

Ekki er tekið við hraðprófum sem mæla mótefni (e. rapid antibody test) eða erfðaefni (e. rapid PCR test).


Vottorð um fyrri COVID-19 sýkingu þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði. Vottorð sem uppfylla skilyrðin eru tekin gild frá öllum löndum og geta verið rafræn eða á pappír, þ.m.t. evrópskt stafrænt COVID vottorð; EU/EEA Digital Covid Certificate (sbr. reglugerð nr. 777/2021 um reglugerð ESB 2021/953).

 • Vottorð þarf að vera á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Vottorð á öðru tungumáli má taka gilt ef þýðing stimpluð af löggildum skjalaþýðanda fylgir upprunalegu skjali á einu af tungumálunum sem krafist er.
 • Fornafn og eftirnafn (sambærilegt við ferðaskilríki).
 • Fæðingardagur.
 • Hvenær sýnataka / mótefnamæling fór fram (dagsetning).
 • Hvar sýnataka / mótefnamæling fór fram (land / borg / heimilisfang).
 • Heiti rannsóknarstofu / útgefanda vottorðs.
 • Dagsetning vottorðs.
 • Símanúmer hjá rannsóknarstofu / útgefanda vottorðs (eða nægar upplýsingar, t.d. vefsíða, þannig að hægt sé að staðfesta niðurstöður ef þarf).
 • Tegund prófs (PRC-próf eða mótefnamæling en ekki skyndipróf).
 • Niðurstaða rannsóknar
   • PCR-próf jákvætt fyrir SARS-CoV-2 / COVID-19
   • Mótefni (IgG) til staðar með aðferð tilgreindri eða tölugildi
     • IgM mótefni myndast fljótlega eftir sýkingu en IgG myndast seinna. IgM eingöngu er ekki tekið gilt.

*EIA, ECLIA, ELFA, CMIA, CLIA, CLMIA eru sambærileg próf við ELISA.

Landamæraverðir meta hvort vottorð er viðurkennt og kalla til fulltrúa sóttvarnalæknis (heilbrigðisstarfsmann) ef þarf og lokaákvörðun um vottorð er á ábyrgð sóttvarnalæknis.

Ef farþegi framvísar vottorði sem ekki er viðurkennt, þ.e. ef einhver þeirra skilyrða sem er krafist eru ekki fyrir hendi, skal viðkomandi sæta sýnatöku og 5 daga sóttkví sem lýkur með annarri sýnatöku.

Athugið að þó vottorð um afstaðna sýkingu séu viðurkennd á landamærum Íslands til undanþágu á sóttvarnaraðgerðum við komuna á það ekki endilega almennt við um önnur lönd.

Ferðamenn sem framvísa ekki viðurkenndu vottorði um fulla bólusetningu eða fyrri sýkingu og koma til Íslands eftir meira en sólarhringsdvöl sl. 14 daga á áhættusvæðum m.t.t. COVID-19 sbr. núgildandi reglugerð:

 • Framvísa vottorði um neikvætt PCR próf, sem má ekki vera eldra en 72 klst gamalt við brottför erlendis
 • Fara í PCR próf við komuna hingað til lands
 • Sæta 5 daga sóttkví sem lýkur með annarri sýnatöku (PCR prófi)

 


Fyrst birt 26.11.2020
Síðast uppfært 04.09.2021

<< Til baka