Leiðbeiningar um rými utanhúss og innandyra vegna COVID-19

(English)

Fjöldatakmörkun á samkomum fer eftir ákvörðun yfirvalda hverju sinni.

Skv. reglugerð heilbrigðisráðherra, mega mest 500 manns koma saman í rými innan- sem utandyra. Grímuskylda er innandyra þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra nálægðartakmörk. Sjá ákveðnar undantekningar fyrir viðburði þar sem notuð eru hraðpróf.

Rými þurfa að vera aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 1 metra bili sem ekki má fara yfir.

Um öll rými og svæði gildir að einstaklingar eiga ekki að koma inn á þau ef þeir:

  • Eru í sóttkví.
  • Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
  • Eru með einkenni um COVID-19 (hósta, hita, hálssærindi, kvefeinkenni, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu, andþyngsli, uppköst eða niðurgang).

Þeir sem hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift þurfa að huga sérstaklega að persónulegum sóttvörnum.

Börn fædd árið 2006 og síðar eru undanþegin fjöldatakmörkunum, nálægðartakmörkunum og grímuskyldu.

Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, innan- og utandyra, skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 1 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Fullorðnir þurfa þannig að virða nálægðartakmörk sín á milli og við ótengd börn. Á íþróttaviðburðum, í sviðslistum og annarri menningarstarfsemi eru þátttakendur og sitjandi áhorfendur undanþegnir nálægðarmörkum.

Á veitingastöðum er hámarksfjöldi viðskiptavina í rými 500 og skulu þeir vera skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri. Virða þarf 1 metra fjarlægð milli ótengdra aðila. Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar skulu ekki hafa opið lengur en til miðnættis og vínveitingar skulu bornar fram til sitjandi gesta.

Hámarksfjöldi í verslunum er 500 viðskiptavinir í rými og er grímuskylda ef ekki hægt er að tryggja 1 metra nálægðartakmörk.

Á sviðslistum og öðrum menningarviðburðum er heimilt allt að 500 áhorfendur í hverju rými og 500 manns á sviði. Áhorfendur skulu nota grímu innandyra nema þegar neytt er drykkjar- eða neysluvöru. Heimilt er að hafa hlé og veitingasölu. Allir gestir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri og á sitjandi viðburðum í númeruð sæti.

Hámarksfjöldi á íþróttaæfingum og -keppnum er 500 manns í rými. Íþróttir eru undanþegnar nálægðartakmörkun. Hámarksfjöldi áhorfenda á íþróttaviðburðum er 500 í rými og þar er grímuskylda innandyra nema þegar neytt er matar- eða neysluvöru. Skylt er að skrá áhorfendur með nafni, kennitölu og símanúmeri og á sitjandi viðburðum í númeruð sæti. ÍSÍ setur sérsamböndum nánari reglur í samvinnu við sóttvarnalækni m.a. um áhorfendur (sjá á vef ÍSÍ).

Þrátt fyrir almenna fjöldatakmörkun 500 manns er heimilt að hafa allt að 1.500 manns í rými á viðburðum, sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

  1. Allir gestir fæddir 2005 og fyrr framvísi neikvæðri niðurstöðu úr COVID-19 hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst.
  2. Að viðhöfð sé 1 metra nálægðarregla nema þegar gestir eru sitjandi.
  3. Allir gestir séu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri og sitjandi gestir skráðir í sæti.
  4. Þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra nálægðarreglu milli standandi gesta innandyra skulu allir gestir nota andlitsgrímu.

Þá er grunn- og framhaldsskólum heimilt að halda skemmtanir fyrir allt að 1.500 gesti að því gefnu að gestir framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst. Slíkar skemmtanir eru undanþegnar nálægðartakmörkun og grímuskyldu. Skrá skal alla gesti með nafni, kennitölu og símanúmeri.

Hámarksfjöldi á heilsu- og líkamsræktarstöðvum, sund- og baðstöðum miðast við leyfilegan hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Í hverju rými í heilsu- og líkamsræktarstöðvum skulu ekki vera fleiri en að hámarki 500 manns og 1 metra nálægðartakmörk skulu virt. Gestir skulu vera skráðir. Sóttvarnalæknir gefur út nánari leiðbeiningar um heilsu- og líkamsræktarstöðvar og sund- og baðstaði vegna COVID-19. Sjá leiðbeiningar sóttvarnalæknis.

Tjald- og hjólhýsasvæðum er heimilt að taka á móti hámarksfjölda móttökugetu hvers svæðis og hámark 500 manns í rými. Á svæðunum gildir 1 metra nálægðartakmörkun milli ótengdra einstaklinga. Sjá nánar í leiðbeiningum sóttvarnalæknis og Ferðamálastofu.

Auðvelt aðgengi að handhreinsun þarf að vera til staðar í hverju rými eins víða og hægt er en a.m.k. við inn- og útganga, við veitingasölu og í verslunum við afgreiðslukassa og innkaupakerrur.

Enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Hvert skilgreint rými þarf helst að hafa eigin inngang og útgang. Hægt er að nota sama inn- og útgang ef aðilar í hverju rými fara inn og út á aðskilinn hátt (á mismunandi tímum) þannig að engin blöndun sé á milli hópa. Lofta ætti út á milli hópa ef hægt er og þrífa snertifleti reglulega.

Minna skal almenning og starfsmenn á enstaklingsbundnar sóttvarnir, svo sem munnlega, með merkingum eða skiltum. Veggspjöld til áminningar sem hægt er að nota eru til á covid.is.

Salerni þurfa að vera aðskilin fyrir hvert rými. Ekki má samnýta salerni milli rýma á neinn hátt.

Starfsfólk eða framleiðsluaðilar mega ekki fara á milli rýma.

Innandyra skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega sameiginlega snertifleti og a.m.k. daglega.

Tryggja skal góða loftræstingu þar sem umgangur fólks er nokkur og lofta reglulega út með því að og opna glugga og hurðir í a.m.k. 15 mín (eða lengur) í senn,  nokkrum sinnum yfir daginn.

Brýna þarf fyrir einstaklingum að gæta ýtrustu varkárni og virða reglur um nálægðartakmarkanir, grímunotkun og sóttvarnir. Veggspjöld til notkunar má finna á covid.is.


Fyrst birt 01.07.2020
Síðast uppfært 27.09.2021

<< Til baka