Leiðbeiningar um rými utanhúss og innandyra vegna COVID-19

(English)

Fjöldatakmörkun á samkomum fer eftir ákvörðun yfirvalda hverju sinni.

Skv. reglugerð  heilbrigðisráðherra, mega mest 10 manns koma saman í rými innan- sem utandyra. Tryggja skal að ekki sé samgangur á milli rýma. Rými þurfa að vera aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem ekki má fara yfir.

Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, innan- og utandyra, skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli ótengdra einstaklinga. Fullorðnir þurfa þannig að virða nálægðartakmörk sín á milli sem og við ótengd börn.

Börn fædd árið 2016 og síðar eru undanþegin nálægðartakmörkunum og börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímunotkun.

Um öll rými og svæði gildir að einstaklingar eiga ekki að koma inn á þau ef þeir:

  • Eru í sóttkví
  • Eru í einangrun
  • Eru með einkenni og bíða niðurstöðu sýnatöku

Þeir sem eru með einkenni sem samrýmast COVID-19 (m.a. hósta, hita, hálssærindi, kvefeinkenni, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu, andþyngsli, uppköst eða niðurgang) eiga að fara sem fyrst í PCR sýnatöku og halda sig sem mest til hlés þangað til niðurstaða fæst.

Auðvelt aðgengi að handhreinsun þarf að vera til staðar í hverju rými eins víða og hægt er en a.m.k. við inn- og útganga, við veitingasölu og í verslunum við afgreiðslukassa og innkaupakerrur.

Enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Hvert skilgreint rými þarf helst að hafa eigin inngang og útgang. Hægt er að nota sama inn- og útgang ef aðilar í hverju rými fara inn og út á aðskilinn hátt (á mismunandi tímum) þannig að engin blöndun sé á milli hópa. Starfsfólk eða framleiðsluaðilar mega ekki fara á milli rýma.

Tryggja skal góða loftræstingu þar sem umgangur fólks er og lofta reglulega út með því að opna glugga og hurðir í 15 mín eða lengur í senn, nokkrum sinnum yfir daginn.

Innandyra skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega sameiginlega snertifleti og a.m.k. daglega.

Salerni þurfa að vera aðskilin fyrir hvert rými. Ekki má samnýta salerni milli rýma á neinn hátt.

Minna skal almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir, handhreinsun og nálægðartakmörk, munnlega og með merkingum eða skiltum. Veggspjöld til áminningar sem hægt er að nota eru til á covid.is.

Í verslunum og söfnum heimilt að taka við 50 manns í rými og til viðbótar fimm viðskipta­vinum á hverja 10 m², þó að hámarki 200 viðskiptavinum í rými og leitast skal við að viðhafa 2 metra nálægðarmörk.

Þá er heimilt að hafa allt að 50 manns á sitjandi viðburðum, svo sem athöfnum trú- og lífsskoðunarfélaga, á íþróttaviðburðum, í kvikmyndahúsum og leikhúsum, að uppfylltum skilyrðum að gestir sitji en ekki andspænis hver öðrum, 1 metra nálægðarmörk séu virt og allir noti grímu. Þá má ekki selja áfengisveitingar fyrir, á meðan á stendur eða eftir viðburð.

Hámarksfjöldi á íþróttaæfingum og -keppnum fullorðinna og barna er 50 manns í rými. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum. ÍSÍ setur nánari reglur um sóttvarnir og framkvæmd æfinga og keppni í samvinnu við sóttvarnalækni (sjá á vef ÍSÍ ).

Hámarksfjöldi á heilsu- og líkamsræktarstöðvum, sund- og baðstöðum miðast við 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi (börn fædd 2016 og síðar teljast ekki með).

Veitingastaðir og kaffihús mega að hámarki hafa 20 gesti í rými og skulu vín­veitingar eingöngu bornar fram til sitjandi gesta. Viðhafa þarf 1 metra nálægðartakmörk milli sitjandi gesta. Skemmtistaðir og krár skal lokað.

Hámarksfjöldi nemenda í leik-, grunn-, framhalds- og háskólum og í frístund á grunnskólastigi er 50 í hverju rými. Hámarksfjöldi starfsfólks í í skólum er almennt 20 manns og er heimilt að fara á milli rýma. Nálægðartakmarkanir taka ekki til barna á leikskólaaldri og ekki til starfsfólks í samskiptum við þau börn.Sjá nánar í sérstakri reglugerð um takmörkun á skólastarfi.

Fjöldatakmarkanir gilda ekki um heilbrigðisstofnanir, almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innan­landsflug, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkviliðs, hjálparliðs almanna­varna og heilbrigðisstarfsfólks. Enn fremur gildir fjöldatakmörkun ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, þjóðaröryggisráðs, Alþingis og dómstóla.

 


Fyrst birt 01.07.2020
Síðast uppfært 16.01.2022

<< Til baka